1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Digital Economy Outlook 2015

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264232440-en

Horfur OECD varðandi stafræna hagkerfið 2015

Útdráttur á íslensku

Stafræna hagkerfið er nú snar þáttur í hagkerfi heimsins og hefur áhrif á jafnólíka þætti og bankastarfsemi, smásölu, orku, samgöngur, menntun, útgáfu, fjölmiðla og heilbrigðismál. Upplýsinga‑ og fjarskiptatækni (UFT) er að gerbreyta því hvernig félagsleg og persónuleg samskipti fara fram, þar sem fastanet, farnet og útvarpstækni koma saman og tæki og hlutir af ýmsum toga tengjast saman og mynda hið svonefnda „Internet hlutanna“ (e. Internet of Things).

Hvernig geta ríki OECD og samstarfslönd þeirra hámarkað möguleika stafræna hagkerfisins sem drifkraft nýsköpunar og vaxtar í allra þágu? Hver er sú þróun í stafræna hagkerfinu sem stefnumótendur þurfa að gefa gaum og hver eru úrlausnarefnin sem þeir þurfa að takast á við?

Möguleikar stafræna hagkerfisins eru enn ekki fullnýttir

Alþjóðleg verslun með UFT vörur, og ekki síður UFT þjónustu, heldur áfram að vaxa. Útgjöld atvinnufyrirtækja til rannsókna og þróunar og nýleg aukning í UFT‑tengdum einkaleyfum eru til marks um hið mikilvæga hlutverk sem greinin gegnir í nýsköpun. Breiðbandsmarkaðir eru að stækka og vaxandi áskriftir að þráðlausum breiðbandstengingum, sem nálgast milljarðinn, koma á móti minnkandi notkun fastalína. Notagildi samskiptaneta fer batnandi með innleiðingu ljósleiðara og 4G tækni en verð fer lækkandi, einkum verð á farsímaþjónustu.

 • Verulegir möguleikar eru til þess að stækka þjónustusvæði og bæta gæði bæði fastaneta og farneta. Ný aðferðafræði OECD til mælingar á auglýstum gagnahraða breiðbandsneta auðveldar stjórnvöldum að viðhalda framförunum í átt til Internets hlutanna.
 • Eftir því sem auknar kröfur eru gerðar til dreifikerfa og sífellt stærra tíðnirófi þarf að úthluta til farsímaþjónustu verður meiri þörf á að nýta samnýtingarmöguleika fastra fjarskiptaneta og farneta. Föst grunnvirki eru nauðsynleg til þess að létta álagið á þráðlausum gagnaflutningum og bæta nýtingu þess tíðnirófs sem til skiptanna er. Stefnumótendur eru að prófa nýstárleg leyfiskerfi til þess að bæta nýtingu tíðnirófsins.
 • Stórkostlegir möguleikar eru fyrir fyrirtæki til að taka upp og nota UFT og Internetið í því skyni að stuðla að vexti og nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Þótt flest fyrirtæki í OECD löndun séu með breiðbandstengingu – 95% allra fyrirtækja með 10 eða fleiri starfsmenn árið 2014 – eru fá fyrirtæki sem nota hugbúnað til verðmætastýringar (31%), skývinnsluþjónustu (22%) eða taka við rafrænum pöntunum (21%). Munurinn milli landa og milli stórra og lítilla fyrirtækja er áfram umtalsverður.
 • Ný viðskiptalíkön sem byggja á samstarfi um framleiðsluaðferðir, svo sem aðferðir til fjöldafjármögnunar, og hinn nýi vettvangur„deilihagkerfisins“ reyna á gildandi regluverk um hefðbundna markaði og kalla á yfirveguð viðbrögð í stefnumótun sem veita svigrúm til nýsköpunar en vernda jafnframt almannahagsmuni.
 • Svigrúmið til aukinnar upptöku þessara aðferða er einnig verulegt. Neytendur koma aðeins við sögu í litlum hluta rafrænna viðskipta, en allt að 90% rafrænna viðskipta eru milli fyrirtækja. Þrátt fyrir mikla útbreiðslu er enn mikill munur á því hvernig netið er notað, einkum í starfsemi sem tengd er við æðri menntun, svo sem í rafrænni stjórnsýslu, rafrænum viðskiptum og notkun netbanka.

Stuðningur við efnahagsvöxt og samfélagsþróun með landsbundnum áætlunum um stafræna tækni

Stjórnvöld í löndum OECD gera sér æ betur grein fyrir þörfinni á því að þróa stafræn hagkerfi sín með skipulegum hætti, að víkka út kosti þess og bregðast við mikilvægum áskorunum á borð við að draga úr atvinnuleysi og ójöfnuði og lyfta fólki upp úr fátækt. Áætlanir nútímans um stafræna tækni ná yfir breitt svið málaflokka, allt frá atvinnusköpun og aukningu framleiðni til opinberrar stjórnsýslu og menntunar, heilbrigðismála, umhverfismála og þróunarmála. Þegar á heildina er litið gera stjórnvöld sér æ betur grein fyrir því að „netstefnumörkun“ verður að byggja á samfelldri röð stefnumiða sem öll stjórnvöld verða að koma að:

 • Grunnvirkið – sem er grunnurinn að nýjum viðskiptalíkönum, rafrænum viðskiptum og nýjum vísindalegum og samfélagslegum samráðsvettvangi – þarf að vera gott og aðgengilegt öllum á samkeppnishæfu verði.
 • Samkeppni í stafræna hagkerfinu er nú ógnað af ýmsum meiri háttar breytingum, m.a. samleitni í tækni og samræmingu viðskiptalíkana meðal fjarskiptaþjónustufyrirtækja og nýrra hagsmunaaðila á netinu og því verða stjórnvöld einnig að grípa til aðgerða til þess að vernda samkeppni, draga úr aðgangshindrunum og efla samræmi í eftirliti. Sameining farsímamarkaða má ekki verða til þess að draga úr nýsköpun eða samkeppnishæfni nýrra þátttakenda á markaðinum.
 • Brýnt er að hvetja til aukinnar upptöku upplýsinga‑ og fjarskiptatækni, einkum af hálfu stjórnvalda og fyrirtækja, þ.m.t. lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
 • Tryggja verður traust á áreiðanleika og öryggi netsins sjálfs, netþjónustu og netbúnaðar og fullvissa verður notendur um að einkalíf þeirra og neytendaréttur njóti verndar. OECD hefur hvatt leiðtoga og aðila sem koma að ákvarðanatöku til þess að fella áhættustjórnun á rafrænu öryggi og friðhelgi einkalífs inn í heildaráhættustjórnun sína fremur en að líta á þessi mál sem sérstök tæknileg og lögfræðileg úrlausnarefni. Áætlanir um öryggi á netinu ætti að bæta upp með landsbundnum stefnumiðum um friðhelgi einkalífs til þess að takast á við við þau mál með samræmdum og heildstæðum hætti og meta þær takmarkanir sem samfélagið er tilbúið að sætta sig við í þágu almannahagsmuna.
 • Með menntun, þjálfun og endurmenntun þarf að búa fólk út með viðeigandi þekkingu til þess að nýta sér upplýsinga‑ og fjarskiptatækni til þess að stjórna áhættunni sem fylgir félagslegri og efnahagslegri notkun þeirra á netinu með það fyrir augum að stuðla að frumkvöðlastarfsemi, atvinnusköpun og aðgengi allra að rafrænum samskiptum.
 • Brýnt er að gera sér grein fyrir mögulegri röskun sem getur leitt af því að taka upp stafræn samskipti. Stjórnvöld munu þurfa að greiða fyrir umskiptum launþega yfir í ný stafræn störf.

Rafrænir stjórnarhættir: Forgangsstefnumið á komandi árum

Netsamfélagið er að þróa tillögur um flutning umsjónarinnar með nettækni frá ríkisstjórn Bandaríkjanna til alþjóðlegs samfélags hagsmunaaðila. Í september 2015 munu Sameinuðu þjóðirnar birta áætlun sína um þróun eftir 2015 þar sem sett verða sjálfbær þróunarmarkmið sem líklegt er að muni fela í sér aukinn aðgang að upplýsinga‑ og fjarskiptatækni og netinu til þess að koma á alþjóðlegu stafrænu hagkerfi fyrir alla. Í desember 2015 kemur umboð Samstarfsvettvangsins um stjórnsýslu á netinu (Internet Governance Forum, IGF) til endurnýjunar.

Það sem býr að baki þessu framtaki er sú grundvallarþörf að tryggja að Internetið verði áfram opið. Hugmyndin um Internetið sem opinn vettvang þar sem fyrirtæki, borgarar og stjórnvöld geta með frjálsum hætti stundað nýsköpun og þróað nýja notkunarmöguleika og þjónustu hefur leitt til alls kyns nýbreytni í hinu stafræna hagkerfi. Undanfarin ár hefur hins vegar borið á áhyggjum af því að efnahagslegi og samfélagslegi ávinningurinn af opinni og dreifstýrðri uppbyggingu netsins og frjálsu flæði upplýsinga yfir landamæri kunni að verða fyrir beinum eða óbeinum áhrifum af málefnum á borð við kröfur um landsbundna beiningu, innihald og gagnavörslu, hlutleysi netsins, alþjóðlega viðurkenningu á lénsheitum á mismununandi tungumálum og uppsetningu annarra netkerfa.

Kostirnir og hætturnar sem fylgja opnu Interneti verða ræddar af hálfu ráðherra og annarra mikilvægra hagsmunaaðila á væntanlegum ráðherrafundi OECD árið 2016, ásamt öðrum mikilvægum álitamálum sem varða alþjóðlega tengni, net hlutanna, stýringu eftirspurnar til þess að stuðla að nýsköpun og traust á hinu stafræna hagkerfi og leiðir til þess að stuðla að atvinnusköpun og þróa þá hæfni sem þörf er á til þess að hámarka þann hag sem leiðir af stafræna hagkerfinu.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2015), OECD Digital Economy Outlook 2015, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264232440-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error