1887

OECD Multilingual Summaries

OECD-FAO Agricultural Outlook 2016-2025

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/agr_outlook-2016-en

OECD‑FAO: Horfur í landbúnaði 2016‑2015

Útdráttur á íslensku

Ritið Horfur í landbúnaði 2016‑2025 er samstarfsverkefni OECD og FAO. Í því eru leidd saman þekking beggja stofnana á málum sem varða hrávöru, stefnumótun og landsbundnar aðstæður og svo framlög einstakra samstarfslanda, svo úr verður heildstætt mat á horfum til meðallangs tíma á mörkuðum fyrir landbúnaðarvörur í einstökum löndum og heimshlutum og á heimsvísu. Í ritinu eru settar fram áætlanir um framboð, eftirspurn, viðskipti og verðlagningu ýmissa landbúnaðarvara í 41 landi og 12 heimshlutum. Í sérstökum þemakafla í útgáfu þessa árs er athygli beint að horfum og áskorunum í landbúnaði Afríku sunnan Sahara.

Verðfall varð á öllum á helstu uppskerum, búpeningi og sjávarafurðum á árinu 2015, sem er vísbending um að tímabil hárrar verðlagningar sé líklega á enda í öllum undirgreinum. Verð á kjöti féll úr þeim hæðum sem náðust á árinu 2014, verð á mjólkurafurðum hélt áfram niðurleiðinni sem hófst árin 2013 og 2014, meðan uppskeruverð lækkaði enn frá hámarkinu sem náðist 2012.Helstu þættirnir sem stuðla að lægra verðlagi eru nokkur ár verulegrar aukningar á framboði, minnkandi eftirspurn vegna hinnar almennu efnahagslægðar, lægra olíuverð og frekari uppsöfnun birgða, sem þó voru miklar fyrir.

Á því tíu ára tímabili sem spáin nær til er gert ráð fyrir að smám saman muni draga úr eftirspurn eftir matvælum. Dregið hefur úr fólksfjölgun í heiminum, en það hefur verið helsti drifkraftur vaxandi eftirspurnar, og gert er ráð fyrir að dragi úr tekjuaukningu í nýhagkerfum. Á sama tíma sýna neytendur, einkum í fjölmennum nýhagkerfum, minnkandi hneigð til þess að verja tekjuauka sínum til aukinnar neyslu á grunnfæðutegundum. Eftirspurn eftir kjöti, fiski og mjólkurafurðum mun vaxa tiltölulega mikið, sem aftur eykur eftirspurn eftir fóðri, einkum úr grófu korni og prótínmjöli. Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir landbúnaðarvöru til framleiðslu á lífrænu eldsneyti standi í stað vegna lægra orkuverðs og íhaldssamari stefnumótunar um notkun lífræns eldsneytis í nokkrum löndum.

Gert er ráð fyrir að vaxandi neysla í þróunarlöndum muni draga úr hlutfalli fólks sem býr við næringarskort úr 11% í 8% á næstu tíu árum og að heildarfjöldi vannærðra fari úr 788 milljónum og verði undir 650 milljónum. Hins vegar er vannæring í Afríku sunnan Sahara enn mikil og eftir tíu ár verður rúmlega þriðjung vannærðra í heiminum að finna í þeim heimshluta, samanborið við rétt rúman fjórðung nú. Mörg lönd munu standa frammi fyrir flókinni byrði vannæringar (of fáar hitaeiningar), offitu og skorts á snefilefnum (en ójafnvægi í mataræði er sameiginlegt vandamál). Í bæði þróuðum löndum og þróunarlöndum er gert ráð fyrir að neysla sykurs, olíu og feitmetis muni aukast hraðar en neysla grunnfæðu og prótíns, ekki síst vegna þess að fólk neytir meira af unninni matvöru.

Gert er ráð fyrir að vaxandi eftirspurn eftir matvælum verði mætt með framleiðniaukningu en litlum breytingum á ræktunarsvæðum og búfjárstofnstærðum Gert er ráð fyrir að bættur afrakstur muni skýra 80% af þeirri aukningu sem verður á uppskeru. Nokkurt svigrúm er til þess að auka landbúnaðarsvæði með sjálfbærum hætti, einkum í hlutum latnesku Ameríku og Afríku sunnan Sahara. Mestur hluti nýrra ræktunarsvæða mun fara undir korn, en áherslan í aukningunni í latnesku Ameríku verður á sojabaunir. Gert er ráð fyrir að aukning uppskeru í helstu framleiðsluríkjunum verði minni eftir því sem erfiðara verður að komast lengra á sviði tækninýjunga. En fyrir hendi eru stór göt á uppskeru í mörgum þróunarríkjum, einkum í Afríku sunnan Sahara, og með því að staga í þau göt mætti auka framboð á heimsvísu verulega.

Með því að horft er fram á að hægja muni á heildarmarkaðsvexti má gera ráð fyrir að viðskipti með landbúnaðarvörur aukist á hálfum hraða miðað við síðasta áratug. Engu að síður má segja um flestar hrávörur að viðskipti með þær haldi föstu hlutfalli á heimsmarkaði. Sú staðreynd að tiltölulega fá lönd búa yfir ríkulegum náttúruauðlindum þýðir að viðskipti munu verða mikilvægari fyrir fæðuöryggi heimsins. Hins vegar hamlar það viðskiptum með grunnmatvöru að í mörgum löndum er fylgt stefnu um sjálfsnægtir og um kerfisbundna þróun i átt til viðskipta með virðisaukavörur.

Um flestar landbúnaðarvörur gildir að framboðið í heimsviðskiptum stafar frá örfáum mikilvægum löndum. Að því er varðar allar þær vörur sem ritið nær til eru það fimm aðalútflutningslönd sem munu ráða a.m.k. 70% af heildarútflutningi og í sumum tilvikum munu aðeins tvö til þrjú lönd hafa algera yfirburði. Innflutningsmegin er minni samþjöppun, þótt Kína ráði úrslitum á markaðinum fyrir suma hrávöru – einkum sojabaunir, en einnig mjólkurvörur og gróft korn annað en maískorn. Gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru rík að auðlindum, einkum í Norður‑Afríku og Miðausturlöndum, muna verða enn háðari innflutningi á matvælum.

Þar sem framboð og eftirspurn eru að verulegu leyti í jafnvægi má gera ráð fyrir litlum breytingum á raunverði landbúðarvara. Hins vegar verður um að ræða einhverjar hlutfallslegar breytingar sem endurspegla breytingar á samsetningu eftirspurnar og mun á framboðsskilyrðum, svo sem því að tiltölulega er auðveldara að auka framleiðslu í latnesku Ameríku í samanburði við Asíu. Í heild er gert ráð fyrir að verð á búpeningi muni hækka í samanburði við verð á uppskerum, og að verð á grófu korni og olíufræjum muni hækka í samanburði við verð á grunnmatvælum. Líklegt er að þessi kerfisbundna tilhneiging verði enn sýnilegri í núverandi umhverfi lægra verðlags í öllum flokkum hrávara.

Horfurnar sem settar eru fram eru háðar ýmsum óvissuþáttum, svo sem um frávik í olíuverði, uppskerum og hagvexti. Ef söguleg frávik í þessum þáttum halda áfram eru sterkar líkur á að minnsta kosti einni skarpri verðsveiflu innan næstu tíu ára. Slíkar skarpar verðbreytingar milli ára geta dulið langtímaþróunina. Loftslagsbreytingar geta aukið þessa óvissu, einkum ef tíðni öfgaveðuratburða eykst.

Að auki eru nokkrir óvissuþættir sem stafa af stefnumörkun. Einn þessara þátta tengist nýlegri tilkynningu Kínverja um breytingar á stefnu sinni varðandi korn, þ.m.t. um innlenda verðlags‑ og birgðastýringu. Í þessu riti er gert ráð fyrir að þær breytingar muni gera Kína kleift að ná innlendu markmiði sínu um að viðhalda háu sjálfsnægtastigi í maís án þess að það valdi verulegri röskun á alþjóðlegum mörkuðum. Hins vegar eru tímasetning og umfang birgðalosunar verulegir óvissuþættir í spánni. Annar áhættuþáttur er viðskiptabannið á Rússland, sem gert er ráð fyrir að renni út í árslok 2017.

Afríka sunnan Sahara

Í Afríku sunnan Sahara búa meira en 950 milljónir manna, eða um það bil 13% alls fólks heimsins. Þrátt fyrir þær breytingar sem eru að verða á hagkerfum í þessum heimshluta er landbúnaður enn grunnatvinnugrein, sem sér milljónum manna fyrir lífsviðurværi. Munurinn innan svæðisins á uppbyggingu og þróunarstigi landbúnaðar endurspeglar þann gríðarlega mun sem er á landbúnaði, vistkerfum, stjórnmálum og menningu í álfunni. Vannæring hefur verið vandamál frá fornu fari og árangrinum sem náðst hefur í átt til fæðuöryggis í þessum heimhluta er misskipt.

Þróun landbúnaðar á þessum svæðum markast af örri fólksfjölgun, þéttbýlismyndun og aukinni fjölbreytni á strjálbýlissvæðum, kerfisbundinni breytingu í átt frá landbúnaðarstarfsemi til annarrar starfsemi, uppgöngu millistéttar og vaxandi áhuga (innan lands sem utan) á ræktarlandi í álfunni. Spáð er að heildarlandbúnaðarframleiðsla muni aukast um 2,6% á ári. Ólíkt fyrri framleiðsluaukningu, sem í heild stafaði af stækkun ræktarsvæða, mun vaxandi hlutdeild í framleiðsluaukningu framtíðarinnar stafa af bættri framleiðni. Þörf verður á þróun sem gagnast öllum og bætir framleiðni smábænda, sem ekki hafa úr miklum auðlindum að spila, og skapar jafnframt tækifæri til byggðaþróunar í dreifbýli á breiðari grunni.

Að gefnum þeim forsendum að fólksfjölgun verði hröð á svæðinu og að tekjur hækki jafnframt því að haldið verði áfram á sömu braut varðandi stefnumótun og markaðsuppbyggingu er því spáð að uppskerur til manneldis muni vaxa hægar en eftirspurn. Gert er ráð fyrir að innflutningur matvæla umfram útflutning í Afríku sunnan Sahara muni aukast á næsta áratug, þótt fjárfesting í aukinni framleiðni gæti dregið úr þeirri þróun.

Mörg landanna eru samkeppnishæfir framleiðendur og útflytjendur ávaxta og jurta til drykkjargerðar, sem stuðlar að auknum gjaldeyrisforða. Vörur af þessum toga gætu veitt bændum tækifæri til þess að reiða sig á annað en hefðbundnar uppskerur til manneldis. Þær gætu einnig verið mikilvæg uppspretta atvinnutækifæra fyrir ungt fólk í álfunni. Þegar fjöldi útflytjenda matvæla eru fáir en innflytjendur margir er frjáls verslun innan svæða mikilvæg fyrir fæðuöryggi.

Þótt horfur í landbúnaði Afríku sunnan Sahara séu í breiðum skilningi jákvæðar mætti bæta þær verulega ef stefnumótun á svæðinu í heild væri stöðugri, ef fjárfesting opinberra aðila og einkaaðila væri markvissari, einkum í innviðum, og ef rannsóknir yrðu auknar og útfærðar með viðeigandi hætti. Fjárfestingar af þessum toga gætu bætt markaðsaðgang, dregið úr tjóni sem verður eftir að uppskera er komin í hús og stuðlað að betra aðgengi að þeim úrræðum sem þörf er á.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD/FAO (2016), OECD-FAO Agricultural Outlook 2016-2025, OECD Publishing.
doi: 10.1787/agr_outlook-2016-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error