1887

OECD Multilingual Summaries

OECD Skills Outlook 2017

Skills and Global Value Chains

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264273351-en

Horfur í færnimálum innan OECD 2017

Færni og alþjóðlegar virðiskeðjur

Útdráttur á íslensku

Heimurinn hefur færst inn á nýjan fasa hnattvæðingar á undanförnum tveimur áratugum og þjóðlönd og vinnandi fólk standa nú frammi fyrir nýjum áskorunum og tækifærum. Með stuðningi upplýsingatækni er framleiðslustarfsemi orðin hnattræn og sundruð eftir brotalínum alþjóðlegra virðiskeðja, sem svo eru nefndar, þar sem starfsfólk í mismunandi löndum leggur sitt af mörkum til hönnunar, framleiðslu, markaðssetningar og sölu sömu vörunnar. Að meðaltali í löndum OECD er einn þriðji starfa í atvinnulífinu háður eftirspurn í öðru landi. Þrjátíu prósent af virði útflutnings frá löndum OECD eiga sér uppruna utan viðkomandi lands.

Áhrif erlendra virðiskeðja á efnahagskerfi og samfélög eru flóknari, dreifðari og innbyrðis háðari en á fyrri stigum hnattvæðingarinnar. Efasemdir eru að vakna um alþjóðavæðinguna. Þjóðríki þurfa nú að herða átak sitt til þess að hnattvæðingin verði öllum til góðs. Í þessu riti er sýnt fram á að með því að fjárfesta í færni íbúa sinna geta ríki hjálpað til að tryggja að þátttaka þeirra í alþjóðlegum mörkuðum skili sér í betri efnahagslegum og samfélagslegum árangri.

Færni skiptir máli fyrir hnattvæðingu

Færni getur hjálpað löndum til þess að laga sig að alþjóðlegum mörkuðum og sérhæfa sig í þeim atvinnugreinum þar sem tæknin stendur fremst

  • Þegar þróun færni helst í hendur við þátttöku í alþjóðlegum virðiskeðjum geta lönd náð öflugri vexti í framleiðni. Þau lönd þar sem þátttaka í alþjóðlegum virðiskeðjum hefur aukist mest á tímabilinu 1995‑2011 hafa notið góðs af auknum árlegum vexti í framleiðni atvinnulífsins og vinnuaflsins. Þessi viðbótarvöxtur er á bilinu frá 0,8 prósentustigum í atvinnugreinum þar sem minnsta svigrúm er til uppskiptingar á framleiðslu og upp í 2,2 prósentustig í löndum þar sem svigrúmið er mest, til að mynda í mörgum hátækniframleiðslugreinum.
  • Til þess að ná fram samþættingu og hagvexti þurfa allar atvinnugreinar á starfsfólki að halda sem býr ekki einungis yfir hugrænni færni (þ.m.t. læsi, talnalæsi og hæfni til þrautalausna) heldur einnig stjórnunar‑ og samskiptafærni og vilja til þess að tileinka sér nýja þekkingu. Til þess að dreifa aukningunni í framleiðni með þátttöku í alþjóðlegum virðiskeðjum um allt efnahagskerfið þurfa öll fyrirtæki, þ.m.t. lítil fyrirtæki, á að halda starfsfólki sem býr yfir slíkri færni.
  • Til þess að sérhæfa sig í þeim atvinnugreinum þar sem tæknin stendur fremst þurfa lönd einnig á að halda:

– starfsfólki með góða samfélagslega og tilfinningalega færni (svo sem í stjórnun, samskiptum og skipulagningu eigin tíma), sem bætir upp hugræna færni. Þjóð sem býr yfir færni sem fellur vel að þeim kröfum um færni sem gerðar eru í hátækniatvinnugreinum getur sérhæft sig í slíkum atvinnugreinum að meðaltali 10% umfram önnur lönd.

– aðgengi að starfsfólki með menntun og vottun um hæfni sem gefur til kynna með áreiðanlegum hætti hvað það er fært um að taka sér fyrir hendur. Í mörgum hátækniatvinnugreinum er gerð krafa um að starfsfólk geti lokið langri röð viðfangsefna, en léleg frammistaða á einu stigi getur að verulegu marki skert virði þess sem framleitt er. Í löndum þar sem slíkt starfsfólk er að finna eru möguleikar til sérhæfingar í slíkum atvinnugreinum að meðaltali 2% betri en í löndum þar sem aðgengi að slíkri færni er óáreiðanlegra.

Færni getur hjálpað einstaklingum að takast á við hugsanlega neikvæð áhrif alþjóðlegra virðiskeðja

  • Þjóðir geta dregið úr viðkvæmni starfsfólks fyrir útvistun starfa út fyrir landsmæri – flutning framleiðslu til annarra landa – með því að fjárfesta í þróun á færni íbúa sinna. Það sem fólk gerir í atvinnu sinni, og þar með sú tegund færni sem það þróar, hefur einnig mikil áhrif á viðkvæmni starfa þeirra fyrir þessari áhættu. Þegar starfsfólk býr yfir nauðsynlegri færni getur það þróast í starfi eða lagað sig með auðveldari hætti að breyttum þörfum.
  • Menntaðra starfsfólk nýtur betri starfsgæða en minna menntað fólk í öllum löndum. Hins vegar er það svo, að í löndum þar sem þátttaka í alþjóðlegum virðiskeðjum er meiri, er meiri munur á starfsgæðum milli hámenntaðs starfsfólks og starfsfólks sem býr yfir minni menntun.
  • Of margt fullorðið fólk býr ekki yfir þeirri færni sem nauðsynleg er til þess að takast á við áskoranir hnattvæðingarinnar. Meira en 200 milljónir fullorðins fólks í löndum OECD (u.þ.b. einn af hverjum fjórum) líða fyrir lélegt læsi eða talnalæsi og hjá 60% þeirra hvoru tveggja ábótavant.

Hnattrænni samþættingu þjóðlanda hefur fylgt mismunandi færni

Þjóðir þurfa að fjárfesta í færni, ekki einungis til þess að hjálpa einstaklingum að komast inn á vinnumarkaðinn og vernda þá gegn hættu á atvinnumissi og lélegum starfsgæðum, heldur einnig til þess að ná fram alþjóðlegri samkeppnishæfni og efnahagslegum framförum í samtengdum heimi.

  • Undanfarin 15 ár hafa Kórea og Pólland, sem byrjuðu á mismunandi upphafsreitum, aukið þátttöku sína í alþjóðlegum virðiskeðjum og sérhæfingu í atvinnugreinum þar sem tæknin stendur fremst og jafnframt bætt færni íbúa sinna og náð fram efnahagslegum og samfélagslegum gæðum og þar með notið ávinningsins af hinum alþjóðlegu virðiskeðjum.
  • Síle og Tyrkland hafa verulega aukið þátttöku sína í alþjóðlegum virðiskeðjum, þróað þá færni sem þarf til þess að takast á við áskoranir alþjóðlegra virðiskeðja með góðum árangri í atvinnusköpun. Færnin í þessum löndum er hins vegar ekki í góðum takti við kröfur hátækniatvinnugreina, sem að hluta til skýrir takmarkaða sérhæfingu þeirra í þessum atvinnugreinum.
  • Þýskaland og Bandaríkin hafa einnig aukið þátttöku sína í alþjóðlegum virðiskeðjum svo um munar. Hins vegar virðist færni fólks í Þýskalandi styðja við sérhæfingarmynstrið þar í landi, en sú er síður raunin í Bandaríkjunum.
  • Sum lönd, svo sem Grikkland og að einhverju leyti Belgía, hafa lagað sig lítt að alþjóðlegum virðiskeðjum og hafa ekki bætt færni vinnuaflsins að verulegu marki og þess vegna ekki notið góðs af alþjóðlegum virðiskeðjum sem uppsprettu hagvaxtar.

Þýðingin fyrir stefnumið varðandi færni

Til þess að njóta ávinningsins af alþjóðlegum virðiskeðjum þurfa þjóðir að fjárfesta í menntun og þjálfun, nýta betur færni og samræma betur stefnumið sín varðandi færni – allt frá stefnumiðum um menntun og fólksflutninga til lagasetningar um atvinnuvernd – og laga þessi stefnumið að stefnumiðum um atvinnumál og viðskipti.

Að veita fólki sem útskrifast úr skólum vottun um menntun og hæfi, sem mark er á takandi, og öfluga samsetningu af viðeigandi hæfni

Allt frá barnsaldri til fullorðinsnáms verða menntunar‑ og þjálfunarkerfi að veita öllum þeim sem eru í námi öfluga blöndu af mismunandi færni. Það krefst þess að áhersla sé lögð á hugræna færni jafnframt því sem þróaðar eru nýjar kennsluaðferðir, sveigjanleiki í námsvali og vel skipulögð menntun á sviði frumkvöðlastarfs.

Þjóðir geta lagað færnieiginleika sína betur að kröfum atvinnuveganna um færni með bættri starfsmenntun og þjálfun, þar sem áhersla er lögð á atvinnutengt nám og sértæk stefnumið sem stuðla að nánara samstarfi milli einkageirans, menntastofnana á háskólastigi og rannsóknastofnana.

Að fjarlægja hindranir við frekari færniþróun

Fullorðið fólk þarf stöðugt að þróa og aðlaga færni sína, þannig að þjóðir ættu að brjóta niður hindranir við frekari færniþróun, einkum hjá fullorðnu fólki sem stendur höllum fæti í þeim efnum. Ríkisstjórnir, atvinnurekendur, verkalýðsfélög og mennta‑ og verkmenntunarstofnanir þurfa að vinna saman að því að þróa tækifæri til starfsþjálfunar, bæta aðgengi að formlegri menntun fyrir fullorðið fólk og gera starfsfólki auðveldara að sameina vinnu og þjálfun. Almennari viðurkenning á færni sem starfsfólk öðlast með óformlegum hætti mundi hjálpa fólki að öðlast frekari viðurkenningu á færni sinni og laga starfsævi sína að breyttum þörfum.

Að nýta færni með skilvirkari hætti

Færni getur auðveldað þjóðum góða frammistöðu innan alþjóðlegra virðiskeðja, en aðeins ef fólk er að störfum í fyrirtækjum og atvinnugreinum þar sem færni þeirra nýtist best. Þjóðlönd þurfa að tryggja að fólk geti flust auðveldlega í störf þar sem færni þess nýtist vel, jafnframt því sem fyrirtækjum er tryggður sveigjanleiki og starfsfólki öryggi. Þjóðlönd gætu stuðlað að þróun skilvirkra stjórnunarhátta, samið lög um atvinnuvernd og haft eftirlit með skilmálum um bann við samkeppni á þann hátt að það geri mögulegt að deila sérhæfingu og þekkingu um allt atvinnulífið með skilvirkari hætti.

Að bæta alþjóðlega samvinnu um stefnumið sem varða færni

Frekar en að keppa um að laða til sín hæfileika gætu þjóðir haft með sér samstarf um að þróa menntunar‑ og starfsmenntunaráætlanir. Með slíkri samvinnu væri unnt að tryggja gæði og viðhalda þeirri þekkingu og færni sem þörf er á til þess að þrífast í alþjóðlegum virðiskeðjum. Þannig er einnig hægt að bæta færni í þróunarlöndum og greiða fyrir viðurkenningu þessarar færni af hálfu annarra landa. Þjóðlönd ættu að íhuga fjármögnunarleiðir sem endurspegla betur dreifingu ávinnings og kostnaðar milli landa í heimi þar sem búið er að alþjóðavæða bæði menntun og framleiðsluferlið.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), OECD Skills Outlook 2017: Skills and Global Value Chains, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264273351-en

This is a required field
Please enter a valid email address
Approval was a Success
Invalid data
An Error Occurred
Approval was partially successful, following selected items could not be processed due to error