1887

OECD Multilingual Summaries

Perspectives on Global Development 2019

Rethinking Development Strategies

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/persp_glob_dev-2019-en

Rýnt í hnattræna þróun 2019

Endurhugsun þróunaráætlana

Útdráttur á íslensku

„Endurhugsun þróunar“

Hugmyndir um þróun hafa tekið breytingum frá lokum síðari heimsstyrjaldar, en á þessum tíma hafa mismunandi viðmið ráðið meginhugsun og framkvæmd hverju sinni. Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina var áherslan á iðnvæðingu, áætlanagerð og hagvöxt, á sjöunda áratugnum vék sú stefna fyrir hugmyndum um kerfisbreytingar en á áttunda áratugnum kom „hæðiskenningin“ fram (e. dependency theory“). Í „Washingtonsamþykktinni“ frá níunda og tíunda áratugnum var áhersla lögð á þjóðhagslegan stöðugleika og stutt við kerfislæga aðlögun. Frá árunum upp úr 2000 hefur aðferðafræði sem grundvallast á setningu markmiða leitt til þess að til urðu þúsaldarmarkmiðin um þróun og í kjölfar þeirra komu markmiðin um sjálfbæra þróun.

Þótt ekki liggi fyrir nein viðtekin skilgreining er að verða til sammæli um að þróun snúist um raunverulegar bætur á lífsgæðum fólks og velsæld. En hvernig á að ná þessu fram? Er hugsanlegt að unnt sé gefa þeim stefnumiðunum sem í fyrri tíð leiddu til þróunar í löndunum sem iðnvæddust snemma nýjan tilgang sem fyrirmynd sem hægt er að fylgja í þróunarlöndum? Þær slóðir sem lönd á iðnvæðingarferli, eins og Alþýðulýðveldið Kína (hér eftir „Kína“) hafa troðið hafa ekki fylgt viðteknum viðmiðum. Það vekur spurningar um það hvers konar áætlunum sé rétt að beita í löndum til þess að ná fram aukinni og sjálfbærri velsæld.

Þróunaráætlanir verður að laga að nýjum veruleika í heiminum

Meiri háttar umbreyting hefur átt sér stað í hagkerfi heimsins á síðustu þremur áratugum, sem í þessari skýrslu hefur verið kennd við „tilfærslu auðs“ (e. wealth shifting). Frá því á tíunda áratugnum hafa nýhagkerfi á borð við Kína vaxið hraðar en meðaltal OECD landanna. Með þeim mikla fólksfjölda sem þar er um að ræða hefur þessi munur á hagvexti umbreytt hagfræðilegri landafræði heimsins.

Tilurð þessa nýja landslags í hagkerfi veraldar nær yfir þrjú mismunandi tímabil:

  • Áhrifa af opnun Kína, Indlands og fyrrum Sovétríkjanna fyrir heimsmarkaðinum gætti frá tíunda áratuginum.
  • Á næsta tímabili, frá 2001 til heimsfjármálakreppunnar 2008 mátti sjá merki um stöðuga samleitni fátækra landa vegna hagvaxtar sem í vaxandi mæli snerist um Kína. Ör þéttbýlismyndun og iðnvæðing í Asíu leiddu til hækkandi verðs á hrávöru.
  • Nýliðið tímabil á öðrum áratug aldarinnar, þar sem hægt hefur á tilfærslu auðs. Sú breyting er afleiðing af heimskreppunni og breytingu Kína úr framleiðslu‑ og útflutningshagkerfi í hagkerfi sem byggir á þjónustu og neyslu, en það hefur leitt til lækkunar á hrávöruverði.

Tilfærsla auðs hafði djúpstæð áhrif á þróun í heiminum. Með henni var landakort efnahagslegra samskipta teiknað upp á nýtt að því er varðar verslun, fjármál og þjóðflutninga. Með henni jókst hagvöxtur í heiminum og milljónir manna risu upp úr fátækt. Henni fylgdu einnig breytingar á stjórnarháttum í heiminum

Árið 2010 áttu þróunarlönd þátt í 42% af vöruviðskiptum heimsins. Helmingur flæðisins var frá ríkjum í suðurhveli til annarra ríkja í suðurhveli. Kína hefur þar gegnt lykilhlutverki: allt frá heimskreppunni hefur innflutningur til Kína verið drifkraftur viðskipta á suðurhveli.

Nýmarkaðsríki veittu einnig mikilvægu fjármagni til þróunaraðstoðar, því nýir gjafar juku hlutdeild sína í fjármögnun þróunaraðstoðar, að frátalinni opinberri þróunaraðstoð, úr 6% í 13%. Verkefni Kína, sem kennt hefur verið við „belti og braut“ og felur í sér mikilvæga þróunaráætlun sem miðar að því að tengja lönd við Kína, eykur enn á dýpt samrunans á suðurhveli jarðar.

Í þróunaráætlunum má ekki gera ráð fyrir að hagvöxtur leiði sjálfkrafa til aukinnar almennrar velsældar.

Hagvöxtur á suðurhveli jarðar hefur ekki leyst öll vandamál. Bæði raunveruleg og hlutfallsleg fátækt hefur aukist í sumum löndum, tekjuójöfnuður hefur aukist í mörgum tilvikum og iðnvæðingu og þéttbýlismyndun hefur fylgt hnignun umhverfisins.

Að aukin verg landsframleiðsla hafi ekki leyst öll vandamál ætti ekki að koma á óvart. Even Kuznets, sem fyrstur manna skilgreindi verga landsframleiðslu árið 1934, varaði við því að nota þá hagtölu sem mælikvarða á velferð. Engu að síður, á Bretton Woods ráðstefnunni tíu árum síðar, varð verg landsframleiðsla helsta tækið til þess að mæla efnahag landa og um áratugaskeið var litið á aukningu vergrar landsframleiðslu sem vísi um þróun í almennari skilningi.

Ef litið er á heildarmyndina varðandi þróun, þar sem tekið er mið af öðrum hliðum velsældar, dreifingu hennar yfir samfélög og sjálfbærni, kemur fram flóknari mynd.

Ef litið er til heimsins alls sýna hagvísar um velsæld náin tengsl við verga landsframleiðslu á mann. Tengslin milli velsældar og vergrar landsframleiðslu á mann hefur hins vegar breyst í tímans rás. Hægt er að greina tvö tímabil:

  • Frá 1820 til 1870 sýndu lönd með hærri verga landsframleiðslu á mann ekki alltaf betri niðurstöður varðandi velsæld.
  • Eftir 1870 varð fylgnin milli vergrar landsframleiðslu á mann og velsælar sterkari vegna ódýrari matvæla sem flutt voru inn til Evrópu frá Bandaríkjunum, sem hækkaði rauntekjur, uppgangs lýðræðislegra stjórnarhátta, þáttaskila í læknisfræðilegri þekkingu og félagsmálastefnu.

Á fyrstu áratugum iðnvæðingar, frá 1820 til 1870, var vöxtur vergrar landsframleiðslu í iðnvæddum löndum um 1‑1,5% á ári. Þótt vöxturinn væri hægur var hann engu að síður farinn af stað, en þó án þess að hafa nokkur áhrif á almenna velsæld að marki. Sú þversögn var afleiðing þéttbýlismyndunar og „öreigavæðingar“ í þeim löndum þar sem iðnvæðingin fór snemma af stað.

Frá sjötta áratugnum hafa þau lönd sem síðar byrjuðu að vaxa hratt greint sig frá þeim löndum sem fyrr byrjuðu, því þau þurftu að „vinna upp forskotið“, það er að segja minnka muninn á vergri landsframleiðslu á mann milli sín og þeirra landa sem fyrr iðnvæddust.

  • Í latnesku Ameríku jókst almenn velsæld hraðar en verg landsframleiðsla á mann.
  • Í Afríku jókst velsæld hlutfallslega meira en verg landsframleiðsla á mann, en engu að síður er enn stöðugt og vaxandi bil milli Afríku og annarra heimshluta.
  • Í Asíu hefur verulegur bati á tilteknum þáttum velsældar fylgt hinum stórkostlega efnahagsvexti (lífslíkur, menntun), en ekki öllum.

Bregðast verður við nýjum straumum og viðfangsefnum í stefnumörkun um þróunarmál

Auk markmiða um hagvöxt beinast flestar áætlanir landa um þróunarmál sem nú eru skipulagðar að því að ávinningurinn komi öllum til góða og að hann sé sjálfbær. Hins vegar bera fáar þessar áætlanir með sér að tekið sé mið af meginstraumum og þeim vandkvæðum og tækifærum sem þeir bera með sér.

Sum vandkvæðin hefur verið tekist á við áður: mögulegan samdrátt í hagvexti heimsins, verndarstefnu í viðskiptum, vaxandi ójöfnuð, fólksfjölgun og hnignun stjórnarhátta í heiminum.

Hins vegar hafa ný úrlausnarefni komið fram sem löndin sem fyrr voru á iðnvæðingarskeiði þurftu ekki að takast á við. Þar má nefna nýjar alþjóðlegar reglur, innbyrðishæði landa, fordæmislausa fólksfjölgun, mikinn hreyfanleika fólks, hættu á faröldrum og loftslagsbreytingar. Einnig má nefna tæknilegar nýjungar á borð við stafvæðingu, sjálfvirkni, gervigreind og líftækni.

Þróunaráætlanir fyrir 21. öldina

Nýhagkerfi hafa fylgt og munu fylgja öðrum leiðum til þróunar en iðnríkin sem á undan fóru. Nefna má að í kjölfar tilfærslu auðs til suðurs er í nýjum þróunaráætlunum gert ráð fyrir auknu samstarfi innan suðurhvels, stefmiðum sem tengja fólksflutninga og þróun og nýjum leiðum til þess að rýmka félagslega vernd.

Fyrri reynsla bendir til þess að áætlanir séu nytsamlegt tæki til þess að tryggja jafnan hagvöxt þar sem tillit er tekið til félags‑ og umhverfismála. Frekar en að móta einsleitt þróunarlíkan fyrir öll lönd, hefur sagan kennt okkur að þróunaráætlanir skila bestum árangri þegar þær ná þvert yfir atvinnugreinar, hvetja til þátttöku allra, beinast að tilteknum stöðum og marghliða samstarfi, og þegar nauðsynlegir fjármunir og pólitískur vilji eru fyrir hendi til þess að tryggja framkvæmd.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), Perspectives on Global Development 2019: Rethinking Development Strategies, OECD Publishing.
doi: 10.1787/persp_glob_dev-2019-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error