1887

OECD Multilingual Summaries

Entrepreneurship at a Glance 2017

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/entrepreneur_aag-2017-en

Frumkvöðlastarf í hnotskurn 2017

Útdráttur á íslensku

Í flestum löndum OECD sem gögn liggja fyrir um halda tölur um nýstofnanir fyrirtækja áfram að batna og í mörgum löndum er staðan orðin betri en á árunum fyrir fjármálakreppuna, sem bendir til þess að það kunni að vera að draga úr langtímahnignun á þessu sviði.

Batnandi þróun í gjaldþrotamálum styrkir enn vísbendingarnar um viðsnúning í umhverfi frumkvöðla. Í lok 2016 var fjöldi gjaldþrota í flestum löndum kominn niður á stig sem ríkti fyrir kreppuna eða neðar. Og jafnvel í löndum þar sem gjaldþrot voru ennþá fleiri en árið 2007, einkum á Íslandi, Ítalíu og Spáni, er þróunin á fyrri hluta 2017 að byrja að sýna batamerki.

Þjónustugreinar hafa verið mikilvægur drifkraftur fyrirtækjastofnunar

Í öllum löndum OECD hefur fyrirtækjamyndun í þjónustugreinum verið meiri en í iðnaðargreinum og þar hafa myndast um tveir þriðju allra starfa sem til urðu með stofnun nýrra fyrirtækja árið 2014. Í flestum hagkerfum sköpuðu ný iðnfyrirtæki innan við 15% þeirra starf sem til urðu. Ennfremur dróst atvinna í framleiðslugreinum saman í öllum löndum nema tveimur, þ.e. Lúxemborg og Þýskalandi, frá 2008 til 2014.

Atvinnustig hefur einnig batnað í mörgum löndum og í flestum löndum eru það lítil og meðalstór fyrirtæki, gömul sem ný, sem hafa verið drifkrafturinn í vextinum. Í framleiðslugreinum hefur störfum í stórum fyrirtækjum á evrusvæðinu, sem urðu síður fyrir barðinu á kreppunni en lítil og meðalstór fyrirtæki, haldið áfram að fjölga hraðar en í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í Bandaríkjunum hefur hið gagnstæða átt við og stórfyrirtæki í þjónustugreinum hafa dregið vagninn í fjölgun starfa.

Munur á framleiðni milli stærri og minni fyrirtækja er mjög mismunandi milli landa og atvinnugreina. Almennt er framleiðnibilið þó mun minna í þjónustugreinum en í framleiðslugreinum. Segja má að því meira sem framleiðnibilið er, því stærra verði launabilið – til að mynda greiddu stórfyrirtæki í Þýskalandi meira en 50% launaauka samanborið við fyrirtæki af miðlungsstærð og meira en tvöföld laun á við smærri fyrirtæki og örfyrirtæki – þannig að vöxtur á þjónustusviðinu gæti hjálpað til að minnka launadreifinguna í hagkerfinu öllu.

Aukin frumkvöðlastarfsemi í þjónustugreinum gæti einnig hjálpað til að draga úr launamun kynjanna, þar sem konur eru hlutfallslega fjölmennari í hópi stofnenda nýrra fyrirtækja á þjónustusviði. Á síðustu tíu árum hefur bilið milli fjölda sjálfstætt starfandi karla og kvenna minnkað í nærri öllum löndum. Enn stendur þó eftir verulegur kynbundinn launamunur: Í löndum OECD er ein af hverjum tíu konum sjálfstætt starfandi meðan samsvarandi hlutfall karla er 17%.

Launabilið í framleiðslustörfum er að aukast í mörgum löndum

Í mörgum löndum hefur aukning framleiðni í litlum og meðalstórum fyrirtækjum í framleiðsluiðnaði eftir kreppuna dregist aftur úr stórum fyrirtækjum, sem eykur á ójöfnuðinn í framleiðni, einkum í Belgíu, Tékklandi, Þýskalandi, Lettlandi og Slóvakíu. Aftur á móti jókst launabilið milli stærri og smærri framleiðslufyrirtækja í öllum löndum Austur Evrópu – að Póllandi undanskildu – í Eystrasaltsríkjum, Noregi og Bretlandi frá 2008 til 2014.

Stafræn tæki hafa opnað nýjar leiðir og nýja markaði fyrir örfrumkvöðla

Þróun ódýrra stafrænna tækja og vettvanga hefur leitt til nýrra tækifæra fyrir örfyrirtæki til þess að sækja inn á erlenda markaði sem áður hefðu verið utan seilingar.

Nýjar upplýsingar úr könnun um framtíð viðskipta (e. „Future of Business Survey“), sem er sameiginleg mánaðarleg könnun Facebook, OECD og Alþjóðabankans á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa starfsemi á netinu, sýna að „bara ég“ frumkvöðlar, (þ.e. einyrkjar með enga starfsmenn) geta tekið þátt í útflutningi sem aðalstarfsemi í viðskiptum sínum með því að nýta sér rafræn tæki þótt þeir starfi í smáum stíl. Tvö af hverjum þremur útflutningsfyrirtækjum svöruðu að meira en helmingur erlendrar sölu hjá þeim byggði á stafrænum tækjum og nærri helmingur (45%) greindi frá því að meira en 75% af alþjóðlegri sölu þeirra byggðu á rafrænum tækjum.

Nýjustu gögn úr sömu könnun staðfesta einnig fyrri niðurstöður um að viðskiptafyrirtæki sem eru í alþjóðlegum viðskiptum hafa meiri tiltrú á núverandi ástandi og framtíðarhorfum sínum og þau eru einnig líklegri til þess að hafa jákvæðari sýn varðandi atvinnusköpun. Þetta á einnig við um einyrkja sem stunda kaupskap. Að því sögðu, sýnir könnunin einnig að stór fyrirtæki hafa almennt jákvæðari mat á stöðu starfsemi sinnar en minni fyrirtæki. Þetta er til marks um þær veigamiklu áskoranir sem örfyrirtæki standa frammi fyrir í rekstri og þróun viðskipta sinna, svo sem að uppfylla kröfur regluverksins, tryggja sér fjármagn, ráða og þjálfa hæft starfsfólk og finna samstarfsaðila.

Tilkoma „giggara“

Í flestum löndum hefur hin almenna þróun verið sú að sjálfstætt starfandi einstaklingum sem vinna aðeins hlutastarf fer fjölgandi. Hlutastarf einyrkja hefur vaxið töluvert á undanförnum áratug og er það að hluta til marks um ný tækifæri sem leiða af „lausamennskuhagkerfinu“, þ.e. vaxandi fyrirbæri sem felst í sveigjanlegu vinnufyrirkomulagi og kemur sem viðbót við full launastörf í hagkerfinu eða í staðinn fyrir þau. Þótt „gigg“, eða „verkefni“ séu ekki nýtt fyrirbæri (skemmtanaiðnaðurinn hefur alltaf reitt sig á verkefnavinnu) eru þau nú víðar í boði og laða til sín stærri og fjölbreyttari hóp en áður var og á breiðara sviði þjónustugreina en nokkru sinni fyrr.

Tilkoma lausamanna vekur nýjar spurningar um það hversu viðeigandi sé að líta á hlutfall eða umfang sjálfstætt starfandi fólks sem merki um frumkvöðlastarfsemi, þar sem samhengið milli verkefnahagkerfisins og frumkvöðlastarfsemi er engan veginn ljóst. Þátttakendur í verkefnahagkerfinu kunna að vera frumkvöðlar í smáum stíl, en margir sem eru í verkefnavinnu veita þjónustu sína við aðstæður sem svipar til hefðbundinnar launavinnu og má þar einkum nefna að þeir taka ekki sömu áhættu og frumkvöðlar. Á sama tíma er sá sveigjanleiki sem býðst með verkefnavinnu oft ólíkur þeim sem unnt er að ná fram í hefðbundinni atvinnu og kann það að hvetja frumkvöðla til þess að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum um fyrirtækjastofnun meðan þeir sjá sér á sama tíma farborða

Af þessum sökum verða erfiðleikar í mælingum þegar metinn er þáttur lausamanna í frumkvöðlastarfsemi, en vísbendingar eru um að verkefnahagkerfið kunni stundum að draga úr frumkvöðlastarfsemi, einkum þegar starfssvið verkefnahagkerfisins koma í stað frumkvöðlastarfsemi af lágum gæðum en ekki sem stuðningur við frumkvöðlastarf af hærri gæðum.

Að takast á við þessi mælingavandkvæði og kanna leiðir til þess að bæta gagnasöfnun á þessu sviði verður viðfangsefni aðstandenda þessarar ritraðar í viðleitninni til þess að efna þá skuldbindingu að veita betri tölfræðilegar upplýsingar til mælinga á frumkvöðlastarfsemi. Meðal þess sem verið er að vinna að á þessu sviði má nefna flokkun og lýsingu nýrra fyrirtækja eftir eignarhaldi og viðskiptastöðu og staðsetningu í alþjóðlegum virðiskeðjum, þróun betri gagna um kynjahlutföll og einnig, í almennara samhengi, könnun á hugsanlegum tölfræðilegum gildrum og hættum þegar rýnt er í gögn um frumkvöðlastarfsemi.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), Entrepreneurship at a Glance 2017, OECD Publishing.
doi: 10.1787/entrepreneur_aag-2017-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error