1887

OECD Multilingual Summaries

Education at a Glance 2016

OECD Indicators

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/eag-2016-en

Menntun í hnotskurn 2016

Hagvísar OECD

Útdráttur á íslensku

Þjóðir eru að finna aðrar leiðir en opinber útgjöld til þess að fjármagna æðri menntun

Lönd innan OECD verja að meðaltali 5,2% af vergri landsframleiðslu til menntastofnana frá grunnskóla til háskólastigs og eru þá útgjöld hins opinbera og einkaaðila saman talin. Um einn þriðji heildarútgjalda fer til háskólastigsins, þar sem útgjöld á hvern nemanda eru hæst. Hærri kostnaður af kennurum á háskólastigi og umfang rannsókna og þróunar á stuðla að auknum kostnaði.

Til þess að draga úr álaginu á fjárlög, þar sem stakkur er þegar þröngur sniðinn, eru sífellt fleiri lönd að færa kostnaðinn af háskólamenntun frá ríkinu til heimilanna. Að meðaltali koma um 30% útgjalda til náms á háskólastigi frá einkaaðilum, sem er mun hærra hlutfall en á lægri stigum náms, og tveir þriðju af þeim fjármunum koma frá heimilum, oft í formi námsgjalda.

Þar sem skilningur er á því að há skólagjöld kunna að koma í veg fyrir að hæft fólk skrái sig í háskólanám gera stjórnvöld í mörgum löndum ráð fyrir nokkurri sundurgreiningu í skólagjöldum. Til að mynda kunna skólagjöld að vera hærri hjá þeim nemendum sem sækja einkarekna háskóla eða hjá erlendum nemendum, eða lægri hjá nemendum sem sækja í styttri námsbrautir. Til að styðja nemendur er einnig í mörgum löndum boðið upp á námsstyrki og annan slíkan stuðning eða lán með ríkisábyrgð, oft á hagstæðum kjörum, í því skyni að hjálpa nemendum að takast á við beinan og óbeinan námskostnað. Á undanförnum áratug hefur í flestum löndum orðið vart aukningar í fjölda nemenda á háskólastigi sem taka almenn eða ríkistryggð lán og ljúka námi bæði með prófskírteini í hendi og skuld á bakinu.

Ójafnvægi kynjanna þrálátt í menntun og eftir menntun

Mikið hefur verið fjallað um viðsnúninginn sem orðið hefur á kynjamuninum í háskólunum, en fleiri konur eru nú háskólanemar en karlar. En konur eru ennþá ólíklegri til þess að sækja nám og ljúka námi á efri stigum háskólanáms, t.d. á doktorsstigi eða sambærilegu.

Kynjamunurinn í menntun kemur einnig fram í námsgreinavali. Konur eru enn færri í sumum greinum, svo sem vísindum og verkfræði, en fleiri í öðrum, svo sem kennslu‑ og heilsufræðum. Á árinu 2014 voru að meðaltali þrefalt fleiri karlar en konur sem útskrifuðust með gráðu í verkfræði og fjórfalt fleiri konur en karlar sem sem útskrifuðust með gráðu í kennslufræðum.

Ójafnvægi kynjanna í námsgreinum endurspeglast á vinnumarkaðinum og á endanum í tekjum. Menntaðir verkfræðingar er t.d. með að meðaltali um 10% hærri tekjur en aðrir fullorðnir með háskólamenntun en fólk með gráðu í kennslufræði og menntavísindum er með um 15% lægri tekjur.

Einnig er kynjamunur innan sjálfrar kennarastéttarinnar. Hlutfallslegur fjöldi kvenkennara minnkar – en laun kennara hafa tilhneigingu til að hækka – með hverju stigi menntunar. Einnig eru konur ólíklegri til þess að verða skólastjórar, jafnvel þótt skólastjórar séu oft ráðnir úr hópi kennara.

Innflytjendur eru ólíklegri til þátttöku á öllum menntastigum

Menntakerfi gegna lykilhlutverki við aðlögun innflytjenda að nýju samfélagi og koma þeim á vinnumarkaðinn. Til að mynda skoruðu nemendur úr hópi innflytjenda, sem kváðust hafa sótt forskólanám, 49 stigum hærra á lestrarprófi í Alþjóðlegu mati OECD á færni nemenda (PISA) en aðfluttir nemendur sem kváðust ekki hafa tekið þátt í slíku fornámi. Munurinn svarar til um það bil eins námsárs. Í flestum ríkjum er þátttaka aðfluttra nemenda í forskólanámi mun minni en þátttaka nemenda sem ekki eru komnir af innflytjendum.

Í mörgum löndum standa innflytjendur innfæddum jafningjum sínum að baki að því er varðar menntun. Til að mynda er hlutfall fullorðinna sem ekki hafa lokið framhaldsskólanámi hærra meðal innflytjenda en þeirra sem ekki eru af innflytjendum komnir. Að meðaltali hafa 37% fólks á aldrinum 25‑44, ára sem er af innflytjendum komið, á móti 27% jafnaldra þeirra sem ekki eru af innflytjendum komnir, lokið framhaldsskólanámi ef foreldrarnir hafa ekki lokið slíku námi. Einnig sýna gögn að innfæddir nemendur eru líklegri til þess að ljúka B.A. gráðu eða sambærilegu framhaldsnámi en nemendur sem eru af innflytjendum komnir.

Aðrar niðurstöður

Skráning í forskóla hefur farið vaxandi: milli 2005 og 2014 jókst skráning 3ja ára barna í forskóla úr 54% í 69% og skráning fjögurra ára barna jókst úr 73% í 85% að meðaltali í þeim löndum þar sem gögn fyrir báða aldurshópa eru tiltæk.

Í öllum löndum OECD er atvinnuleysi minna (9,2%) meðal þeirra sem lokið hafa iðnnámi á framhaldsskólastigi en þeirra sem lokið hafa almennu bóknámi á framhaldsskólastigi (10%).

Frá 2005 til 2014 jókst skráning fólks á aldrinum 20‑24 ára í nám á háskólastigi úr 29% í 33% að meðaltali ef miðað er við öll lönd innan OECD. Sé tekið mið af því að gert er ráð fyrir að um 36% ungs fólks í öllum löndum OECD muni að meðaltali ljúka námi á háskólastigi a.m.k. einu sinni fyrir þrítugt er líklegt að útskriftum á háskólastigi haldi áfram a fjölga.

Oft tekur lengur fyrir háskólanema að ljúka námi á háskólastigi en ráð er fyrir gert. Um 41% nemenda í fullu námi sem skrá sig í B.A. nám eða sambærilegt nám ljúka því innan þess tíma sem ráð er fyrir gert, en 69% ljúka námi á tilskildum tíma auk þriggja ára að meðaltali í þeim löndum þar sem gögn liggja fyrir um einstaka nemendur.

Kennarastéttin er að eldast þar sem starfsgreinin laðar ekki til sín yngra fólk. Hlutfall kennara á framhaldsskólastigi á aldrinum 50 ára eða eldri jókst frá 2005 til 2014 í 16 af þeim 24 löndum OECD sem gögn eru til um. Á Ítalíu og í Portúgal eru færri en 3% grunnskólakennara undir þrítugu.

Skólastjórar hafa afgerandi áhrif á umhverfi skóla og vinnuskilyrði kennara. Að meðaltali í þeim löndum sem gögn eru til um greindu yfir 60% skólastjóra frá því að oft hefði verið gripið til aðgerða til þess að styðja við samstarf kennara um að þróa nýjar kennsluaðferðir, að tryggja að kennarar taki ábyrgð á því að bæta færni sína og hjálpa þeim að finna til ábyrgðar á námsárangri nemenda sinna.

Þrátt fyrir efnahagsniðursveifluna árið 2008 hafa útgjöld á hvern nemanda á öllum námsstigum aukist að meðaltali í öllum löndum OECD. Milli 2008 og 2013 jukust raunútgjöld á hvern nemanda um 8% á grunnskóla‑ og framhaldsskólastigi og um 6% á háskólastigi. Efnahagskreppan hafði hins vegar bein áhrif á laun kennara: að meðaltali í öllum löndum OECD voru laun ýmist fryst eða lækkuð á tímabilinu frá 2009 til 2013. Frá þeim tíma hafa þau tekið að hækka.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2016), Education at a Glance 2016: OECD Indicators, OECD Publishing.
doi: 10.1787/eag-2016-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error