1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Pensions Outlook 2018

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/pens_outlook-2018-en

Horfur OECD í lífeyrismálum 2018

Útdráttur á íslensku

Blanda af söfnunarsjóðum og gegnumstreymissjóðum með sjálfvirkum leiðréttingum og öflugu öryggisneti fyrir lífeyrisþega bætir afkomu við starfslok

Stefnumótendur sem koma að skipulagningu lífeyriskerfa ættu að beina sjónum að markmiðum slíkra kerfa (fátækrahjálp, lífskjarajöfnun, sjálfbærni og neyslujöfnun) og áhættuþáttum (lýðfræðilegum, félagslegum, vinnuréttarlegum, þjóðhagslegum og fjárhagslegum).

Öflugt öryggisnet fyrir lífeyrisþega, svo og fjölbreytt og stöðugt lífeyriskerfi, sem að hluta er fjármagnað fyrirfram, er mikilvægt atriði, einkum þegar hvatning til sparnaðar af hálfu almennings og nýtingar sparnaðarins í langtímafjárfestingar er stefnumið. Að auki þurfa að felast í lífeyriskerfum þættir sem með sjálfvirkum hætti laga bætur að efnahagslegum og lýðfræðilegum raunveruleika. Kerfin ættu að vera fjárhagslega sjálfbær og tryggja að einhverju marki það öryggi sem fæst með samtryggingarkerfum.

Stjórnvöld ættu að taka upp fjármögnuð kerfi í áföngum þegar leitast er við að auka fjölbreytni lífeyriskerfa, einkum þegar ætlunin er að farmlög muni að hluta eða að fullu koma í stað gegnumstreymiskerfis sem fyrir er. Stefnumótendur ættu að íhuga slíka umbreytingu vandlega, þar sem hún getur valdið tímabundnu viðbótarálagi á opinberar fjárreiður og aukinni áhættu fyrir einstaklinga.

Hægt er að bæta fyrirkomulag fjárhagslegra hvata til þess að spara til eftirlaunaáranna

Hvatar, hvort heldur er með skattaívilnunum eða öðrum hætti, geta stuðlað að sparnaði til elliáranna með því að að veita einstaklingum skattahagræði með lækkun heildarskattsins sem greiddur er á líftímanum, en það hefur í för með sér neikvæð áhrif á skatttekjur. Þegar hvatar eru skipulagðir ætti að taka mið af sparnaðarþörfinni fyrir starfslok og greiðslugetu allra tekjuhópa, og í öllu falli ætti að gera ráð fyrir „skattalegu hlutleysi“ milli neyslu og sparnaðar.

Skattareglur ættu að vera einfaldar, stöðugar og samræmdar fyrir allar lífeyrissparnaðarleiðir. Beita má skattinneignum, föstum skattafrádrætti eða mótframlögum til þess að tryggja jafnt skattahagræði hjá öllum tekjuhópum. Í löndum þar sem skattinneignir eru notaðar mætti íhuga að gera inneignirnar endurgreiðanlegar og greiða þær þá inn á lífeyrisreikninga. Hvatar utan skattkerfisins, sér í lagi fastir styrkir, geta hjálpað til að auka sparnað lágtekjufólks. Í löndum þar sem beitt er svonefndu „EET“ kerfi (þar sem iðgjöld og fjármagnstekjur lífeyrissjóða eru undanþegnar skatti, en lífeyrir skattlagður) ættu að halda skattafrestunarkerfinu, og í löndum þar sem til athugunar er að koma á fjárhagslegum hvötum ætti að huga að fjárreiðugetu og lýðfræðilegum hneigðum.

Til að samræma gjöld sem innheimt eru við kostnaðinn af rekstri lífeyrissparnaðarkerfa þarf betri upplýsingagjöf, reglur um verðlagningu og kerfislægar lausnir.

Þjónusta á sviði lífeyrissparnaðar felur í sér kostnað, svo sem umsýslukostnað og kostnað af fjárfestingarhreyfingum, sem sjóðfélagar og atvinnurekendur greiða. Þessi kostnaður getur haft veruleg áhrif á virði uppsafnaðs lífeyrissparnaðar þegar til töku lífeyris kemur. Sum lífeyriskerfi geta einnig verið kostnaðarsamari, t.d. kerfi þar sem boðið er upp á breiðara val.

Aðgerðir til þess að bæta gegnsæi eru nauðsynlegar, en þær duga ekki til þess að samstilla kostnað og gjöld. Þær skila mestum árangri þegar þeim er beitt ásamt verðlagningarreglum og kerfislausnum. Í því skyni að hámarka hreina ávöxtun geta stefnumótendur og eftirlitsaðilar einnig beitt aðgerðum á borð við að setja viðmiðanir og tengja fjárfestingarkostnað með nánari hætti við ávöxtun eignasafna.

Stjórnarhættir og fjárfestingaraðferðir þjóðhagslega mikilvægra fjárfestingarstofnana veita gagnlegar leiðbeiningar um hvernig megi styrkja opinbert regluverk

Nokkrar þjóðhagslega mikilvægar fjárfestingarstofnanir hafa sameiginlega eiginleika og gefa vísbendingar um góða stjórnarhætti og fjárfestingarstefnu. Þar má nefna reglu‑ og lagaramma sem er óháður stjórnvöldum; skýrar markmiðslýsingar sem fjárfestingarstefna byggir á; eftirlitsstjórn sem ber ábyrgð gagnvart lögbærum yfirvöldum og sjóðsfélögum; gegnsæi varðandi fyrirkomulag stjórnarhátta, fjárfestinga og áhættustjórnunar til að tryggja ábyrgð gagnvart mismunandi hagsmunaaðilum.

Í þessum stofnunum eru markmið um ávöxtun sett fram sem frammistöðumarkmið og árangurinn borinn saman við langtímamarkmið fremur en við eitthvert tiltekið markaðsviðmið. Sjóðir sem styðjast við tiltekinn upphafsdag lífeyristöku og lífsferilssjóðir eru ákjósanlegustu kostir þeirra stofnana sem annast sérreikninga einstaklinga. Fjárfestingarstefna sem miðar að langtímaávöxtun kann að skila betri ávöxtun, en jafnframt bera meiri hættu á að ekki verði tiltækir nægir fjármunir við starfslok sjóðsfélaga.

Sjálfvirkar aðlaganir, sjálfvaldar leiðir, einfaldar upplýsingar og einfalt val, fjárhagslegir hvatar og fjármálamenntun leiða til betri útkomu við starfslok

Lélegt fjármálalæsi og bjagað hegðunarmynstur geta leitt til þess að fólk taki óviðeigandi ákvarðanir um lífeyri sinn.

Kerfi á borð við sjálfkrafa skráningu í lífeyrissjóð og stighækkun framlaga geta afstýrt aðgerðarleysi og aukið líkur á að lífeyriskerfið nái til sem flestra og að framlög aukist. Fólk sem er ófært um að velja sér fjárhæð framlaga sinna, lífeyrissjóð, fjárfestingarstefnu eða lífeyrisgreiðslufyrirkomulag eftir starfslok gæti notið góðs af sjálfvöldum leiðum, þ.e. leiðum sem farnar eru ef ekki er valin nein sérstök leið.

Einnig eru til önnur tæki sem aðstoða við ákvarðanatöku, svo sem netlausnir, takmarkanir á valmöguleikum og auðveldari leiðir til samanburðar, svo og fjárhagslegar ívilnanir. Yfirlit lífeyrissjóða geta sett fram mikilvægustu upplýsingarnar með einföldu sniði, og með námskeiðum um fjármál og fjármálaráðgjöf er hægt að hjálpa fólki að skilja upplýsingarnar.

Með auknum sveigjanleika við starfslokaaldur og framsæknum reglum um almennan lífeyri og skattamál má bregðast við fjárhagslegum vandræðum þjóðfélagshópa með skertar lífslíkur

Fólk á lægri stigum samfélagsins og tekjukvarðans býr við lakari lífslíkur en þeir sem ofar eru á kvarðanum. Það kann að bera skarðan hlut frá borði ef það er skemmri tíma á eftirlaunum miðað við starfsævi og fá þannig minna í sinn hlut af þeim framlögum sem runnið hafa í lífeyrissjóð þeirra. Með almennum lífeyri og skattareglum má bregðast við þessum halla að einhverju marki.

Í stefnumörkun sem miðar að því að bæta sjálfbærni lífeyriskerfa í ljósi aukinna lífslíka verður nauðsynlegt að taka tillit til mögulegra áhrifa á þá sem eru í mismunandi þjóðfélagsstöðum, félagslega, efnahagslega og kynferðislega. Almennt verður þörf á að lengja starfsævi, en ekki er víst að það verði á færi allra. Aukinn sveigjanleiki við starfslokaaldur er mikilvægur liður í að bæta lífeyriskjör allra hópa og tryggja að fólk sem lakar er sett félagslega og efnahagslegra gjaldi ekki fyrir það við starfslok að búa við minni lífslíkur.

Lífeyrir eftirlifenda gegnir áfram mikilvægu hlutverki, en ætti ekki að letja fólk frá vinnu eða endurúthluta frá einstæðingum til fólks í sambúð.

Enn er þörf á lífeyri til eftirlifenda til þess að jafna út lífskjör eftir andlát sambýlings. Lífeyrisþegar ættu þó ekki að eiga kost á varanlegum lífeyri eftirlifanda fyrir eftirlaunaaldur. Þess í stað ætti að vera kostur á tímabundnum bótum til að aðlagast nýjum aðstæðum.

Kostnaðurinn af makalífeyri ætti að vera innfelldur fyrir hvert par eða, að lágmarki, meðal allra para. Við endurbætur sem miða að því að fjárhagsáætlanir verði óbreyttar þýðir þetta að lífeyrisstig einstæðinga verður hærra en hjá einstaklingum í sambúð sem njóta góðs af eftirkomandalífeyri.

Makar úr fyrri sambúð ættu ekki að hafa þennan rétt, þar sem þeir munu ekki hafa neina neyslu sem þörf er á að jafna út. Að skipta lífeyrisréttindum hefur nokkra kosti, en í sumum löndum er farin sú leið að líta á sambúðarfólk sem einstæðinga, m.a. í þágu jafnréttis kynjanna.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), OECD Pensions Outlook 2018, OECD Publishing.
doi: 10.1787/pens_outlook-2018-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error