1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Skills Outlook 2015

Youth, Skills and Employability

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264234178-en

Horfur í færnimálum innan OECD 2015

Unglingar, færni og atvinnumöguleikar

Útdráttur á íslensku

Árið 2013 voru 39 milljónir ungmenna á aldrinum 16‑29 ára í ríkjum OECD hvorki í vinnu né skóla eða verknámi (HVSV – e. neither employed, nor in education or training, NEET) – 5 milljónum fleiri en fyrir efnahagskreppuna 2008. Áætlanir varðandi 2014 sýna lítinn bata. Tölurnar eru sérstaklega háar í löndum suður Evrópu, sem urðu harðast úti í kreppunni. Í Grikklandi og á Spáni tilheyra t.a.m. 25% ungmenna HVSV‑hópnum árið 2013. Enn verra áhyggjuefni: um helmingur alls HVSV‑hópsins – um 20 milljónir ungmenna – er hvorki í skóla né atvinnuleit. Það þýðir að þau kunna að vera dottin út af ratsjárskjám mennta‑, félags‑ og vinnumarkaðskerfanna í löndum sínum.

Þessar tölur lýsa ekki aðeins persónulegri ógæfu þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, heldur einnig glataðri fjárfestingu, því færnin sem fékkst með menntun kemur ekki að gagni og getur einnig leitt til byrða sem lönd þeirra verða að bera vegna lægri skatttekna, hærri velferðargreiðslna og félagslegs óstöðugleika sem kann að koma upp þegar hluti íbúanna er atvinnulaus og án vonar. Ungt fólk á að vera verðmæti í efnahagslífinu en ekki framtíðarbyrði

Hvað er það sem veldur þessari óásættanlegu sóun á mannkostum? Meðal annars má nefna að of mörg ungmenni hverfa frá námi án þess að hafa öðlast viðeigandi færni og eiga því erfitt með að fá atvinnu. Samkvæmt alþjóðlegri könnun OECD á færni fullorðinna (e. Survey of Adult Skills), sem var liður í áætlun OECD um alþjóðlegt mat á færni fullorðinna (PIAAC) búa 10% útskrifaðra nemenda við lélegt læsi og 14% við slakt talnalæsi. Meira en 40% nemenda sem hættu í skóla áður en þeir luku framhaldsskólanámi búa við slakt læsi og talnalæsi.

Að auk hætta of mörg ungmenni í skóla án þess að hafa teljandi reynslu af vinnumarkaðinum. Minna en 50% nemenda í starfsmenntunaráætlunum og minna en 40% nemenda í bóknámsgreinum í 22 löndum og landsvæðum sem könnun OECD á færni fullorðinna náði til taka þátt í einhvers konar starfstengdu námi.

Jafnvel ungt fólk með mikla færni á í erfiðleikum með að finna atvinnu. Mörgum fyrirtækjum þykir of kostnaðarsamt að ráða einstaklinga sem enga reynslu hafa af vinnumarkaðinum. Raunin er sú að ungt fólk er tvöfalt líklegra til að vera atvinnulaust en fólk á kjöraldri.

En jafnvel unga fólkið sem tekst að komast inn á vinnumarkaðinn stendur oft frammi fyrir rótgrónum hindrunum gegn frekari þróun á færni sinni og starfsframa. Til að mynda starfar eitt af hverjum fjórum ungmennum, sem hafa atvinnu, á tímabundnum ráðningarsamningi. Vinnandi fólk í þeirri stöðu nýtir síður færni sína og fær færri tækifæri til starfsmenntunar en fólk á föstum samningum. Á sama tíma eru 12% starfandi ungmenna of menntuð fyrir þau störf sem þau gegna. Þetta þýðir að færni þeirra er að hluta ónýttur og að vinnuveitendur þeirra njóta ekki að fullu góðs af fjárfestingunni í þessum ungmennum.

Þegar litið er til hins hæga efnahagsvaxtar sem spáð er í mörgum ríkjum OECD á komandi árum, einkum í Evrópu, er ekki líklegt að ástandið batni á næstunni En hvað er til ráða?

Tryggja að öll ungmenni útskrifist úr skóla með færni á breiðu sviði

Ungt fólk þarf að búa yfir fjölbreytilegri færni – vitrænni, félagslegri og tilfinningalegri – til að ná árangri á öllum sviðum lífs síns. Í alþjóðlegu mati OECD á færni nemenda (PISA) kemur fram að mikil fylgni er á milli skólasóknar í leikskólum og betri frammistöðu í lestri, stærðfræði og vísindum síðar á ævinni, einkum meðal nemenda sem standa höllum fæti félagslega og efnahagslega. Landsyfirvöld geta boðið upp á góða leikskólamenntun fyrir öll börn til þess að hjálpa til að draga úr misræmi í námsárangri og veita öllum börnum góðan grunn að síðari námsferli sínum.

Kennarar og skólayfirvöld geta einnig komið auga á slaka frammistöðu snemma til veita nemendum sem illa standa stuðning með sérkennslu sem þeir kunna að þurfa á að halda til að hjálpa þeim að ná fullnægjandi færni i lestri, stærðfræði og vísindum, þróa félagslega og tilfinningalega færni þeirra og koma í veg fyrir að þeir flosni endanlega frá námi.

Hjálpa þeim sem hætta í skóla að komast í vinnu

Uppalendur og atvinnurekendur geta unnið saman að því að tryggja að nemendur nái færni á þeim sviðum sem eftirspurn er eftir og að þessi færni nýtist frá upphafi atvinnuferils ungmenna. Starfstengt nám má flétta bæði inni í starfsmenntun og bóknám á framhaldsskólastigi. Þess háttar nám kemur bæði nemendum og atvinnurekendum til góða: nemendur kynnast vinnumarkaðinum og þeirri færni – þ.m.t. félagsfærni og tilfinningafærni, svo sem samskiptum og samstarfi við aðra – sem mikils er metin á vinnustöðum; og atvinnurekendur komast í kynni við vænlegt nýtt starfsfólk – fólk sem þeir hafa þjálfað samkvæmt eigin kröfum.

Rífa niður rótgrónar hindranir gegn atvinnu ungmenna

Þar sem margt ungt fólk kemur inn á vinnumarkaðinn á tímabundnum samningum er mikilvægt að tryggja að hin tímabundnu störf séu áfangar í átt að stöðugri atvinnu, fremur en viðvarandi óvissustaða sem eykur hættuna á því að ungt fólk verði atvinnulaust. Draga ætti úr ósamhverfunni sem felst í starfsöryggisákvæðum sem valda því að dýrt er fyrir fyrirtæki að breyta samningum um skammtímaráðningu í fastráðningarsamninga. Ákvæði um lágmarkslaun, skatta og vinnutengd gjöld ætti að grannskoða og breyta þeim ef nauðsyn krefur í viðleitni til þess að draga úr kostnaði vinnuveitenda af því að ráða fólk með litla starfsreynslu.

Finna og aðstoða HVSV einstaklinga sem nú eru „horfnir af ratsjánni“ að verða aftur virkir í samfélaginu

Stjórnvöld þurfa að finna þær milljónir ungmenna sem tilheyra HVSV‑hópnum og eiga í erfiðleikum með að komast inn á vinnumarkaðinn, eða sem misst hafa tengslin við hann. Opinberar vinnumiðlanir, félagstofnanir og mennta‑ og þjálfunarkerfi geta aðstoðað þetta unga fólk við að finna vinnu eða fá annað tækifæri til þess að komast í menntun eða þjálfun. Kerfi gagnkvæmra skuldbindinga milli ungmenna og vinnumiðlunar‑ og menntastofnana geta hjálpað til bæði að finna og aðstoða þessa einstaklinga sem eru hvorki í vinnu né skóla eða verknámi. Gegn því að fá greiddar félagsbætur yrði þessum ungmennum skylt að skrá sig hjá félagsstofnunum eða opinberum vinnumiðlunum og gera ráðstafanir til þess að búa sig undir vinnumarkaðinn, þ.m.t. með því að taka þátt í frekari menntun og þjálfun.

Greiða fyrir betri samræmi milli færni ungmenna og starfa

Ef unnt væri að sjá fyrir þá færni sem þörf verður á í atvinnulífinu og tryggja þjálfun í þeirri færni í mennta‑ og starfsþjálfunarkerfum mundi það draga úr misræminu milli færni ungmenna og starfanna sem í boði eru. Þar sem margir atvinnurekendur eiga erfitt með að meta færni nýrra ungra starfsmanna, einkum í löndum þar sem menntakerfið er flókið, gætu kennarar og atvinnulífið unnið saman að því að koma upp hæfnismatskerfum sem meta raunverulega hæfni nýútskrifaðra nemenda.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2014), OECD Skills Outlook 2015: Youth, Skills and Employability, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264234178-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error