OECD Multilingual Summaries

Environment at a Glance 2013: OECD Indicators

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264185715-en

Ágrip um umhverfismál 2013: Vísbendingar OECD

Útdráttur á íslensku

Lífshættir 21. aldarinnar og aukinn fjöldi íbúa heims hafa sett þrýsting á nauðsynlegar náttúruauðlindir jarðar, loft vatn og jörð, ásamt því dýra‑ og jurtalífi sem þær veita líf. Hve vel hefur okkur tekist að rjúfa tengslin milli hagvaxtar og umhverfisspjalla? Svarið er að misvel hefur tekist til, framfarir hafa orðið á mikilvægum sviðum svo sem loftmengun, flutningum, orkumálum, vatnsbúskap og vernd á líffræðilegri fjölbreytni en ekki hefur tekist á fullnægjandi hátt til að tryggja náttúruauðlindir til framtíðar.

Þrýstingurinn á umhverfið er sífellt að aukast en frá því á tíunda áratug síðustu aldar hefur greinilega dregið úr honum í samanburði við hagvöxt í OECD‑hagkerfunum en þetta er þróun sem mætti kalla hlutfallslegan aðskilnað.

Orkukræfni – það magn orku sem þarf til að mynda eina einingu af vergri landsframleiðslu – hefur minnkað í OECD‑löndunum á síðustu tveimur áratugum. Hlutur gass í eldsneytissamsetningunni hefur aukist en í heild hafa jarðefnaeldsneyti verið ráðandi sem orkugjafar. Hlutur endurnýjanlegrar orku hefur haldist tiltölulega stöðugur hjá OECD við um 9% af heildarorkubirgðum og á síðustu árum hefur orðið örlítil aukning. Þeir þættir sem liggja að baki minnkandi orkukræfni eru meðal annars skipulagsbreytingar í atvinnulífinu, orkusparnaðaraðgerðir og mótun umhverfisstefnu, tækniframfarir og í sumum löndum orkuflutningur til útlanda og framleiðsla sem nýtir auðlindir í miklum mæli.

Þróun þess að draga úr orkunotkun á íbúa hefur gengið mun hægar fyrir sig, að hluta til vegna 17% aukningar í orkuþörf vegna flutninga. Flutningar á vegum eru áfram allsráðandi í flutningastarfsemi og afleiðingin er aukin eldsneytisnotkun og vegagerð sem hefur áhrif bæði á heilsufar og náttúru. Viðleitni landa til að auka notkun á orkuhreinni farartækjum hefur að mestu leyti verið ýtt til hliðar af aukningu í fjölda ökutækja á vegum og aukinni notkun þeirra. Í heild hefur flutningastarfsemi verið áfram tengd við vöxt á vergri landsframleiðslu og í meira en þriðjungi OECD‑landa hefur aukning í umferð á vegum farið fram úr hagvexti.

Efnisnotkun – hve miklar efnisbirgðir þarf til að framleiða eina einingu af vergri landsframleiðslu – hefur einnig dregist saman frá árið 1990. Efnisnotkun hefur verið tiltölulega lítið tengd við hagvöxt á OECD‑svæðinu. Þetta er að hluta til afleiðing af uppgangi þjónustugeirans og efnahagskreppunni og einnig vegna aukningar í innflutningi og tilfærslu til annarra landa á framleiðslu sem nýtir auðlindir í miklum mæli.

Landbúnaðarframleiðsla jókst hægar á OECD‑svæðinu á árunum 2000 til 2010 en á tíunda áratug síðustu aldar. Um leið dró úr þrýstingi frá ýmsum umhverfisþáttum sem tengjast landbúnaði: útgufun gróðurhúsalofttegunda, notkun vatns og áburðar og of mikillar tilfærslu næringarefna (í jarðveg, vatn og loft). Mikilvægur þáttur í að ná fram þessum bata er að dregið hefur verið úr stuðningi við landbúnað, einkum þær greinar hans sem hafa hvað skaðlegustu áhrifin á umhverfið.

Í heild þarf aukið framtak til að skipta með ákveðnum hætti úr hlutfallslegri aftengingu yfir í algera aftengingu sem gæti snúið umhverfisspjöllum við, stuðlað að verndun náttúrugæða og bæta umhverfisgæði í lífi fólks.

Helstu niðurstöður

  • Í heild er losun gróðurhúsalofttegunda í vexti um allan heim, koltvísýringur er meginþátturinn og helsti valdur að heildarþróuninni. Síðan árið 1990 hefur útgufun koltvísýrings í tengslum við orkuframleiðslu aukist hægar í OECD‑löndum en á heimsvísu. Eins og er bera OECD‑lönd ábyrgð á innan við helmingi af losun gróðurhúsalofttegunda en samt losa þau meiri koltvísýring á mann, sem nemur 10 tonnum, í samanburði við 4 tonn á mann í flestum öðrum svæðum heims. Mörg OECD‑lönd hafa losað um tengslin milli losunar á koltvísýringi og vexti vergrar landsframleiðslu, þó þessi aftenging sé veik og í mörgum löndum hefur losunin haldið áfram að aukast
  • Losun brennisteinsvetnis (SOx) og nituroxíðs (NOx) hefur minnkað umtalsvert frá árinu 1990 hjá OECD‑löndum í heild (annars vegar ‑69% og hins vegar ‑36%). Næstum öllum OECD‑löndum hefur tekist að slíta á tengslin milli losunar á brennisteinsvetni og vergrar landsframleiðslu og tveir þriðju hlutar þeirra hafa náð því að rjúfa tengslin við losun nituroxíðs. Þrátt fyrir það hefur losun nituroxíðs í nokkrum OECD‑löndum haldið áfram að aukast í samræmi við verga landsframleiðslu og stöðuga aukingu í umferð á vegum. Óson við yfirborð jarðar, styrkur nituroxíðs, svifryksmengun og eitraðar spillilofttegundir halda áfram að hafa skaðleg áhrif á heilsu manna, einkum á þéttbýlissvæðum.
  • Taka ferskvatns hefur haldist nokkuð stöðug almennt á OECD‑svæðinu síðan á tíunda áratug síðustu aldar, þrátt fyrr aukna eftirspurn eftir vatni úr mörgum áttum. Þetta er vegna hagkvæmari notkunar og bættar stefnu í verðlagningu en einnig vegna þess að farið er að hagnýta aðrar uppsprettur vatns svo sem endurnýtt og afsaltað vatn. Mörg OECD‑lönd hafa náð því að rjúfa tengslin milli vatnstöku og vergrar landsframleiðslu en árangur hefur verið með ýmsum hætti og breytilegur milli landa.
  • Innviðir skólphreinsunar hafa eflst umtalsvert að umfangi, hlutfall íbúa OECD‑land sem tengdir eru við skólphreinsunarstöð jókst úr um 60% snemma á tíunda áratug síðustu aldar í nærfellt 80% árið 2010. Erfitt viðfangsefni er varðar frekari aukningu á skólphreinsun í sumum löndum er að finna aðrar leiðir til að sinna litlum og einangruðum búsvæðum. Mörg lönd sjá fram á aukinn kostnað vegna þarfarinnar því að halda við úreltum vatnsveitum og skólphreinsibúnaði og uppfæra þau.
  • Hlutfall verndaðra landssvæða hefur aukist í næstum öllum OECD‑löndum og hefur meðaltalið náð um 11% af heildinni. Þessi landssvæði eru þau ekki alltaf dæmigerð fyrir líffræðilega fjölbreytni né nægilega vel tengd. Hætturnar sem líffræðileg fjölbreytni stendur frammi fyrir aukast sífellt, einkum vegna breytinga á landnýtingu og þróun á innviðum; mörgu innlendum vistkerfum hefur farið aftur og margar tegundir dýra og jurta í OECD‑löndum eru í hættu. Hættustig er hvað mest í þéttbýlustu löndunum.
  • Skógar hafa haldist nokkuð stöðugir og við um 30% af landssvæðum innan OECD. Flest OECD‑lönd setja fram mynd af sjálfbærri nýtingu skógarauðlinda sinna í formi magnstærða. Þó er umtalsverður breytileiki til staðar innan hvers lands og margir skógar eru í hættu vegna hnignunar, uppskiptingar og breytinga yfir í aðrar tegundir lands. Aukin eftirspurn eftir timbri til að ná fram markmiðum um endurnýjanlega orku á stóran hlut í nýtingu skóglendis í ábataskyni.
  • Heimilis‑ og rekstrarúrgangur sem verður til á OECD‑svæðinu jókst um 19% á tíunda áratug síðustu aldar en aukningin hægði á sér snemma á fyrstu árum 21. aldarinnar. Eins og er verða til að meðaltali 530 kg af sorpi á ári á mann hjá þeim sem búa á OECD‑svæðinu; þetta er yfir 30 kg meira en árið 1990 en 30 kg minna en árið 2000. Í OECD‑löndum er sorpi frá urðunarstöðum og brennsluofnum iðulega beint aftur inn í hagkerfið gegnum endurvinnslu. Þó er urðun sorps enn helsta sorpeyðingaraðferðin í mörgum OECD‑löndum.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2013), Environment at a Glance 2013: OECD Indicators, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264185715-en

 Visit the OECD web site