1887

OECD Multilingual Summaries

OECD-FAO Agricultural Outlook 2015

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/agr_outlook-2015-en

Horfur OECD og FAO í landbúnaðarmálum 2015

Útdráttur á íslensku

Verðlag á uppskerum og búfjárafurðum þróaðist í ýmsar áttir árið 2014. Góð uppskera í tvö ár setti aukinn þrýsting á verð kornafurða og olíufræ. Minna framboð af völdum þátta svo sem endurnýjun bústofna og sjúkdómar héldu verði á kjöti háu meðan verð á mjólkurvöru féll hratt úr sögulegu hámarki. Gert er ráð fyrir frekari leiðréttingum skammtímaþátta á árinu 2015 áður en drifkraftar framboðs og eftirspurnar til meðallangs tíma ná sér á strik.

Að raungildi er gert ráð fyrir að allar landbúnaðarvörur lækki í verði á næstu tíu árum eftir því sem framleiðsla eykst vegna aukinnar framleiðni og lægri kostnaðar aðfanga og fer fram úr eftirspurninni, sem fer minnkandi. Þótt þessi þróun sé í samræmi við tilhneiginguna til langtímahnignunar er því spáð að verðlag verði engu að síður hærra en á árunum fyrir hina miklu hækkun sem varð á árunum 2007‑2008. Draga mun úr eftirspurn þar sem neysla nauðsynjavöru á mann nálgast mettunarstig í mörgum nýmarkaðshagkerfum og efnahagsbatinn í heiminum er almennt hægur.

Helstu breytingar á eftirspurn eru í þróunarlöndum, þar sem vaxandi fólksfjöldi, þótt á honum hafi hægt, hækkandi tekjur á mann og þéttbýlismyndun auka eftirspurn eftir mat. Hækkandi tekjur hvetja neytendur til að auka fjölbreytni fæðu sinnar með því að auka neyslu sína á dýrapróteini í hlutfalli við mjölva. Því er gert ráð fyrir að verð á kjöti og mjólkurvörum haldist hátt í samanburði við verð á uppskerum en þar má gera ráð fyrir að verð á grófu mjöli og olíufræjum, sem notuð eru í dýrafóður, hækki í samanburði við undirstöðufæðu til manneldis. Á móti þessari almennu hneigð koma tilteknir þættir á borð við flata eftirspurn eftir etanóli úr maís.

Lægra olíuverð þrýstir verði einnig niður, ekki síst vegna áhrifanna á orku‑ og áburðarkostnað. Meðan olíuverð helst hátt, eins og spáð er, verður framleiðsla lífræns eldsneytis almennt ekki arðbær nema til komi stjórnvaldsákvarðanir eða ívilnanir af einhverju tagi. Ekki er gert ráð fyrir að stefnumörkun af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum eða Evrópusambandinu muni leiða til aukinnar framleiðslu lífræns eldsneytis að neinu marki. Hins vegar má gera ráð fyrir að aukin framleiðsla etanóls úr sykri í Brasilíu leiði af hækkuðu lögboðnu blöndunarhlutfalli í bensín og skattaívilnunum, og í Indónesíu er markvisst unnið að aukinni framleiðslu lífdiesels.

Í Asíu, Evrópu og Norður Ameríku verður það fyrst og fremst bættur afrakstur sem drífur áfram framleiðsluaukninguna í landbúnaði en í Suður Ameríku er spáð bæði bættum afrakstri og stækkun lands til landbúnaðar. Gert er ráð fyrir hóflegum vexti í Afríku, þótt aukin fjárfesting gæti aukið bæði afrakstur og framleiðslu verulega.

Gert er ráð fyrir að útflutningur á landbúnaðarvörum safnist á hendur færri landa meðan innflutningur muni dreifast á fleiri lönd. Mikið vægi tiltölulega fárra landa sem sjá heimsmarkaðinum fyrir tilteknum lykilnauðsynjavörum eykur markaðsáhættu, þ.m.t. áhættu sem tengist náttúruhamförum eða röskun viðskipta af völdum stjórnvaldsákvarðana. Í heildina er gert ráð fyrir að viðskipti aukist hægar en á síðasta áratug en haldi stöðugri hlutdeild miðað við alþjóðlega framleiðslu og neyslu.

Núverandi grunnlína endurspeglar grundvallarskilyrði framboðs og eftirspurnar á heimsmarkaði fyrir landbúnaðarvörur. Hins vegar eru horfurnar háðar ýmsum óvissuþáttum og eru sumir þeirra kannaðir með greiningu slembiúrtaka. Ef spáð er fyrir um söguleg frávik í afrakstri, olíuverði og hagvexti eru verulegar líkur á að minnsta kosti einu alvarlegu áfalli á heimsmarkaði innan næstu tíu ára.

Stiklað á stóru um hrávöru

  • Korn: Miklar birgðir og lækkandi framleiðslukostnaður þrýsta niður kornverði enn frekar til skamms tíma, en áframhaldandi eftirspurn og vaxandi framleiðslukostnaður ættu að hækka viðmiðunarverð að nýju til meðallangs tíma.
  • Olíufræ: Mikil eftirspurn eftir próteinkorni mun valda frekari aukningu í framleiðslu á olíufræjum. Það mun leiða til mikillar framlegðar mjölhlutans af heildarafrakstri af olíufræi og stuðla enn frekar að aukningu sojabaunaframleiðslu, einkum í Brasilíu.
  • Sykur: Aukin eftirspurn eftir sykri í þróunarlöndum ætti að verða til þess að verð hækki að nýju frá núverandi lága verðlag, sem ætti að leiða til aukinnar fjárfestingar í þeirri grein. Markaðurinn mun velta á arðsemi sykurs í samanburði við etanól í Brasilíu, sem er leiðandi framleiðandi, og verður áfram óstöðugur vegna sykurframleiðsluferilsins í nokkrum mikilvægum sykurframleiðslulöndum í Asíu.
  • Kjöt: Gert er ráð fyrir að framleiðendur bregðist við bættri afkomu og auki framleiðslu eftir því sem lægra verð á fóðurkorni leiðir til arðsemi í greininni, sem hefur glímt við sérlega hátt og sveiflukennt fóðurverð mestallan síðastliðinn áratug.
  • Fiskveiðar: Gert er ráð fyrir að fiskframleiðsla um heim allan muni aukast um nærri 20% til 2024. Gert er ráð fyrir að fiskeldisafurðir muni fara fram úr heildarsjávarafla árið 2013.
  • Mjólkurvörur: Spáð er að útflutningur mjólkurvöru þjappist enn frekar saman á fjórum helstu upprunasvæðum sínum: Nýja‑Sjálandi, Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Ástralíu, þar sem tækifæri til aukningar á innlendri eftirspurn eru takmörkuð.
  • Bómull: Verð mun haldast niðri til skamms tíma eftir því sem áfram er gengið á miklar birgðir sem safnast hafa upp í Kína, en það mun síðar ná sér á strik og haldast tiltölulega stöðugt það sem eftir er af spátímanum. Á árinu 2024 er gert ráð fyrir að bæði raunverð og viðmiðunarverð verði fyrir neðan verðlagið sem náðist á árunum 2012‑2014.
  • Lífrænt eldsneyti: Spáð er að notkun etanóls og lífdiesels aukist hægar á næsta áratug. Gert er ráð fyrir að framleiðsla muni ráðast af stefnumörkun stjórnvalda í helstu framleiðslulöndunum. Meðan olíuverð er lágt ættu viðskipti með lífrænt eldsneyti að halda áfram að vera takmörkuð sem hlutfall af heimsframleiðslu.

Brasilía

Í horfum OECD er sérstök áhersla lögð á Brasilíu. Brasilía er meðal tíu stærstu hagkerfa heims og annar stærsti framleiðandi matvæla og landbúnaðarafurða í heiminum. Brasilía er við það að verða helsta framleiðslulandið til þess að mæta aukinni alþjóðlegri eftirspurn, fyrst og fremst frá Asíu.

Gert er ráð fyrir að vöxtur verði drifinn áfram af áframhaldandi umbótum í framleiðni, með betri uppskerum, einhverjum breytingum á beitarlandi í ræktarland og þéttbærari kvikfjárrækt. Skipulagsbreytingar og breytt styrkjakerfi, þar sem áhersla er lögð á fjárfestingar sem bæta framleiðni, t.d. í innvirkjum, gætu stutt við þessi tækifæri, og sama má segja um viðskiptasamninga sem bæta aðgengi að erlendum mörkuðum.

Brasilía hefur náð framúrskarandi árangri í baráttunni gegn hungri og fátækt í landinu. Horfur um frekari minnkun fátæktar með þróun á sviði landbúnaðar fara batnandi, bæði að því er varðar matvæli og dýrari vörur á borð við kaffi, garðyrkjuvörur og hitabeltisávexti. Til að nýta þessi tækifæri þarf að beina sjónum frekar að stefnumörkun um byggðaþróun í dreifbýli.

Vexti í landbúnaðarframleiðslu í Brasilíu er hægt að ná fram með sjálfbærum hætti. Þótt aukin framleiðsla muni áfram leiða frekar af framleiðniaukningu en af stækkun jarðnæðis er gert ráð fyrir að dregið verði úr álaginu á umhverfið með umhverfis‑ og verndaráætlunum, þ.m.t. stuðningi við sjálfbærar ræktunaraðferðir, breytingum á náttúrlegu og hnignuðu ræktunarlandi í beitarland og samþættingu ræktunar‑ og búfjárgreina.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD/FAO (2015), OECD-FAO Agricultural Outlook 2015, OECD Publishing.
doi: 10.1787/agr_outlook-2015-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error