1887

OECD Multilingual Summaries

In It Together: Why Less Inequality Benefits All

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264235120-en

Allra hagur: Hvers vegna minni ójöfnuður er öllum til hagsbóta

Útdráttur á íslensku

Ójöfnuður í tekjum jókst í góðæri og hallæri

Í flestum löndum er bilið milli ríkra og fátækra breiðara en það hefur verið í 30 ár. Í ríkjum OECD þéna ríkustu 10% hverrar þjóðar 9,6 sinnum meira en hin fátækustu 10%. Á níunda áratugnum var þetta hlutfall 7:1, en hækkaði í 8:1 á tíunda áratugnum og 9:1 á fyrsta áratug 21. aldar. Í nokkrum nývaxtarlöndum, einkum í rómönsku Ameríku, hefur tekjubilið minnkað en ójöfnuður í tekjum er samt almennt meiri en í ríkjum OECD. Í kreppunni hélt tekjuójöfnuður áfram að aukast, einkum vegna aukins atvinnuleysis, en með endurdreifingu gegnum skattkerfi og tilfærslum fjármuna hefur að hluta tekist að vega á móti ójöfnuði. Engu að síður drógust heimilistekjur verulega saman í lægstu launastigunum í þeim löndum sem harðast urðu úti í kreppunni.

Nýleg umræða um launaójöfnuð hefur einkum snúist um þá sem mest þéna, einkum hin „efstu 10%“. Minni skilningur er á hlutfallslegri hnignun lágtekjuhópa – ekki aðeins neðstu 10%, heldur neðstu 40%. Í þessari skýrslu er einblínt fyrst og fremst á þessi heimili og litið á nokkra þá þætti sem hafa veikt fjárhagslega stöðu þeirra, svo og þau stefnumið sem gætu nýst til að takast á við vaxandi ójöfnuð.

Aukinn ójöfnuður dregur úr efnahagsvexti og skerðir tækifæri

Fyrir utan áhrifin á félagslega samheldni hefur vaxandi ójöfnuður skaðleg áhrif á hagvöxt til lengri tíma. Til dæmis er áætlað að aukningin í tekjuójöfnuðinum á árunum 1985 til 2005 hafi skert samanlagðan efnahagsvöxt um 4,7 prósentustig milli 1990 og 2010 að meðaltali í þeim ríkjum OECD sem langtímamælingar ná til. Aðalorsakavaldurinn er hið vaxandi bil sem er milli heimila í lægri tekjuhópnum –þ.e. neðri 40% tekjudreifingarinnar – og annarra.

Ein helsta leiðin frá ójöfnuði til hagvaxtar felst í fjárfestingu í mannauði. Þótt alltaf sé gjá í námsárangri milli einstaklinga með mismunandi félagslegan og efnahagslegan bakgrunn verður þetta bil enn breiðara í löndum þar sem ójöfnuður er mikill og þar sem fólk frá illa settum heimilum á ekki greiðan aðgang að góðu námi. Það leiðir til þess að mannkostir fara til spillis og félagslegur hreyfanleiki takmarkast.

Aukning óhefðbundinnar atvinnu getur skapað störf en stuðlar einnig að auknum ójöfnuði

Tímabundin störf, hlutastörf og sjálfstæður atvinnurekstur eru nú um þriðjungur allra starfa í löndum OECD. Síðan um miðjan tíunda áratuginn hefur meira en helmingur þeirra starfa sem til hafa orðið verið í formi óhefðbundinnar atvinnu. Margir þeirra sem eru í óhefðbundnum störfum eru verr staddir að því er varðar atvinnugæði þegar litið er til tekna, atvinnuöryggis eða aðgangs að starfsþjálfun.Einkum er það láglaunafólk með litla færni í tímabundinni vinnu sem býr við skert launakjör, óstöðugar tekjur og hægari launavöxt.

Á heimilum sem reiða sig mjög á tekjur af óhefðbundinni atvinnu er hlutfall fátæktar mun hærra (22% að meðaltali) og fjölgun slíkra heimila í löndum OECD hefur stuðlað að auknum heildarójöfnuði.

Óhefðbundin atvinna getur verið áfangi á leiðinni til stöðugrar atvinnu – en það veltur á tegund atvinnunnar og eiginleikum starfsmannanna, svo og stofnunum vinnumarkaðarins. Í mörgum löndum á yngra launafólk, einkum það sem er á tímabundnum ráðningarsamningum, minni möguleika á að komast í stöðugri atvinnu með von um starfsframa.

Fleiri konur á vinnumarkaðinum draga úr ójöfnuði

Konur hafa náð umtalsverðum árangri við að minnka bilið i atvinnuþátttöku, launum og starfsframa milli karla og kvenna og það hefur hamlað gegn aukningu ójafnaðarins. Þó eru enn 16% minni líkur á að konur séu í launaðri vinnu og laun kvenna eru enn um 15% lægri en hjá körlum. Ef hlutfall heimila með útivinnandi konum hefði staðið í stað frá því fyrir 20 til 25 árum hefði tekjuójöfnuðurinn aukist um nærri 1 Gini stigi meira að meðaltali. Áhrifin af auknu hlutfalli kvenna í fullri vinnu og hærri laun kvenna drógu úr aukningunni um eitt stig til viðbótar.

Aukin uppsöfnun auðs dregur úr fjárfestingartækifærum

Mun meiri uppsöfnun er í auði en tekjum: að meðaltali eiga 10% heimila um helming alls auðs, næstu 50% eiga nánast hinn helminginn, en þau 40% auðminnstu eiga rétt rúm 3%. Á sama tíma hafa miklar skuldir og/eða litlar eignir áhrif á getu lægri millistéttarinnar til þess að ráðast í fjárfestingar í mannauði eða öðru. Mikil uppsöfnun auðs getur veikt mögulegan hagvöxt.

Stefnumörkun til þess að takast á við ójöfnuð og stuðla að tækifærum fyrir alla

Stefnumótendur hafa ýmis tæki og úrræði til þess að takast á við vaxandi ójöfnuð og stuðla að tækifærum fyrir alla. Til þess að slík stefnumið nái árangri þarf traust á stofnunum og virka samfélagsumræðu. Til að minnka hið vaxandi bil milli ríkra og fátækra og stuðla að tækifærum fyrir alla er þörf á stefnumörkun á fjórum meginsviðum:

  • Þátttöku kvenna í efnahagslífinu: stjórnvöld þurfa að marka stefnu sem miðar að því að uppræta mismunun karla og kvenna á vinnumarkaðinum og fjarlægja hindranir gegn atvinnuþátttöku kvenna og framgangi þeirra í starfi. Þar má meðal annars nefna aðgerðir til þess að auka tekjumöguleika kvenna sem eru á lágum launum og takast á við glerþakið.
  • Stuðningi við atvinnusköpun og tilurð góðra starfa: stefnumið verða að leggja áherslu á aðgengi að störfum og samþættingu vinnumarkaðarins. Áherslan verður að vera á stefnumið sem stuðla að fleiri og betri störfum – störfum sem bjóða upp á starfsframa og fjárfestingarmöguleika – störfum sem eru áfangar á vegferð fremur en blindgötur. Mikilvægur liður í að takast á við lagskiptingu vinnumarkaðarins er að bæta gæði starfa og ráðast gegn ójöfnuði.
  • Færni og menntun: Áhersla á fyrstu árin, svo og á þarfir heimila með börn á skólaaldri, er mikilvæg til þess að takast á við efnahagslega og félagslega mismunun í menntun. Gera verður meira til þess að veita ungmennum þá færni sem þau þurfa til þess að fara vel af stað á vinnumarkaðinum. Í atvinnulífi þar sem þróun er hröð þarf að grípa til frekari aðgerða, í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, til þess að stuðla að stöðugt aukinni færni fram eftir starfsævinni.
  • Millifærslu með skattakerfinu til skilvirkrar endurdreifingar auðs: Vel skipulögð kerfi til endurdreifingar auðs með skattlagningu og millifærslum eru öflugt tæki til þess að stuðla að meiri jöfnuði og meiri efnahagsvexti. Á undanförnum áratugum hefur dregið úr skilvirkni endurdreifingar auðs í mörgum löndum þar sem bætur, sem greiddar eru á starfsævi fólks, halda ekki í við raunveruleg laun og dregið hefur úr stighækkandi skattheimtu. Stefnumið þurfa að tryggja að auðugri einstaklingar, og einnig fjölþjóðleg fyrirtæki, beri sinn hluta af skattbyrðinni. Mikið og viðvarandi tap lágtekjuhópa undirstrikar þörfina á vel skipulögðum tekjuuppbótum og sveiflujöfnunarfjárveitingum af hálfu hins opinbera.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2015), In It Together: Why Less Inequality Benefits All, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264235120-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error