1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Business and Finance Outlook 2018

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264298828-en

Horfur í viðskiptum og fjármálum innan OECD 2018

Útdráttur á íslensku

Tengjanleiki, bæði milli stofnana innan hins alþjóðlega fjármálakerfis og milli landa, er óaðskiljanlegur hluti af hnattvæðingunni og snar þáttur í því hvernig flókin samfélög starfa í viðleitni sinni til þess að bæta hjá sér framleiðni. Í skýrslu þessa árs um horfur í viðskiptum og fjármálum er fjallað um tengjanleika, bæði milli stofnana innan alþjóðlega fjármálakerfisins og milli landa. Að því er varðar hið síðarnefnda er í skýrslunni farið í saumana á vaxandi vægi Kína í hagkerfi heimsins. Einkum og sér í lagi er fjallað um áhrif hinnar alþjóðlegu þróunaráætlunar sem kennd hefur verið við „Belti og braut“ (e. “Belt and Road Initiative”, BRI) á alþjóðlega samstarfsaðila Kína í viðskiptum og fjárfestingum og þær nálganir að stefnumótun sem gætu orðið til þess að dreifa ávinningnum af framtakinu þannig að hann nýtist alþjóðahagkerfinu í heild.

Horfur í alþjóðafjármálakerfinu

Yfirvöld peningamála í heimshlutum þar sem starfræktir eru bankar sem eru kerfislega mikilvægir á alþjóðavísu (e. globally systemic important banks, G‑SIBs) hafa stutt við alþjóðlega hagkerfið með ofurlágum vöxtum og umfangsmiklum kaupum á verðbréfum allt frá 2008, upphaflega í því skyni að styðja við lítt starfhæfa markaði en síðar til þess að styðja við efnahagslega viðreisn. Eftir því sem efnahagsástandið hefur batnað hefur Seðlabanki Bandaríkjanna byrjað að setja stefnumörkun sína í eðlilegri farveg. Líklegt má telja að seðlabankar í öðrum þróuðum ríkjum fylgi fordæmi hans. Þessi þróun hefur stuðlað að snöggum hreyfingum á eignavirði á árinu 2018, einkum á fyrstu mánuðum ársins. Að hafa stjórn á þessu ferli verður ekki auðvelt verk.

Um þessar mundir, þegar þetta ferli er að komast á skrið, hefur Baselnefndin um bankaeftirlit lagt lokahönd á regluverkið sem kennt er við Basel III og á að gilda um banka sem stunda alþjóðlega bankastarfsemi. Þegar tíma slökunar í peningastefnu lýkur mun reyna á hvort Basel III nái því markmiði að tryggja öryggi og heilbrigði fjármálakerfisins á álagstíma, einkum þegar seljanleiki afurða kyndir undir óstöðugleika. Með Basel III náðist árangur á sviði þess að herða á reglum um eigið fé, en viðskiptalíkön kerfislega mikilvægu alþjóðlegu bankanna eru svipuð því sem var fyrir kreppuna árið 2008 ‑ og í öllu falli hefur ekki orðið af fullum aðskilnaði fjárfestingabankastarfsemi og almennrar bankastarfsemi þar sem innlán njóta tryggingar. Einnig markast kerfið af þeim veikleikum sem leiða af innbyrðis tengslum bankanna. Einn mælikvarði á innbyrðishæði þeirra, þ.e.a.s. ætlað verðmæti afleiða á opnum tilboðsmarkaði, stóð enn í 532 trilljónum bandaríkjadala seinni hluta ársins 2017, sem er aðeins örlítið neðan við hámarkið síðla árs 2007, sem var 586 trilljónir bandaríkjadala. Nokkur tilfærsla hefur verið á því hvar þessar áhættuskuldbindingar liggja eftir því sem fjárfestar hafa brugðist við umhverfi lágra vaxta.

Horfur í fjármálum munu einnig mótast af getu Kínverja til þess að hafa stjórn á áhættuþáttum sem tengjast mikilli skuldabyrði og skuldsetningu í banka‑, skuggabanka‑ og einkabankastarfsemi þar í landi. Þótt Kína hafi ekki beina tengingu við áhættuþættina í hinum þróuðu hagkerfum, þar sem fjármálakerfið þar er lokað, gætu vandamál í þróuðu hagkerfunum leitt til þess að kínversk stjórnvöld tækju að losa sig við eignir sínar í bandarískum verðbréfum. Það hefði þau áhrif að auka álag á seljanleika á mörkuðum í hinum þróuðu hagkerfum. Allt er á huldu um umfang vandans sem stafar af vanskilalánum í Kína þar sem upplýsingar skortir um eignir sem haldnar eru í liðum utan efnahagsreikninga. Ljóst er hins vegar að þessar gríðarlegu berstöður utan efnahagsreikninga hafa aukið skuldsetningaráhættu og gætu leitt til greiðslufallsatvika sem ógna stöðugleika. Það gæti möguleika raskað hagvexti utan landamæra Kína ef ekki er hugað að frekari breytingum á uppbyggingu fjármálamarkaða og stofnana í helstu þróuðu hagkerfum og nýhagkerfum.

Belti og braut í umhverfi alþjóðaviðskipta, fjárfestinga og fjármála

Framtak Kínverja um Belti og braut er metnaðarfull þróunaráætlun sem miðar að því að auka tengjanleika og samstarf meðfram hinum sex meginhagbeltum sem sýnd eru í mynd 2.3. Þróunarbanki Asíu áætlar að í Asíu verði þörf á fjárfestingum í innviðum sem nema 26 trilljónum bandaríkjadala til ársins 2030 og Kínverjar eru vel í stakk búnir til þess að leggja til einhvern hluta af þessu fjármagni. Þótt með Belti og braut sé sett í forgang fjármögnun innviða er þar einnig um að ræða áætlun um að ná fjölmörgum markmiðum til lengri tíma, svo sem markmiðum um tengjanleika, orku‑ og fæðuöryggi, jafna svæðisbundna þróun og betri nýtingu á afkastagetu, aukið viðskiptafrelsi, sjálfbærni og deilingu þekkingar á sviði vísinda og menningar.

Kínverjar eru að fjárfesta í miðlun tækniþekkingar með það fyrir augum að færast í átt til atvinnustarfsemi þar sem virðisauki er meiri og, til meðallangs tíma, að fylgja í fótspor annarra helstu ríkja heims að því er varðar tæknistaðla, nýsköpun og virðiskeðju i viðskiptum. Tengjanleiki er snar þáttur í áætluninni, ekki síst að því er varðar orku, og er vægið skiljanlegt í ljósi hinna fjölmörgu og fjölbreyttu aðfanga sem aðgengi er að meðfram þeim hagbeltum sem Belti og braut nær til. Frá almennara sjónarhorni benda athuganir á gögnum í þessari útgáfu Horfa í viðskiptum og fjármálum til þess að tengjanleiki milli bæði þróaðra markaða og nýmarkaða auki ávinninginn af viðskiptum og fjárfestingum. Þarfir þróunarríkja Asíu fyrir fjárfestingu í innviðum eru hins vegar miklar og eigin fjármálavandi Kína heima fyrir bendir til þess að takmörk séu fyrir því hvað Kínverjar geta gert upp á sitt eindæmi. Það þýðir að þörf verður á verulegum framlögum frá löndum OECD ef Belti og braut á að ná tilætluðum árangri. Það mun kalla á vaxandi þátt markaðanna í ákvarðanatöku um ráðstöfun fjármuna. Efla verður eignarréttindi og samkeppni, jafna samkeppnisstöðu og tryggja trausta stjórnarhætti til þess að af þeirri þátttöku geti orðið.

Í átt til jöfnunar samkeppnisstöðu í þágu sjálfbærs vaxtar

Belti og braut er liður í hnattvæðingu sem í eðli sínu er langtímaáætlun og þarfnast því eins og önnur sambærileg viðfangsefni gegnsæjan grunn traustra grundvallarreglna sem miða að hagkvæmum lausnum og sanngirni fyrir alla hagsmunaaðila.

Fimm víðtæk svið þar sem aukin samræming við alþjóðlega staðla gæti komið að gagni skera sig úr:

  • Vaxandi vægi fyrirtækja í ríkiseigu í hagkerfi heimsins kallar á leiðir til þess að tryggja jafna samkeppnisstöðu þar sem unnið er gegn niðurgreiðslum og ógegnsæjum ferlum og þar sem viðtökulöndum er gert kleift að njóta ávinningsins af fjárfestingum sem byggja á almennt viðurkenndum starfsvenjum í stjórnarháttum. Í þeim hagkerfum sem komið er til hjálpar verður að takast á við áhyggjuefni sem tengjast þjóðaröryggi, einkum áhyggjuefni varðandi viðkvæma tækniþekkingu og gloppur í lagalegri ábyrgð fyrirtækja í ríkiseigu.
  • Þörf er á opnu og gegnsæju fyrirkomulagi útboða, einkum þegar um er að ræða miklar fjárfestingar í innviðum.
  • Koma verður í veg fyrir þann þungbæra kostnað sem leiðir af mútuþægni og spillingu, bæði þegar um er að ræða stórar innviðaframkvæmdir og við aðrar aðstæður. Taka verður tillit til umhverfiskostnaðar með því að tryggja ábyrga breytni fyrirtækja þar sem leitast er við að lágmarka röskun byggðarlaga.
  • Til viðbótar því sem til er ætlast af fyrirtækjum varðandi virðingu fyrir umhverfinu verða stjórnvöld að hafa að reglu ráðast í umhverfismat áður en framkvæmdir hefjast við mannvirkjagerð og uppbyggingu innvirkja.
  • Þörf er á opnu og gegnsæju fyrirkomulagi fjárfestinga yfir landamæri til þess að draga úr kostnaði og auka möguleika á nýtingu tækniþekkingar. Öll þessi atriði munu hvetja til þess tengjanleika og stærðarhagkvæmni sem áætlunum um eflingu innvirkja er ætlað að tryggja.

Á öllum fimm sviðum veita staðlar OECD og aðrir alþjóðlegir staðlar mikilvægar leiðbeiningar um bæði þau hagkerfi sem eru viðtakendur stuðnings við innvirkjagerð og þau hagkerfi sem ætlað er að leggja til fjármagnið.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), OECD Business and Finance Outlook 2018, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264298828-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error