1887

OECD Multilingual Summaries

The Ocean Economy in 2030

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264251724-en

Hagkerfi hafsins árið 2020

Útdráttur á íslensku

Í augum margra er hafið hin nýju útmörk efnahagslífsins. Í hafinu felast fyrirheit um gríðarlegar auðlindir og mikla möguleika til þess að örva efnahagsvöxt, atvinnu og nýsköpun. Einnig er í auknum mæli litið á hafið sem nauðsynlegan þátt til þess að takast á við mörg hinna alþjóðlegu vandamála sem heimurinn mun standa frammi fyrir á komandi áratugum, allt frá alþjóðlegu fæðuöryggi og loftslagsbreytingum til orkuvinnslu, auðlinda og bættrar heilbrigðisþjónustu. Þótt möguleikarnir sem í hafinu felast til þess að takast á við þessi viðfangsefni séu gríðarlegir er hafið nú þegar undir álagi vegna ofnýtingar, mengunar, minnkandi líffræðilegs fjölbreytileika og loftslagsbreytinga. Ef nýta á möguleika hafsins til fulls verður því þörf á ábyrgri og sjálfbærri nálgun að efnahagslegri þróun þess.

Til hagkerfis hafsins teljast atvinnuvegir sem byggja á hafinu (svo sem sjóflutningar, fiskveiðar, vindmyllur á sjó, sjávarlíftækni), en einnig náttúruauðlindirnar og vistkerfisþjónustan sem hafið veitir (fiskur, flutningaleiðir, upptaka koldíoxíðs o.þ.h.). Þar sem þetta tvennt er óaðskiljanlega samtvinnað er í skýrslu þessari fjallað um fjölmarga þætti vistkerfisþjónustu og stjórnunar á grundvelli vistkerfisþjónustu, jafnframt því sem sjónum er beint að atvinnuvegum hafsins.

Hið hnattræna hagkerfi hafsins, mælt á grundvelli framlags atvinnugreina hafsins til efnahagsframleiðslu og atvinnusköpunar, er verulegt. Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum sem byggja á tölum úr gagnagrunni OECD um hagkerfi hafsins var efnahagsframleiðsla hafsins á árinu 2010 metin á 1,5 trilljónir bandaríkjadala, eða u.þ.b. 2,5% af heildarvinnsluvirði (GVA) heimsins. Olía og gas af hafsbotni námu einum þriðja af heildarvirðisauka atvinnugreina hafsins og í kjölfarið komu ferðaþjónusta á sjó og ströndum, þá siglingabúnaður og hafnarstarfsemi. Atvinna sem tengdist hagkerfi hafsins beint nam um 31 milljón stöðugilda á árinu 2010. Stærstu vinnuveitendurnir voru sjávarútvegsfyrirtæki, með einn þriðja af heildinni, og strandferðaþjónusta með nærri fjórðung.

Efnahagsstarfsemi á hafinu eykst hratt og er aukningin fyrst og fremst drifin áfram af hagvexti, auknum viðskiptum og hækkandi launum, veðurfari og umhverfi, svo og tækni. Hins vegar setur hnignandi heilsufar hafsins skorður við frekari þróun hagkerfis þess. Kolefnislosun af mannavöldum hefur aukist í tímans rás og hafið hefur tekið við miklu af þessu kolefni með tilheyrandi súrnun. Einnig fer hitastig hafsins hækkandi, svo og yfirborð þess, og hafstraumar eru að breytast, sem veldur því að líffræðilegur fjölbreytileiki og heimkynni tegunda glatast, samsetning fiskistofna breytist og tíðni alvarlegra veðurfarsatburða eykst. Enn versna horfurnar í framtíðarþróun á hafinu ef litið er til mengunar frá landstöðvum, einkum vegna afrennslis frá landbúnaði, kemískra efna og míkróplasts og stærri hluta úr plasti, sem berast í hafið með fljótum, svo og vegna ofveiði og rýrnunar fiskstofna í mörgum heimshlutum.

Ef horft er fram til ársins 2030 er mögulegt að margar atvinnugreinar á hafinu geti vaxið umfram heimshagkerfið í heild, bæði að því er varðar virðisauka og atvinnusköpun. Þessir framreikningar benda til þess að milli 2010 og 2030, miðað við óbreyttar aðstæður í heimsviðskiptum, geti hagkerfi hafsins meira en tvöfaldað framlag sitt til heildarvinnsluvirðis og farið yfir 3 trilljónir bandaríkjadala. Sérstaklega er gert ráð fyrir miklum vexti í fiskeldi, vindorku á hafi úti, fiskvinnslu, skipasmíðum og skipaviðgerðum. Einnig eru möguleikar á því að atvinnuvegir hafsins skili mikilvægu framlagi til atvinnusköpunar. Á árinu 2030 er gert ráð fyrir að þessir atvinnuvegir verði með um 40 milljónir stöðugilda miðað við óbreyttar aðstæður í heimsviðskiptum. Hraðasti vöxturinn er áætlaður í vindorkuvinnslu á hafi úti, fiskeldi, fiskvinnslu og hafnarstarfsemi.

Á komandi áratugum er gert ráð fyrir að framfarir í tækni og vísindum leiki mikilvægt hlutverk, bæði í að takast á við umhverfisvandamálin sem vikið er að hér að framan og í frekari þróun efnahagsstarfsemi á hafi úti. Nýsköpun varðandi þróuð efni, framfarir í verkfræði og tækni á hafsbotni, skynjarar og myndhöndlun, gervihnattatækni, tölvuvæðing og upplýsingagreiningartækni, sjálfstýrð kerfi – hver einasta atvinnugrein hagkerfis hafsins – eiga eftir að verða fyrir áhrifum af þessum tækniframförum.

Þegar breytingar eru svo hraðar verður erfitt fyrir eftirlit og stjórnarhætti að halda í við breytingarnar. Fjölskautun ágerist i heiminum um þessar mundir og sífellt verður erfiðara að ná alþjóðlegu samkomulagi um hnattræn og svæðisbundin málefni sem miklu máli skipta fyrir umhverfi og atvinnuvegi hafsins. Að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð er gert ráð fyrir að eftirlit með starfsemi á hafi úti verði drifið áfram af atvinnuvegunum sjálfum og að viðleitnin beinist að því að fella nýjar atvinnugreinar á hafinu undir það sundraða regluverk sem fyrir er.

Framtíðarvöxtur atvinnuvega hafsins á þann mælikvarða sem gert er ráð fyrir í skýrslu þessari undirstrikar hið vaxandi álag sem er á auðlindir hafsins og hafrýmið sjálft, sem þegar er undir miklu álagi, ekki síst í efnahagslögsögum þar sem mest af starfseminni á sér stað. Að ekki skuli hafa verið unnt að takast á við þetta álag með árangursríkum og tímanlegum hætti stafar að miklum hluta af því að sögulega hefur stjórnun starfsemi á hafinu skipst eftir atvinnuvegum. Að miklu leyti til þess að bregðast við vaxandi álagi hefur á undanförnum árum orðið vart við verulega fjölgun landa og svæða sem nú marka sér langtímastefnu um bætta umsjón með hafinu í eigin efnahagslögsögu. Hins vegar er margt sem kemur í veg fyrir árangursríkari og samræmdri stjórnun hafsvæða og á því þarf að taka í náinni framtíð.

Í því skyni að bæta horfurnar varðandi langtímaþróun nýrra atvinnuvega á hafinu og framlag þeirra til hagvaxtar og atvinnusköpunar en hafa jafnframt stjórn á hafinu með ábyrgum og sjálfbærum hætti eru í skýrslu þessari sett fram fjölmörg tilmæli sem miða að því að bæta sjálfbæra þróun hagkerfis hafsins.

  • Stuðla að frekari alþjóðlegri samvinnu um sjávarvísindi og sjávartækni í því skyni að örva nýsköpun og styrkja sjálfbæra þróun hagkerfis hafsins. Í þessu felst meðal annars: að ráðast í samanburðargreiningu og úttektir á hlutverki opinberrar stefnumótunar varðandi sjávarklasa víða um heim, einkum að því er varðar árangurinn sem slík stefnumótun skilar til örvunar og stuðnings við tæknilega nýsköpun þvert á þá atvinnuvegi sem hafinu tengjast, að koma á alþjóðlegum tengslanetum til skoðanaskipta og deilingar á reynslu af því að stofna til afburðasetra, nýsköpunarmiðstöðva og annarrar aðstöðu til nýsköpunar á sviði sjávartækni þvert á atvinnugreinar sem tengjast hafinu, og að bæta deilingu á tækni og nýsköpun meðal þjóða sem eru á mismunandi þróunarstigum.
  • Að styrkja samræmda stjórnun hafsvæða Einkum og sér í lagi ætti í þessu að felast aukin notkun á efnahagslegri greiningu og hagrænum tækjum til samræmdrar stjórnunar hafsvæða, t.d með því að stofna alþjóðlegan vettvang til deilingar á þekkingu, reynslu og bestu aðferðum og með því að herða á viðleitninni til þess að meta efnahagslegan árangur af opinberri fjárfestingu í rannsóknum og athugunum á hafinu. Einnig ætti að miða að því að stuðla að nýsköpun varðandi stjórnhætti, ferli og þátttöku hagsmunaaðila með það fyrir augum að gera samræmda stjórnun hafsvæða árangursríkari og skilvirkari með sem víðtækastri þátttöku.
  • Að bæta tölfræðilegan og aðferðafræðilegan grunn í einstökum ríkjum og á alþjóðavettvangi til þess að mæla umfang og afkomu atvinnuvega hafsins og framlag þeirra til hagkerfisins í heild. Meðal annars gæti þetta falist í frekari þróun á gagnagrunni OECD um hagkerfi hafsins (Ocean Economy Database).
  • Byggja upp frekari færni til að spá fyrir um atvinnuvegi hafsins, þ.m.t. með mati á framtíðarbreytingum á atvinnuvegum hafsins og frekari þróun á núverandi getu OECD til þess að útbúa spálíkan um framtíðarþróun hagkerfis hafsins á alheimsmælikvarða.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2016), The Ocean Economy in 2030, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264251724-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error