1887

OECD Multilingual Summaries

Perspectives on Global Development 2017

International Migration in a Shifting World

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/persp_glob_dev-2017-en

Rýnt í hnattræna þróun 2017

Alþjóðlegir þjóðflutningar í breyttum heimi

Útdráttur á íslensku

Hagþróunin í heiminum ýtir undir fólksflutninga

Um 243 milljónir manna bjuggu utan eigin lands árið 2015, sem er 3,3% af mannfjölda heimsins, en það er 2,7% aukning frá 1995. Tilfærslan sem er að verða á efnahagsstarfsemi í átt til þróunarlanda (lágtekju‑ og meðaltekjulanda) á síðustu tveimur áratugum hefur ekki leitt af sér samsvarandi fólksflutninga í átt til þeirra landa. Í þessari skýrslu er notuð ný þríþætt flokkun landa til þess að kanna áhrifin af tilfærslu auðs á fólksflutninga og leitt í ljós að farandfólk laðast í auknum mæli að hefðbundnum móttökulöndum sem teljast til hátekjulanda. Frá 1995 til 2015 jókst hlutdeild innflytjenda til þessara landa um 13 prósentustig, upp í nærri tvo þriðju af heildarfjöldanum í heiminum. Þar að auki hefur hagþróun í þróunarlöndum ýtt undir alþjóðlega fólksflutninga eftir því sem fleira fólk öðlast fjárráð sem duga til þess að flytjast búferlum.

Fólk laðast að þessum móttökulöndum ekki aðeins vegna hærri tekna, heldur einnig vegna aukinnar velsældar. Þrátt fyrir framfarir í mörgum þróunarlöndum hefur tekjubilið í samanburði við hátekjulönd verið að aukast og munurinn á velsæld er áfram mikill. Þegar fyrir er tengslanet innflytjenda (fjölskylda, vinir og samfélag), sem þegar eru búnir að koma sér fyrir í hefðbundnum móttökulöndum, dregur það einnig úr kostnaði við búferlaflutninga og eykur enn á fjölgun og samþjöppun innflytjenda í fáum eftirsóttum móttökulöndum.

Opinber stefna hefur einnig áhrif á fólksflutninga. Stefnumörkun á ýmsum sviðum, ekki aðeins í innflytjendamálum, hefur áhrif á flæði og mynstur fólksflutninga á margvíslegan og oft flókinn hátt. Skilningur á þessu er lykilatriði ef hámarka á ávinninginn og lágmarka kostnaðinn af fólksflutningum fyrir bæði upprunalönd og móttökulönd og farandfólkið sjálft.

Þótt flest alþjóðlegt farandfólk ferðist að eigin frumkvæði er sumt fólk hrakið brott vegna vopnaðra átaka eða ofbeldis. Í lok 2015 var fjöldi flóttafólks kominn í 16,1 milljónir. Ólíkt öðru alþjóðlegu farandfólki dvelst flest flóttafólk, – 87% þess – í þróunarlöndum.

Að gera fólksflutninga að drifkrafti þróunar

Alþjóðlegir fólksflutningar fela í sér tækifæri fyrir upprunalönd, móttökulönd og farandfólkið sjálft. Hins vegar hefur ávinningurinn af fólksflutningum ekki enn verið nýttur til fulls og fleira þarf að gera til þess að uppskera ávinninginn af vaxandi hreyfanleika fólks í heiminum. Við aðstæður þar sem fleira fólk vill flytjast búferlum en er í aðstöðu til þess þarf þríþætta nálgun til þess að tryggja að fólksflutningar geti orðið drifkraftur þróunar.

Fyrsti þátturinn: Að móta stefnu þar sem þróunarmál eru innfelldur liður

Fólksflutningar eru ekki forsenda þróunar, en þeir geta stuðlað með veigamiklum hætti að þróun, bæði í upprunalandinu og móttökulandinu. Stefnumótendur ættu að móta stefnu til langs tíma um fólksflutninga og þróunarmál til þess að lágmarka kostnaðinn sem hlýst af hreyfanleika fólks og hámarka ávinninginn.

Í upprunalöndunum ættu markmið stefnumörkunar meðal annars að vera að lágmarka kostnað við millifærslur fjár og beina fjársendingum í átt til arðbærra fjárfestinga, laða brottflutta að þróunarverkefnum heima fyrir, freista þeirra til þess að snúa aftur og styðja við fjölskyldurnar sem eftir sitja. Hafi þjóðir áhyggjur af miklum brottflutningi fólks þarf að tvíefla aðgerðir til þess að bæta aðstæður heima fyrir, einkum með því að skapa ásættanleg atvinnutækifæri og bæta velsæld.

Í löndum sem taka á móti innflytjendum ætti meðal annars að gera ráðstafanir til umbóta á vinnumarkaði, draga úr umfangi óformlega vinnumarkaðarins, breikka skattagrunninn og styrkja fjármálamarkaði í því skyni að hámarka efnahagslegan ávinning af innflytjendum, stuðla að aðlögun innflytjenda og félagslegri samheldni með því bjóða innflytjendum tungumálakennslu, menntun og heilbrigðisþjónustu, vernda réttindi innflytjenda án tillits til stöðu þeirra og skipuleggja upplýsingastarfsemi til þess að breyta almennu viðhorfi til innflytjenda.

Stefnumótendur í öllum málaflokkum þurfa einnig að gefa meiri gaum að samspili innflytjendastefnu og stefnumiða í öðrum opinberum málaflokkum með því að fella innflytjendamál inn í þróunaráætlanir sínar.

Annar þátturinn. Að stuðla að betra samræmi stefnumörkunar og starfsemi opinberra stofnana

Stefnumótendur ættu að miða að því að bæta samræmi í framtaksverkefnum hins opinbera í því skyni að örva framlag innflytjenda til þróunar. Bætt samræming í stefnumörkun getur stuðlað að jafnvægi milli þeirra kosta og ókosta sem leiða af stefnumótun ef mið væri tekið af þörfum og velsæld allra hagsmunaaðila, ekki síst innflytjenda.

Til að ná fram samræmi í stefnumörkun og starfsemi stofnana þarf að taka upp kerfi sem auðvelda samræmingu milli opinberra stofnana, stuðla að staðbundnum framtaksverkefnum, því sveitarstjórnir eru oft í framlínu innflytjendamála, og hvetja til samráðs og samstarfs við frjáls félagasamtök sem koma að innflytjendamálum og þróunarmálum.

Stefnumörkun í einu landi getur einnig haft áhrif út fyrir landamæri. Til að mynda getur verndarstefna í viðskiptum í hátekjulöndum, einkum á sviði landbúnaðar og textíliðnaðar, hindrað þróun í lágtekjulöndum og þannig stuðlað óbeint að aukinni hvatningu til fólksflótta frá þróunarlöndum. Því ættu stefnumótendur að taka mið af þessum annmörkum til þess ná fram betra samræmi í stefnumörkun.

Þriðji þátturinn: Að styrkja alþjóðlega samvinnu

Alþjóðasamfélagið þarf að styrkja samstarfskerfi sín til þess að takast á við sameiginleg fólksflutningavandamál nútíðar og framtíðar.

Tvíhliða samningar geta aukið ávinning og árangur í fólksflutningamálum. Sem dæmi má nefna tvíhliða samninga um vegabréfsáritanir til þess að laga fjölda áritana að aðstæðum í hvoru landi um sig, gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum og rammasamninga um viðurkenningu á menntun og hæfni, svo og samstarf um að bæta verkþekkingu og flytjanleika lífeyrisréttinda milli landa.

Til þess að hvetja til hreyfanleika milli svæða gætu þjóðir sett ákvæði um frjálsa fólksflutninga í svæðisbundna viðskiptasamninga sína og svæðisbundnar ráðningarstofur gætu veitt atvinnuleitendum upplýsingar um laus störf í öðrum löndum.

Á þessari stundu er alþjóðleg umsjón með þjóðflutningum takmörkuð. Að áætlanir sem tengjast þjóðflutningum skuli hafa verið settar í markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun ætti að leiða til skuldbindinga sem hægt er að hafa marghliða eftirlit með, innan svæða og innan landa. Alþjóðlegt átak Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna og Alþjóðlegt átak um örugga og skipulega fólksflutninga, sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt árið 2018, yrðu enn frekari kærkomnar viðbætur við hið alþjóðlega stjórnsýslukerfi.

Viðbrögð við flóttamannavandanum kalla á meiri alþjóðlega samheldni. Hátekjulönd ættu að hjálpa móttökuríkjum flóttamanna með því að leggja þeim til aukið fjármagn, með því að þróa áætlanir um búferlaflutninga og með því að auka aðgengi að öðrum kostum fyrir flóttafólk (t.d. flutninga vinnuafls milli atvinnusvæða, vegabréfsáritanir fyrir námsfólk).

Fólksflutningar eru veigamikill þáttur í hnattvæðingu og verða enn veigameiri þáttur í framtíðinni. Þörf er á betri gögnum, frekari rannsóknum og stefnumörkun á grundvelli sönnunargagna. Alþjóðasamfélagið verður að finna varanlegar lausnir þar sem tekið er á úrlausnarefnum framtíðarinnar í heimi þar sem hreyfanleiki fólks verður sífellt meiri og leysa úr aðstæðum sem leiða til þess að bylgjur örvæntingarfulls fólks leita skjóls undan stríðsátökum. Mun meira þarf að gera til þess að stuðla að sjálfbærri þróun og nýta gagnsemi fólksflutninga fyrir slíka þróun.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2016), Perspectives on Global Development 2017: International Migration in a Shifting World, OECD Publishing.
doi: 10.1787/persp_glob_dev-2017-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error