1887

OECD Multilingual Summaries

Economic Policy Reforms 2015

Going for Growth

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/growth-2015-en

Umbætur á efnahagsstefnu 2015

Stefnt að vexti

Útdráttur á íslensku

Fjármálakreppan og hægur bati í framhaldi hennar hafa leitt til minni vaxtarmöguleika hjá flestum þróuðum löndum, á sama tíma og mörg nýmarkaðsríki standa frammi fyrir niðursveiflu. Á næstu misserum verða viðfangsefni stjórnmálanna meðal annars viðvarandi mikið atvinnuleysi, minnkandi framleiðni, mikill fjárlagahalli og skuldir hins opinbera ásamt núverandi vandamálum í fjármálageiranum. Kreppan hefur einnig aukið félagslega neyð því að tekjulág heimili urðu fyrir miklu höggi ásamt því að ungt fólk varð fyrir mesta tekjutapinu og er í aukinni fátæktaráhættu. Áskoranir til lengri tíma eru meðal annars að takast á við öldrun íbúa ásamt áhrifum tæknilegra breytinga, sem krefjast tiltekinnar færni, á tekjuójöfnuð auk áhrifa umhverfismengunar á heilbrigði og vöxt í framtíðinni. Þörf er á kraftmikilli uppbyggingarstefnumótun til þess að taka á mörgum þessara viðfangsefna, sem bæði þróuð ríki og nýmarkaðsríki standa frammi fyrir til skamms og meðallangs tíma.

Stefnt að vexti er alhliða mat til þess að hjálpa ríkisstjórnum að skoða hvernig endurbætur á stefnumálum kunna að hafa áhrif á vellíðan borgaranna og að hanna stefnupakka þannig að þeir uppfylli markmið sín með sem bestum hætti. Skýrslan bendir á mikilvæg forgangsatriði á sviði umbóta til þess að auka rauntekjur og atvinnu í þróuðum ríkjum og helstu nýmarkaðsríkjum. Forgangsatriðin ná að mestu yfir reglusetningu á sviði vöru‑ og vinnumarkaðar, menntun og þjálfun, skatt‑ og bótakerfið, reglur á sviði viðskipta og fjárfestinga og stefnumál á sviði nýsköpunar. Umgjörðin Stefnt að vexti hefur átt mikinn þátt í að hjálpa G20‑löndunum að þróa vaxtarstefnur til þess að auka samanlagða verga landsframleiðslu (VLF) um 2%, en eitt helsta stefnumál G20‑landanna fyrir árið 2014 var að ná viðvarandi og jöfnum vexti.

Aðaláhersla Stefnt að vexti er á að bæta efnisleg lífskjör til meðallangs tíma, en skýrslan varpar einnig ljósi á málamiðlanir og önnur velferðarmarkmið sem koma þessu til fyllingar, eins og að minnka tekjuójöfnuð og draga úr þrýstingi á umhverfið. Nánar tiltekið er í skýrslunni farið yfir vísbendingar um áhrif vaxtarhvetjandi kerfisumbóta á launadreifingu og tekjuójöfnuð heimila og skoðað hvort ákveðin stefnumál.,sem hafa aukið vöxt í landsframleiðslu á síðastliðnum áratugum, hafi einnig stuðlað að auknum ójöfnuði. Í skýrslunni er einnig skoðaður umhverfisþrýstingur sem tengist efnahagsvexti. Hún fjallar í þessum efnum um hlutverk kerfisbreytinga og umhverfisstefnumála og sýnir vísbendingar um mikilvægi þess að þróa umhverfisstefnur með góðum hætti svo og um áhrif þeirra á framleiðniaukningu. Að lokum inniheldur þessi tíunda útgáfa af Stefnt að vexti sérstakan kafla þar sem farið er yfir helstu þróun í kerfisbreytingum frá upphafi þessarar aldar.

Framvinda kerfisbreytinga frá 2013

 • Hægt hefur á kerfisbreytingum í helstu þróuðu ríkjum í OECD á síðastliðnum tveimur árum. Það gerðist í kjölfar tímabils hraðra breytinga eftir kreppuna, að hluta til vegna markaðsþrýstings í tengslum við skuldavanda evrusvæðisins.
 • Umbótastarfsemi er enn umfangsmikil þó að hún fari minnkandi í Grikklandi, á Írlandi, í Portúgal og á Spáni og hafi aukist í Japan. Hún er tiltölulega lítil víðast á Norðurlöndunum og í kjarnalöndum evrusvæðisins.
 • Innan OECD hafa lönd sett stefnumörkun á sviði mennta‑ og vinnumarkaðsmála (ALMP) í forgang en það er í samræmi við að þekkingarauður og fjölhæft sérhæft starfsfólk sé uppspretta hagvaxtar auk þess sem horft er til viðvarandi atvinnuleysis vegna hægs bata.
 • Hraði umbóta hefur farið vaxandi í helstu nýmarkaðsríkjum en það endurspeglar vitund um flöskuhálsa og hömlur gegn vexti og þörfina á því að draga úr vanmætti gegn sveiflum í verði verslunarvara og fjármagnsflæði.

Ný forgangsmál á sviði umbóta

 • Framleiðni vinnuaflsins er áfram helsti hvatinn að langtímahagvexti. Setja ætti umbætur í forgang sem miða að því að auka færni og þekkingarauð. Bætt menntakerfi án aðgreiningar hefur styrkjandi áhrif þar á.
 • Tilfærsla á fjármagni við aðlögun er lykillinn að því að auka hagvöxt. Stjórnvöld þurfa að bæta stefnur á sviði samkeppnis‑ og nýsköpunarmála til þess að greiða fyrir stofnun nýrra fyrirtækja og snurðulausri tilfærslu á fjármagni og vinnuafli til afkastamestu fyrirtækjanna og atvinnugeiranna. Löndin á sunnanverðu evrusvæðinu þurfa að ráðast í umbætur á vörumarkaði, einkum á sviði þjónustu, til þess að njóta ávinningsins af vinnumarkaðsumbótum síðastliðinna ára.
 • Hægt er að skapa hagvöxt fyrir alla með því að fjarlægja hindranir gegn aukinni atvinnu‑ og vinnumarkaðsþátttöku hópa sem taka minni þátt eins og kvenna, ungs fólks, ófaglærðra og eldra fólks. Með því að auðvelda hraða tilfærslu í ný störf og tryggja að starfsmenn geti endurnýjað færni sína hækkar atvinnustig enn frekar og stuðlar að hagvexti fyrir alla.

Kerfisumbætur fyrir hagvöxt og tekjudreifing

 • Sumar stefnur til að auka hagvöxt, sem auka verga landsframleiðslu með aukinni framleiðni, kunna að stuðla að tæknibundnum ójöfnuði. Til dæmis kunna umbætur sem stuðla að nýsköpun að auka launadreifingu meðal starfsmanna.
 • Aðrar stefnur, sem efla þátttöku á vinnumarkaði og sköpun starfa, auka einnig á launadreifinguna. Hins vegar hafa slíkar umbætur, vegna þess að þær stuðla að aukinni atvinnuþátttöku – einkum meðal ófaglærðra starfsmanna – hlutlaus áhrif á dreifingu ráðstöfunartekna heimila.
 • Í ljósi þess að mörg lönd standa frammi fyrir þörf fyrir að taka á auknum ójöfnuði og áþján ættu ríkisstjórnir að setja stefnupakka fyrir hagvöxt í forgang sem hjálpa til við að efla jöfnuð og draga úr útilokun. Það er mjög mikilvægt að auka tekjumöguleika ófaglærðs fólks og auðvelda konum að fara inn á vinnumarkaðinn.

Kerfisumbætur fyrir hagvöxt, umhverfið og umhverfisstefnur

 • Hagvexti fylgir oftast aukinn þrýstingur á umhverfið. Bæði umhverfisstefnur og umgjörð uppbyggingarstefnunnar þar sem þær eru innleiddar hafa jafnframt áhrif á sambandið á milli hagvaxtar og umhverfisins.
 • Sumar umbætur í átt til aukins hagvaxtar, eins og hækkun á umhverfissköttum, vegagjöld eða þegar skaðlegum niðurgreiðslum er hætt, geta verið góðar fyrir umhverfið. Aðrar auka skilvirkni umhverfisstefnumála. Það á við þegar löggjöf eða samkeppnisstefnur eru efldar.
 • Umhverfisstefnur sem eru sveigjanlegar og hlutlausar hvað varðar tæknilegar ákvarðanir og draga úr samkeppnishömlum geta verndað umhverfið með skilvirkum hætti án þess að valda miklum skaða á framleiðni í hagkerfinu.

Þróun umbóta frá árinu 2005

 • Frá því að Stefnt að vexti var fyrst gefið út árið 2005 hefur hraði kerfisbreytinga verið tiltölulega stöðugur að meðaltali í OECD‑ríkjunum en þó með þeirri undantekningu að töluverð aukning varð í kjölfar kreppunnar.
 • Umbótastarf hefur leitt til töluverðra framfara á nokkrum stefnusviðum. Það á við um reglusetningu á sviði vörumarkaða, þróun lífeyriskerfa og atvinnuleysistryggingakerfa.
 • Almennt séð hafa kerfisbreytingar frá upphafi aldarinnar stuðlað að því að auka mögulega verga landsframleiðslu á mann um 5% að meðaltali yfir öll lönd og er mesta aukningin vegna aukinnar framleiðni.
 • Frekari umbætur í átt að núverandi bestu starfsvenjum gætu aukið verga landsframleiðslu á mann til langs tíma um 10% að meðaltali í OECD‑ríkjunum. Það jafngildir aukningu að meðaltali um 3.000 Bandaríkjadali á hvern einstakling.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2015), Economic Policy Reforms 2015: Going for Growth, OECD Publishing.
doi: 10.1787/growth-2015-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error