1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Employment Outlook 2015

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/empl_outlook-2015-en

Horfur í OECD í atvinnumálum 2015

Útdráttur á íslensku

Aðstæður á vinnumarkaði eru að batna en fullum bata er fjarri því náð

Aðstæður á vinnumarkaði eru almennt að batna í löndum OECD en afturbatinn frá nýliðinni efnahagskreppu er afar ójafn milli landa. Atvinna eykst of hægt á OECD svæðinu til þess að unnt verði að uppræta atvinnuleysið sem skapaðist við kreppuna á næstunni. Störfin sem í boði eru hafa færst í átt til hlutastarfa og einnig hefur framleiðslu‑ og byggingarstörfum fækkað, sem kann að gera sumum atvinnulausum erfiðara fyrir að finna sér vinnu. Af þeim sökum mun atvinnuleysi áfram vera mikið, jafnvel í árslok 2016. Meðalatvinnuleysi í löndum OECD á fjórða ársfjórðungi 2014 var 7,1%, sem er enn 1,6 prósentustigum fyrir ofan það sem var fyrir kreppu. Spáð er að hægt dragi úr atvinnuleysi það sem eftir er af 2015 og út 2016 og að það verði 6,6% á fjórða ársfjórðungi 2016, en áfram fyrir ofan 20% í Grikklandi og á Spáni. Langtímaatvinnuleysi er enn óásættanlega hátt og hætt er við því að margir í þeim hópi séu orðnir endanlega viðskila við vinnumarkaðinn, sem gerir erfiðara að draga úr atvinnuleysi. Atvinnuleysi ungmenna er enn talsvert fyrir ofan atvinnuleysið fyrir kreppuna í mörgum löndum og sama má segja um þá sem hvorki eru í vinnu, starfsþjálfun eða námi. Hæg aukning rauntekna er einnig áhyggjuefni, einkum á evrusvæðinu.

Lágmarkslaun verður að samræma náið við stefnu um skattaívilnanir til þess að þau tryggi tekjur láglaunafólks með árangursríkari hætti

Lögbundin lágmarkslaun voru nýlega tekin upp í Þýskalandi, sem þýðir að 26 af 34 löndum OECD eru nú með einhvers konar lágmarkslaunafyrirkomulag. Lágmarkslaun geta hjálpað til að tryggja tekjur láglaunafólks, en það veltur á tveimur mikilvægum þáttum. Í fyrsta lagi mega þau ekki vera of há, því þá geta þau leitt til atvinnumissis og tekjumissis hjá láglaunastéttum. Í öðru lagi þarf að vera samræmi við skattastefnu til þess að tryggja að hækkun lágmarkslauna skili sér í hærri ráðstöfunartekjum en takmarki jafnframt hækkun launakostnaðar hjá vinnuveitendum.

Launamunur er minni í löndum sem standa sig betur við að mæta aukinni eftirspurn eftir verkþekkingu

Ójöfnuður hefur verið að aukast í flestum löndum OECD og viðleitni til þess að snúa þeirri þróun við er ofarlega í forgangsröð stjórnvalda. Nýjar upplýsingar um getu fólks á vinnumarkaðinum til að vinna úr upplýsingum, sem fengust með könnun OECD á færni fullorðinna (PIAAC), draga fram þátt verkþekkingar í skýringunni á þeim mun sem er á tekjuójöfnuðinum milli landa, sem er meginástæðan fyrir ójöfnuðinum milli ráðstöfunartekna heimila. Í það heila skiptir fjárfesting í verkþekkingu máli fyrir launaójöfnuð – einkum þar sem verkþekking er af skornum skammti miðað við eftirspurn. Í löndum þar sem misvægi er í dreifingu verkþekkingar er jafnframt meiri launamunur. Betri nýting á verkþekkingu gæti hjálpað til að draga úr ójöfnuði með því að styrkja tengslin milli verkþekkingar launþega, framleiðni og launa.

Stefna um vinnumarkað fyrir alla

Brýnt er að tryggja að allir fái betri tækifæri til virkrar þátttöku á vinnumarkaði þegar horft er til þess að þjóðir eru að eldast hratt og einnig þess að nauðsynlegt er að græða þau efnahagslegu og félagslegu sár sem fjárhags‑ og efnahagskreppa heimsins hefur skilið eftir. Mörkun stefnu um að virkja vinnumarkaðinn með árangursríkum hætti getur hjálpað til að beisla framleiðslugetu fólks í hverju landi og stuðla þannig að efnahagsvexti, félagslegri samheldni og sjálfbærni félagslegrar verndar. Til þess að gera þetta þarf að viðhalda hvatningu atvinnuleitenda til þess að finna sér starf og á sama tíma að bæta ráðningarhæfi þeirra og auka tækifæri þeirra til þess að komast í viðeigandi störf og halda þeim. Umsjón með þessum þremur þáttum – hvatningu, ráðningarhæfi og tækifærum – verður að vera í höndum áhrifamikilla stofnana á vinnumarkaði og byggja á árangursríkri stefnu, en það er forsenda þess að virkja fólk á atvinnumarkaði.

Lífsgæði í starfi: Svigrúm til tekjubreytinga, vinnumarkaðsáhætta og langtímaójöfnuður

Hvort og hvernig launaójöfnuður á einhverjum tíma breytist í langtímaójöfnuð á vinnumarkaðinum veltur á svigrúminu sem fyrir hendi er til tekjubreytinga en svigrúmið er skilgreint sem hreyfing upp eða niður eftir tekjustiganum og í og úr vinnu. Notuð er hermitækni til þess að greina starfsferil launþega í 24 löndum OECD á grundvelli skammtímalangsniðsgagna. Að meðaltali kom fram að ójöfnuður er að þremur fjórðu hlutum varanlegs eðlis en afgangurinn jafnast út eftir lífsferlinum vegna hreyfanleika á vinnumarkaði. Hreyfanleikinn virðist ekki meiri í löndum þar sem ójöfnuður er meiri. Langtímaatvinnuleysi, skortur á vitrænni færni, óhefðbundið vinnufyrirkomulag og fyrirtæki með lélega framleiðni ráða mestu um lágar tekjur til langs tíma. Atvinnuleysistryggingar gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja starfsferil launafólks með því að minnka tekjuáhættu vegna atvinnuleysis. Lögbundin lágmarkslaun draga úr hættu á óhóflega lágum launum, en áhrif þeirra í þá átt að draga úr tekjuójöfnuði dofna til langs tíma vegna jöfnunaráhrifa af tekjubreytingum og hugsanlegum neikvæðum áhrifum á atvinnumarkaðinum.

Að bæta gæði starfa í nýmarkaðshagkerfum

Léleg gæði starfa eru mikið áhyggjuefni í nýmarkaðshagkerfum. Þótt mæling sé erfið vegna takmarkaðra gagna eru gæði starfa í helstu nýmarkaðsríkjum greind á grundvelli þriggja forsendna í samræmi við starfsgæðaramma OECD: gæði tekna (samsetning meðaltekna og ójöfnuðar), vinnumarkaðsöryggi (sem nær bæði yfir áhættu af atvinnuleysi og óhóflega lágum launum), og gæði starfsumhverfisins (sem mæld eru sem tíðni starfsálags eða mjög langs vinnutíma). Nýmarkaðsríki standa verr en lönd innan OECD varðandi alla þrjá þætti. Ungmenni og launafólk með litla verkþekkingu, svo og lausráðið fólk, er að jafnaði í verstu störfunum. Stefnumótendur ættu að hafa í huga að reynslan af þeim löndum OECD sem stóðu sig best sýnir að mikil starfsgæði geta vel haldist í hendur við hátt atvinnustig. Þannig ætti ekki að líta svo á að ráðstafanir til að bæta starfsgæði hljóti að vinna gegn atvinnusköpun. Í skýrslunni er bent á þau stefnumið um vinnumarkað og félagslega vernd sem best eru til þess fallinn að stuðla að góðum störfum í nýmarkaðshagkerfum.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2015), OECD Employment Outlook 2015, OECD Publishing.
doi: 10.1787/empl_outlook-2015-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error