1887

OECD Multilingual Summaries

How's Life? 2017

Measuring Well-being

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/how_life-2017-en

Hvernig er lífið? 2017

Mælingar á vellíðan

Útdráttur á íslensku

Hvernig er lífið 2017?

Hvað felst í góðu lífi? Þótt ekki sé hægt að ná utan um mannlega upplifun í allri sinni fjölbreytni með tölum einum saman, er mikilvægt að þær hagtölur sem opinber stefnumótun byggir á endurspegli bæði veraldleg lífsskilyrði fólks og lífsgæði þeirra. Þar með talið er hvernig líf fólks er að breytast með tímanum, hvernig líf fólks er mismunandi eftir þjóðfélagshópum og hvort vellíðan í dag sé á kostnað dvínandi auðlinda í framtíðinni. Í þessari fjórðu útgáfu ritsins „Hvernig er lífið?“ er leitast við að mæta þessari þörf og draga upp mynd af vellíðan fólks í OECD og samstarfslöndum þess.

Lífið er betra hjá sumum en á sumum sviðum ganga málin hægt

Fjármálakreppan hafði djúp og langvarandi áhrif á líf fólks, og ekki síst á störf þess. Ef litið er á breytinguna á vellíðan frá 2005 kemur fram í 1. kafla að fólk er betur sett að sumu leyti, en framfarir frá því kreppan skall á hafa verið hægfara og á sumum sviðum hefur orðið afturför. Heimilistekjur og meðalárstekjur hafa aukist samanlagt um 7% og 8%, hvort um sig, frá 2005 – en þetta er nokkurn veginn hálf sú aukning sem skráð var milli 1995 og 2005. Hlutfall fólks sem lifir án aðgangs að grundvallarhreinlætisaðstöðu (sem þegar var lágt á flestum löndum OECD) hefur minnkað um rétt rúmlega þriðjung og fleira fólk segist nú finna til öryggis þegar það er eitt á gangi um nótt. Þótt hægt hafi á aukningu á meðallífslíkum árið 2015, hafa lífslíkur engu að síður aukist um nærri tvö ár þegar á heildina er litið.

Þrátt fyrir þessar framfarir hafa aðrir þættir velsældar dregist aftur úr. Í um það bil helmingi landa OECD er langtímaatvinnuleysi enn meira en á árinu 2005 og óöryggi á vinnumarkaði er um þriðjungi meira en þegar það var fyrst mælt, þ.e. á árinu 2007. Í samanburði við árin fyrir kreppuna hefur kosningaþátttaka minnkað, dregið hefur lítillega úr lífsánægju og hlutfall fólks sem finnur fyrir stuðningi vina og fjölskyldu hefur dregist saman um 3 prósentustig. Myndin er enn misvísandi varðandi þau atriði sem viðhalda vellíðan yfir tímann. Hér gætir þess enn að á móti framförum í sumum vísitölum (t.d. minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda á mann, minni reykingar, auknar fjárfestingar í rannsóknum og þróun og aukin þjóðhagsleg verðmæti (e. economic assets))koma versnandi skilyrði á öðrum sviðum (t.d. auknar skuldir heimilanna í flestum löndum, minnkandi hrein eignastaða ríkissjóða, aukning offitu og minnkandi tiltrú á stjórnvöld).

Hin mörgu andlit ójafnaðar

Ójöfnuður getur snert alla þætti í lífi fólks. Í 2. kafla er rýnt í ójöfnuð í vellíðan fólks gegnum nokkrar mismunandi linsur: allt frá bilinu milli efstu og neðstu laganna í dreifingunni og upp í mun á vellíðan eftir kyni, aldri og menntun. Þar kemur fram að þótt í sumum samfélögum ríki meiri jöfnuður en öðrum eru svæði og svið í öllum löndum OECD þar sem jöfnuður er ýmist mikill eða lítill. Einnig er samspil milli mismunandi birtingarmynda ójöfnuðar. Til að mynda er fólk í efstu 20 prósentum tekjuskalans helmingi líklegri til þess að greina frá mikilli lífsánægju en fólkið í neðstu lögunum. Og fólk sem greinir frá mikilli lífsánægju er fjórum sinnum líklegra til að greina frá góðu heilsufari ef borið er saman við þá sem greina frá lítilli lífsánægju. Margt fólk í löndum OECD býr ekki við þá eignastöðu að geta varist tekjuáföllum. Meira en þriðjungur þessa fólks mundi falla niður í stöðu fátæktar ef það þyrfti að vera án tekna í þrjá mánuði – þessi niðurstaða byggir á gögnum frá 25 löndum OECD.

Farandfólk stendur frammi fyrir fjölmörgum áskorunum varðandi vellíðan

Að meðaltali 13% fólks í löndum OECD eru fædd utanlands. Farandfólk er misleitur hópur, bæði milli landa og innan landa OECD: allt frá hámenntuðu fagfólki sem leitar nýrra tækifæra til fólks sem flýr stríð og eyðileggingu. Í 3. kafla kemur fram að lífið í nýjum heimkynnum getur falið í sér ýmsar ógnir varðandi vellíðan farandfólks. Miðtekjur farandfólks eru 25% lægri en tekjur innfæddra og miðgildi eigna er 50% lægra. Þótt tækifæri farandfólks til þess að fá vinnu sé svipað tækifærum innfæddra, er farandfólk líklegra til þess að vinna á óhagstæðum tímum dags, að vinna í láglaunastörfum og vinna við hættulegar eða skaðlegar aðstæður. Í nokkrum tilvikum er farandfólki einnig ókleift að nýta sér til fulls hæfnina sem það tekur með sér til nýju heimkynnanna: nærri 30% farandfólks með háskólapróf eru of menntuð fyrir þau störf sem þau gegna, samanborið við 20% innfæddra. Auk verri vinnuskilyrða stendur farandfólk einnig frammi fyrir verri lífsskilyrðum. Einn af hverju fjórum í hópi farandfólks greinir frá því að hafa þurft að þola loft‑ og hávaðamengun á búsvæði sínu, samanborið við einn af hverjum fimm innfæddra jafningja þeirra, og 41% farandfólks búa í lélegum eða þröngum húsakynnum, samanborið við 27% innfæddra. Farandfólk greinir einnig frá lélegra heilsufari, minni félagslegum stuðningi og minni huglægri tilfinningu fyrir vellíðan en innfæddir í flestum þeim löndum OECD sem kannanir náðu til. Hins vegar ber að geta þess að enn er mikið verk óunnið að því er varðar gæði mælinga á vellíðan farandfólks, einkum þar sem í könnunum meðal heimila er oft erfitt að ná til verst settu hópanna.

Gjá milli opinberra stofnana og fólksins sem þær þjóna

Hin stöðuga hnignun sem er að verða á kosningaþátttöku í löndum OECD hefur verið áhyggjuefni um árabil. Í 4. kafla er fjallað um aðra þætti sem benda til fjarlægðar milli fólks og þeirra opinberu stofnana sem eiga að þjónusta það. Í meira en helmingi landa OECD telja landsmenn að spilling sé víðtæki meðal stjórnvalda. Traust á opinberum stofnunum hefur rýrnað síðan 2005 og aðeins 33% fólks telja nú að það hafi eitthvað að segja um gerðir stjórnvalda. Gjáin verður breiðari meðal fólks sem færri málsvara á hjá hinu opinbera: fólk sem ekki hefur lokið framhaldsnámi er síður líklegt til þess að telja að það hafi eitthvað að segja um ákvarðanir um stefnumótun í samanburði við háskólamenntað fólk. Kosningaþátttaka sem fólk greinir sjálft frá er 13% lægri meðal fólks í lægsta fimmtungi tekjuskalans, samanborð við efsta fimmtunginn. Evrópubúar er almennt sáttir við framkvæmd kosninga en mun síður sáttir við opinberar aðgerðir til að draga úr ójöfnuði. Ánægja með almenna menntun og heilbrigðisþjónustu er afar mismunandi milli landa en hneigist til að vera meiri meðal fólks sem nýlega hefur nýtt sér þjónustuna. Þetta bendir til þess að eigin reynsla skipti máli og hafi áhrif á skynjun fólks.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), How's Life? 2017: Measuring Well-being, OECD Publishing.
doi: 10.1787/how_life-2017-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error