1887

OECD Multilingual Summaries

Education at a Glance 2017

OECD Indicators

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/eag-2017-en

Menntun í hnotskurn 2017

Hagvísar OECD

Útdráttur á íslensku

Þeir sem útskrifast úr raungreinum eiga auðveldast með að fá vinnu, en það er ekki algilt

Í flestum löndum OECD eru vinsælustu prófgráðurnar á háskólastigi í viðskiptum, stjórnun eða lögfræði. Að meðaltali í löndum OECD eru 23% háskólamenntaðra á aldrinum 25‑64 ára með gráðu á einu af þessum þremur námssviðum, samanborið við 5% í náttúruvísindum, tölfræði og stærðfræði, 4% í upplýsinga‑ og fjarskiptatækni og 17% í verkfræði og framleiðslu‑ og byggingargreinum. Hlutfallið er svipað hjá nýnemum í háskólanámi, sem bendir til þess að áhugi á þessum sviðum haldist stöðugur.

Hins vegar eykst áhugi á vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði (svonefndum STEM greinum) með hækkandi menntastigi, en hlutdeild nemenda sem útskrifast af þessum sviðum á doktorsstigi er nærri tvöfalt stærri en á neðsta stigi háskólanáms. Þessar greinar eru einnig vinsælar meðal alþjóðlegra nemenda á háskólastigi, þar sem hlutdeildin er hæst, en nærri þriðjungur þeirra sem stunda nám í löndum OECD eru í raungreinum.

Áhugi á verkfræði er meiri hjá nemum á starfsmenntabrautum á framhaldsskólastigi en á háskólastigi vegna sterkra tengsla þeirra brauta við atvinnuvegina. Um það bil þriðjungur nemenda lýkur námi af starfsmenntabrautum á framhaldsskólastigi með prófi í verkfræði, framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði – það er meira en tvisvar sinnum hærra hlutfall en á háskólastigi.

Raungreinar njóta þess einnig að þar er atvinnustig hærra, sem er til marks um þarfir samfélags sem í auknum mæli er drifið áfram af nýsköpun: þeir sem útskrifast með gráðu í upplýsinga‑ og fjarskiptatækni mega eiga von á atvinnustigi sem er 7 prósentustigum hærra en hjá þeim sem útskrifast með gráðu í heimspekigreinum og hugvísinum eða félagsfræði, blaðamennsku og upplýsingafræðum. Hins vegar er atvinnustigið innan raungreinanna misjafnt: þeir sem útskrifast af náttúrufræði‑, stærðfræði‑ og tölfræðibrautum eru líklegri til þess að njóta sama atvinnustigs og þeir sem útskrifast af heimspeki‑ og hugvísindabrautum, sem í báðum tilfellum er lægra en atvinnustigið meðal verkfræðinga eða sérfræðinga á sviði upplýsinga‑ og fjarskiptatækni.

Kynjajafnvægi í útskriftum er enn fjarlægur draumur í sumum námsgreinum, einkum í starfsmenntun á efra framhaldsskólastigi. Kynjajafnvægið batnar á háskólastigi, þótt aðeins um einn af hverjum fjórum nýnemum í verkfræði, framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði sé kona. Á hinn bóginn eru þrír af hverjum fjórum nýnemum í heilbrigðis‑ og velferðargreinum konur. Á öðrum sviðum – svo sem í viðskiptafræði og náttúruvísindum, stærðfræði og tölfræði – er ekki fjarri því að kynjajafnvægi nýnema hafi náðst.

Fullorðnir eru almennt betur menntaðir nú, en sumir sitja enn eftir

Frá árinu 2000 hefur menntastig vinnuaflsins í löndum og samstarfslöndum OECD hækkað. Árið 2000 hafði meirihluti ungs fólks hæst náð á efra stig framhaldsnáms en nú er meirihluti fólks á aldrinum 25‑34 ára með háskólamenntun. Hlutfall ungs fólks með menntun undir efra framhaldsskólastigi hefur einnig minnkað í flestum löndum og samstarfslöndum OECD, niður í 16% að meðaltali árið 2016 ef litið er til allra landa OECD. Þótt fleira ungt fólk nái nú efra framhaldsskólastigi eru útskriftir af því námsstigi enn vandamál. Í löndum þar sem raungögn liggja fyrir um aldurshópa höfðu um það bil 25% nema sem skráðu sig til náms ekki lokið námi tveimur árum eftir áætluð námslok og fjórir af fimm þessara nema eru ekki lengur skráðir í námi. Þetta er afar bagalegt, því atvinnuleysi meðal ungs fólks (á aldrinum 25‑34 ára) sem ekki lauk framhaldsskólanámi á efra stigi er nálægt 17%, samanborið við 9% hjá þeim sem luku námi.

Fullorðið fólk með háskólamenntun nýtur verulegrar ávöxtunar af fjárfestingu sinni: það er 10 prósentustigum líklegra til þess að vera í atvinnu og það mun að meðaltali þéna 56% umfram fullorðið fólk sem einungis lauk námi á framhaldsskólastigi. Þetta fólk er einnig fyrst til þess að ná sér á strik eftir efnahagslægðir, en atvinna ungs fólks með háskólamenntun er komið upp á svipað stig og fyrir efnahagskreppuna, meðan þeir sem ekki hafa lokið námi á efra framhaldsskólastigi eiga lengra í land. Fullorðið fólk með háskólapróf er einnig ólíklegra til þess að þjást af þunglyndi en jafnaldrar, sem minni menntun hafa. Af þessum ástæðum er ungt fólk í auknum mæli líklegt til þess að sækja sér menntun sem bætir hæfni þess, fremur en að fara inn á vinnumarkaðinn strax að loknu skyldunámi. Frá 2000 til 2016 jókst hlutdeild fólks á aldrinum 20‑24 ára, sem enn var í námi, um 10%, samanborði við 9 prósentustiga lækkun hlutdeildar þeirra sem voru í vinnu.

Heildarútgjöld til háskólamenntunar hafa aukist umfram innritanir nýnema

Útgjöld hafa aukist mun hraðar en innritanir nemenda á öllum stigum náms, einkum á háskólastigi. Útgjöld til menntastofnana á grunnskóla‑, framhaldsskóla‑ og háskólastigi jukust um 4% frá 2010 til 2014, þótt innritunum nýnema hafi fækkað lítillega á sama tímabili. Aftur á móti jukust heildarútgjöld til háskólastofnana meira en tvöfalt hraðar en fjölgun nýnema á sama tímabili, sem er til marks um þann forgang sem stjórnvöld og samfélagið hafa veitt æðri menntun.

Þótt opinber útgjöld til menntastofnana frá grunnskólastigi til háskólastigs hafi augljóslega aukist hafa þau ekki haldist í hendur við meðalaukningu vergrar landsframleiðslu í löndum OECD á árunum 2010 til 2014. Niðurstaðan er samdráttur opinberra útgjalda til menntastofnana um 2% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á sama tímabili. Á sama hátt gerðist það í helmingi landa OECD að hlutdeild opinberra útgjalda til menntunar frá grunnskólastigi til háskólastigs dróst saman milli 2010 og 2014.

Hlutfall opinberrar fjármögnunar er verulega hærra á skyldunámsstigi en á háskólastigi. Þótt hið opinbera leggi enn til 91% af þeim fjármunum sem þarf til reksturs skóla á grunnskóla‑ og framhaldsskólastigi og framhaldsnáms utan háskóla, leggur það einungis til um 70% af heildarútgjöldum á háskólastigi og þurfa heimilin því að greiða það sem á vantar. Hlutdeild opinberrar fjármögnunar menntakerfisins hefur þó almennt haldist stöðug á árunum frá 2010 til 2014 á öllum námsstigum.

Kennarar dragast aftur úr í launum og stéttin eldist

Kennarar eru hryggjarsúlan í menntakerfinu en starfsgrein þeirra nýtur sífellt minni vinsælda meðal ungra nemenda, og stéttin er að eldast, einkum á hærri menntastigunum. Að meðaltali i öllum löndum OECD voru 33% kennara á grunnskóla‑ og framhaldsskólastigi a.m.k. 50 ára að aldri árið 2015, sem er aukning um þrjú prósentustig frá 2005. Að auki eru konur í miklum meirihluta í stéttinni, en að meðaltali eru sjö af hverjum tíu kennurum í löndum OECD konur. Kynjajafnvægið batnar þó á æðri stigum náms – 97% kennara á leikskólastigi eru konur en á háskólastigi eru konur 43% af heildinni.

Laun kennara eru lág í samanburði við laun annarra launþega í fullu starfi með svipaða menntun. Það á snaran þátt í því að ungt fólk sækir ekki í kennslustörf. Þótt laun hækki eftir því sem ofar er komið í menntakerfinu eru þau engu að síður aðeins um 78% til 94% af launum fólks í fullu starfi með háskólamenntun. Efnahagsniðursveiflan sem varð árið 2008 hafði bein áhrif á laun kennara, sem í sumum löndum voru ýmist fryst eða lækkuð. Milli 2005 og 2015 lækkuðu lögbundin laun kennara að raungildi í einum þriðja þeirra landa og hagkerfa sem tölur liggja fyrir um.

Aðrar niðurstöður

Vegna samdráttar í opinberri fjárfestingu í menntun yngstu barna er hlutdeild barna sem ganga í einkaskola á þessu stigi talsvert stærri en í námi á grunn‑ og framhaldsskólaaldri.

Bóknám á efri stigum framhaldsskóla nýtur meiri vinsælda en starfsmenntun: 37% ungmenna á aldrinum 15 til 19 ára stunda nám á efri framhaldsskólastigum, samanborði við 25% í starfsmenntun, jafnvel þótt starfsmenntun sé fyrirferðarmikill þáttur í menntakerfum margra landa.

Fjárstuðningur hjálpar til að létta byrði hárra skólagjalda hjá sumum stofnunum á háskólastigi: 75% nemenda, eða fleiri, í Ástralíu, Englandi (Bretlandi) og Bandaríkjunum nýta sér opinber lán eða njóta námsstyrkja.

Opið aðgengi að opinberum eða einkareknum menntastofnunum á háskólastigi er við lýði í meira en helmingi þeirra landa sem gögn liggja fyrir um. Landsbundin próf eða miðstýrð próf, sem þreytt eru í lok efra stigs framhaldsnáms, svo og inntökupróf stofnana á háskólastigi, eru algengustu tækin sem notuð eru til þess að stýra aðgengi að háskólanámi á fyrsta stigi.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), Education at a Glance 2017: OECD Indicators, OECD Publishing.
doi: 10.1787/eag-2017-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error