1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Science, Technology and Innovation Outlook 2018

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/sti_in_outlook-2018-en

Horfur OECD í vísindum, tækni og nýsköpun árið 2018

Útdráttur á íslensku

Á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar (VTN) eru nokkrir áhrifavaldar að verki sem kunna að valda röskun. Þar má meðal annars nefna hnignun framleiðni vegna hækkandi meðalaldurs fólks, áhrif loftslagsbreytinga og þörfina á því að draga úr þeim og aðlagast, og loks hnattvæðinguna og vaxandi umsvif nýhagkerfa. Þessir áhrifavaldar skapa bæði tækifæri og vandamál fyrir starfsemi á sviði VTN. Þeir móta væntingar bæði samfélagsins og stjórnvalda varðandi hlutverk VTN og þeir hafa áhrif á það hvernig starfsemi á sviði VTN fer fram. Margir þessir áhrifavaldar eru undirrót „stórfelldra samfélagslegra áskorana“ (e. grand societal challenges) á borð við heilbrigða öldrun, hreina orku og fæðuöryggi. Áskoranir sem þessar koma fram í markmiðunum um sjálfbæra þróun, sem eru að verða æ meira áberandi í stefnumörkun um starfsemi á sviði VTN.

Framfarir á svið vísinda og tækni geta gert margar þessara áskorana viðráðanlegri ef þeim er vel stjórnað og ef þeim er beitt í samhengi við samfélagslega nýbreytni og umbætur í opinberri stefnumörkun. Erfðatækni gæti valdið byltingu í meðferð sjúkdóma, nanó‑efni og lífrænar rafhlöður gætu leitt til nýrra lausna á sviði hreinnar orku, og gervigreind gæt orðið megintækið til uppgötvana á nýjum lyfjum á komandi áratug.

En þótt ný tækni á borð við gervigreind og genatækni geti vakið stórkostleg tækifæri getur hún einnig leitt af sér verulegt tjón. Að koma í veg fyrir, leiðrétta eða draga úr neikvæðum áhrifum nýrrar tækni hefur orðið æ mikilvægara – og jafnframt erfiðara – eftir því sem tæknin sjálf hefur orðið flóknari og útbreiddari. Hraði tæknilegra breytinga og óvissan sem af hraðanum leiðir gerir stefnumótendum erfiðara að fylgjast með tækninýjungum.

Stjórnvöld verða að vera liprari, fljótvirkari og opnari fyrir þátttöku hagsmunaaðila, auk þess að vera betur upplýst. Í sumum löndum eru stjórnvöld nú þegar að gera tilraunir með nýjar aðferðir við mótun og framkvæmd stefnumiða, sem byggja á viðbúnaði og samstarfi við hagsmunaaðila, en slíkar aðferðir hafa enn ekki náð mikilli útbreiðslu í stefnumótun á sviði VTN.

Stafvæðing (e. digitalisation) er að breyta nýsköpun og starfsháttum í vísindum

Stafræn tækni er að gerbreyta nýsköpunarferlum, lækka framleiðslukostnað og stuðla að auknu og opnu samstarfi á sviði nýsköpunar, en skilin milli nýsköpunar á sviði framleiðslu og þjónustu eru að verða æ óljósari, jafnframt því sem hjól nýsköpunarinnar snúast æ hraðar. Upplýsingar og gögn eru nú orðin að meginaðföngunum til nýsköpunar og margar af þeim nýjungum sem fram eru að koma eru í mynd hugbúnaðar eða gagna. Þetta skiptir máli varðandi opinberan stuðning við nýsköpun á viðskiptalegum grunni, því stuðningurinn þarf (meðal annars) að felast í að tryggja breiðan aðgang að gögnum.

Með stafvæðingu hafa orðið til ný tækifæri til þess að virkja hagsmunaaðila á mismunandi stigum nýsköpunarferlisins. Ýmsar starfsvenjur eru nú að koma fram sem felast í sköpunarsamstarfi og tilliti til samfélagsins. Í flestum löndum hafa orðið til sérstök svæði eða nýsköpunarstöðvar (e. maker spaces) á borð við við „living lab“ og „fab‑lab“ stöðvar, þar sem stutt er við starfsemi „óhefðbundinna“ frumkvöðla. Gróin fyrirtæki geta einnig tekið þátt í nýsköpun sem gagnast öllum í samfélaginu. Starfsaðferðir svo sem gildisgrunduð hönnun og stöðlun eru að koma fram: þar gæti verið um að ræða öflug tæki til þess að fella samfélagsleg grunngildi, öryggisráðstafanir og markmið inn í tækniþróun.

Öll rannsóknarsvið kalla í auknum máli á viðamiklar upplýsingar. Bætt aðgengi að gögnum getur skilað miklum árangri, svo sem nýjum vísindalegum uppgötvunum, minni tvíverknaði og betri samanburðarnákvæmni (e. reproducibility) niðurstaðna rannsókna, auknu trausti til vísinda og meiri nýsköpun. Hér hafa stjórnvöld hlutverki að gegna við að hjálpa vísindunum að takast á við áskoranirnar sem leiða af opnum vísindum: með því að tryggja gegnsæi og traust í rannsóknarsamfélaginu og meðal almennings, greiða fyrir deilingu gagna yfir landamæri og milli rannsóknargreina og tryggja að sú viðurkenning og umbun sé fyrir hendi sem hvetur fólk sem rannsóknir stundar til þess að deila upplýsingum.

Með gervigreind og vélrænu námi (e. machine learning) fylgja möguleikar til þess að auka framleiðni í vísindum, greiða fyrir nýjum leiðum til vísindalegra uppgötvana og auka samanburðarnákvæmni. Gervigreindarkerfi hafa aðra styrkleika og veikleika en mennskir vísindamenn og til þess er ætlast að með þeim skapist samlegð. Hins vegar eru ýmis vandkvæði sem koma í veg fyrir útbreidda notkun gervigreindar í vísindum, svo sem þörfin á því að umbreyta aðferðum gervigreindar og aðlaga þær þannig að þær gegni hlutverki sínu við krefjandi og breytilegar aðstæður, áhyggjuefni varðandi takmarkað gegnsæi í ákvarðanatöku sem byggir á vélrænu námi, takmarkað framboð á menntun og þjálfun sem beinist að gervigreind, og loks kostnaðurinn af tölvuvæðingunni sem þörf er á til að stunda rannsóknir á sviði gervigreindar í fremstu víglínu.

Stefnumótun og stjórnarhættir á sviði VTN snúast í auknum mæli að markmiðum

Í samræmi við markmiðin um sjálfbæra þróun leitast stjórnvöld við að beina tæknilegum breytingum úr núverandi farvegum í átt til tækni sem betur þjónar hagkerfum, samfélaginu og umhverfinu og hvetja til fjárfestinga einkaaðila í VTN á þessum nótum. Þessi breyting hefur kynt undir stefnu um VTN sem byggir á markmiðssetningu, þar sem stjórnvöld leita eftir nánara samstarfi við atvinnuvegina og borgaraleg samtök í því skyni að beina vísindum og tækni í átt til metnaðarfullra markmiða sem gagnast samfélaginu.

Hins vegar kunna núverandi fjárveitingar til almennra rannsókna og þróunar að vera í ósamræmi við þann metnað og hindranir sem lýst er í stefnumiðum um að ná tilteknum markmiðum. Frá 2010 hafa opinberar fjárveitingar til rannsókna og þróunar í löndum OECD og nærri öllum G7 ríkjahópnum staðið í stað eða dregist saman, ekki aðeins í peningum talið og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, heldur einnig sem hlutfall af opinberum útgjöldum í heild. Hlutdeild stjórnvalda í heildarfjármögnun rannsókna og þróunar dróst saman um fjögur prósentustig (úr 31% í 27%) á OECD svæðinu milli áranna 2009 og 2016. Jafnvel þótt bætt hafi verið upp fyrir þennan samdrátt í mörgum löndum með því að auka skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar gæti stjórnvöldum enn reynst erfitt að beina rannsóknar‑ og nýsköpunarstarfi inn á æskilegar brautir.

Enn er einnig verulegt ójafnvægi milli kynjanna, nú þegar brýn þörf er á fjölbreytni í vinnuaflinu til þess að nálgast markmiðin um sjálfbæra þróun. Að mestu er um að kenna djúpstæðum kerfislægum þáttum á borð við staðalímyndir kynjanna og brautir til starfsframa sem eru fjandsamlegar fjölskyldulífi. Í flestum löndum hefur kynjafjölbreytni verið skilgreind sem mikilvægt markmið í landsbundum áætlunum um vísindi, tækni og nýsköpun. Hins vegar eru áætlanir stjórnvalda enn sundurleitar og þörf er á betur skipulögðum og kerfisbundnum aðgerðum til langs tíma.

Stjórnvöldum gæti reynst gagnlegt að taka stafræna tækni í þjónustu sína við hönnun, framkvæmd og eftirlit með stefnumiðum sínum um VTN. Tæki á borð við stórgögn, staðla um samvirkni og vinnslu sem byggir á notkun tungumáls fremur en forritunarmáls gæti veitt stjórnvöldum aðgang að betur sundurgreindum og tímanlegum upplýsingum til þess að styðja við stefnumörkun og stefnumótun. Með því að tengja saman mismunandi gagnasöfn er með þessum tækjum hægt að bylta staðreyndagrunninum sem byggt er á við stefnumótun um VTN og gera auðveldara að sýna fram á samhengið milli fjárveitinga til vísinda og nýsköpunar og raunverulegs árangurs. Að fylgjast með framlagi VTN til hinna alþjóðlegu og margþættu markmiða um sjálfbæra þróun er þó áfram flókið mál og mun kalla á nýja þróun á sviði tölfræðilega upplýsinga og nýja hagvísa.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2018), OECD Science, Technology and Innovation Outlook 2018, OECD Publishing.
doi: 10.1787/sti_in_outlook-2018-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error