1887

OECD Multilingual Summaries

Government at a Glance 2017

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/gov_glance-2017-en

Hagstjórn í hnotskurn 2017

Útdráttur á íslensku

Hagvöxtur er smám saman að aukast á OECD svæðinu, en bakslagið sem vart hefur orðið gegn hnattvæðingu er veruleiki og við honum verða stjórnvöld að bregðast. Traust á opinberum stofnunum er lítið og tíðni þess viðhorfs að opinber stefnumótun ívilni útvöldum sérhagsmunahópum hefur tekið snarpan kipp upp á við. Styttri hagsveiflur, tæknibreytingar og raskandi nýsköpun (e. disruptive innovation) hafa leitt til krafna um umbætur á landsbundnum vinnumörkuðum og félagsverndarkerfum, og loftslagsbreytingar, skattsvik og hryðjuverk kalla á sameinað alheimsátak. Pólitísk skautun (e. polarisation), og tortryggni borgaranna gagnvart opinberum stofnunum gera að verkum að árangur umbóta verður enn ófyrirsjáanlegri. Að efla traustverðugleika opinberra stofnana og kjörinna fulltrúa, að koma á áframhaldandi samtali við borgarana með opnu stefnumótunarferli með almennri aðkomu og að bæta getu stjórnvalda til þess að velja besta kostinn þegar margir standa til boða ‑ allt eru þetta mikilvæg atriði til þess að koma aftur á tengslum milli stjórnvalda og borgaranna og stuðla að hagvexti sem er sjálfbær og fleirum til góðs. Í skýrslunni Hagstjórn í hnotskurn er að finna gögn um slíkar umbætur á stjórnarháttum.

Áfram er unnið að fjármálastöðugleika, en skuldastig er enn hátt og dregið hefur úr opinberri fjárfestingu.

  • Meðalfjárlagahalli náði ‑2,8% af vergri landsframleiðslu í löndum OECD á árinu 2015, samanborið við ‑8,4% árið 2009, og lýsir það þeirri þróun sem orðið hefur eftir því sem í löndum er unnið að því að koma á stöðugleika í kjölfar fjármálakreppunnar.
  • Jöfnuður batnaði úr ‑6,3% af væntri vergri landsframleiðslu árið 2009 í ‑2,4% árið 2015 þegar litið er til allra landa OECD og komst þar með aftur niður í farveg ríkjandi langtímaþróunar.
  • Meðalríkisskuldir náðu 112% af vergri landsframleiðslu á árinu 2015 í löndum OECD en 11 lönd voru með skuldastöðu sem var jöfn vergri landsframleiðslu eða umfram hana.
  • Opinberar fjárfestingar voru að meðaltali 3,2% af vergri landsframleiðslu á árinu 2015, allt frá 6,7% í Ungverjalandi og niður í 1,5% í Ísrael. Þetta er lækkun frá 4,1% markinu á árinu 2009, þegar aukning ríkisútgjalda hófst. Einum þriðja opinberra fjárfestinga er beint til efnahagsmála, einkum til samgagna, en síðan til varnarmála (15,2%).

Opinber útgjöld til heilsugæslu og félagslegrar verndar hafa aukist

  • Milli 2007 og 2015 jukust útgjöld mest til félagslegrar verndar (2,6 prósentustig) og heilsugæslu (1,7 prósentustig) þegar litið er til allra landa OECD.
  • Þegar horft er til þess að einn þriðji útgjalda til opinberra innkaupa gengur til heilbrigðismála gefur auga leið að bætt gegnsæi og aukin skilvirkni í opinberum innkaupum á lyfjum og læknavörum, lækningatækjum og sjúkragögnum skiptir sköpum ef bjóða á bætta heilbrigðisþjónustu með lægri kostnaði.

Atvinnustig hjá hinu opinbera er að meðaltali stöðugt, en frávik milli landa eru veruleg,

  • Þótt mörg ríki innan OECD hafi greint frá umtalsverðum samdrætti í ríkisrekstri síðan gripið var til aðhaldsaðgerða eftir fjármálahrunið, jókst almennt atvinnustig hjá hinu opinbera sem hlutfall af heildaratvinnu í löndum OECD lítillega milli 2007 og 2015, úr 17,9% í 18,1%.
  • Þetta meðaltal dylur frávik milli landa. Í Bretlandi og Ísrael dró mest úr fjölda opinberra starfa sem hlutfall af heildarstörfum (um meira en 2,5 prósentustig) frá 2007 til 2015. Hins vegar varð aukning í Tékklandi, Eistlandi, Ungverjalandi og á Spáni um 2 prósentustig eða meira á sama tímabili.
  • Ennfremur dylur þetta hlutfall (opinber störf sem hlutfall af heildarfjölda starfa) breytingar sem hafa orðið á rauntölum um opinber störf. Í Tyrklandi, frá 2014‑15, fjölgaði almennum opinberum störfum um 3,9%, en í Hollandi fækkaði þeim um meira en 3,6%. Þessar breytingar koma ekki fram í hlutfallinu, þar sem fjöldi almennra opinberra starfa breyttist með svipuðum hraða og heildarfjöldi starfa.
  • Að meðaltali fá stjórnendur í flokki D1 (æðstu stjórnendur) greidd 27% hærri laun en stjórnendur í flokki D2, 72% hærri en millistjórnendur (D3), meira en tvöfalt hærri en stjórnendur í flokki D4 og 2,6 sinnum meira en hátt settir sérfræðingar. Þetta bendir til þess að álagið sem greitt er fyrir stjórnunarábyrgð sé talsvert meira en álagið sem greitt er fyrir tæknilega sérþekkingu. Ritarar fá greidd að meðaltali fjórum sinnum lægri laun en stjórnendur í flokki D1.

Konur eru í minni hluta í leiðtogastörfum hjá hinu opinbera

  • Að meðaltali eru konur aðeins um 29% af þingmönnum á þjóðþingum og aðeins 28% af ráðherrum í löndum OECD árið 2017.
  • Á sama hátt eru konur aðeins í 32% af æðstu stöðum hjá hinu opinbera, þótt 58% af heildarfjölda opinberra starfsmanna séu konur.
  • Jafnt hlutfall kvenna á opinberum vettvangi og í atvinnulífinu á öllum stigum stækkar þann forða hæfileika sem unnt er að sækja í til að stuðla að árangri af hvers kyns starfsemi.

Tæki til árangursstýringar og innsýn í hegðun (e. behavioural insights) bæta árangur og skilvirkni í opinberum rekstri

  • Nærri öll lönd eru með lögboðið frammistöðumat fyrir ríkisstarfsfólk. Tenging kjara við frammistöðu er enn vandamál og notkun frammistöðutengdra launa hefur haldist stöðug síðan 2010.
  • Útgjaldarýni (e. spending review) er notuð í auknum mæli í löndum OECD til þess að hafa betra eftirlit með útgjöldum og bæta forgangsröðun. Í tuttugu og tveimur löndum var ráðist í útgjaldarýni að minnsta kosti einu sinni frá 2008 til 2016, samanborið við aðeins fimm á árunum 2000‑2007.
  • Notkun hegðunarinnsýnar er að ná rótfestu í mörgum löndum OECD, einkum í því skyni að bæta framkvæmd stefnumiða. Möguleikar eru til þess að beita hegðunarinnsýn á öllum sviðum opinberrar stjórnsýslu, einkum í því skyni að móta og meta stefnumið.

Áætlanir um opna stjórnsýslu eru að komast á aukinn skrið, en þörf er á frekari greiningu.

  • Í löndum OECD er í auknum mæli verið að festa í sessi meginreglur um gegnsæi, ábyrgðarskyldu og almenna aðkomu að stjórnsýslu. Um helmingur landa innan OECD (17 af 35 löndum) hefur tekið upp þjóðaráætlun um opna stjórnsýslu.
  • Í flestum löndum OECD hefur verið tekin upp stefna um „aðgengi án undandráttar“, þar sem opinber gögn eru aðgengileg nema lögmætar ástæður réttlæti annað.
  • Hins vegar er mikill munur á því að hvaða marki er hvatt til endurnýtingar gagna utan hins opinbera (svo sem í forritunarkeppnum (e. hackathon) og á samsköpunarmessum (e. co‑creation events)) .
  • Í fáum löndum er lagt mat á það hvort aðgerðir til opinnar stjórnsýslu nái þeim árangri sem stefnt er að, hvort sem það er efnahagslegur árangur eða félagslegur, bætt opinber framleiðni eða ábyrgð í starfi.

Meira þarf til þess að endurvekja traust á stjórnvöldum og tryggja aðgengi að þjónustu

  • Traust á stjórnvöldum er enn neðan við það sem var fyrir fjármálakreppuna. Að meðaltali í löndum OECD greindu um 42% borgara frá því að þeir bæru traust til ríkisstjórna sinna á árinu 2016, í samanburði við 45% fyrir 2007.
  • Viðvarandi ójafnræði er milli þjóðfélagshópa varðandi aðgengi að þjónustu, gæði þjónustunnar og hversu vel hún svarar þörfum fólks. Í löndum OECD greinir lágtekjufólk oftar frá tilvikum um heilbrigðisvandamál sem ekki er brugðist við en fólk með rýmri fjárhag. Með sama hætti eru nemendur sem standa höllum fæti félagslega og fjárhagslega nærri þrisvar sinnum líklegri til þess að ná ekki viðmiðunarfærni í raungreinum.
  • Stjórnvöld ættu einnig að stemma stigu við þeirri „rafrænu útskúfun“ sem nú birtist í nýjum myndum. Þótt vaxandi hlutfall fólks nýti sér stafrænar leiðir til samskipta við hið opinbera er viðvarandi munur á því að hvaða marki slíkar leiðir eru nýttar eftir menntun, búsetu og aldri.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), Government at a Glance 2017, OECD Publishing.
doi: 10.1787/gov_glance-2017-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error