OECD Multilingual Summaries

Development Co-operation Report 2016

The Sustainable Development Goals as Business Opportunities

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/dcr-2016-en

Skýrsla um þróunarsamvinnu 2016

Markmiðin um sjálfbæra þróun sem viðskiptatækifæri

Útdráttur á íslensku

Með samþykkt dagskrár 2030 um sjálfbæra þróun og 17 markmiða um sjálfbæra þróun býr heimurinn nú yfir metnaðarfyllsta, fjölbreyttasta og víðtækasta þróunarvegvísi sögunnar. Til þess að takast á við áskoranirnar sem í markmiðunum felast þarf samfélag heims að bæta duglega við þá u.þ.b. 135 milljarða bandaríkjadala sem árlega er varið í opinbera þróunaraðstoð. Fjárfestingarþörfin til þess að ná markmiðunum í þróunarlöndum er áætluð nálægt 3,3 til 4,5 biljónum bandaríkjadala á ári. Ráðstafanir til þess að takmarka hækkun hitastigs jarðar við 1,5°C umfram það sem var fyrir iðnvæðingu munu krefjast um 100 milljarða bandaríkjadala ár hvert fram til ársins 2020 frá þróuðu löndunum einum. Á sama tíma er ljóst af hinum nýju markmiðum að áskoranirnar um sjálfbæra þróun snúast ekki lengur einvörðungu um það sem er að gerast í fátækum löndum – þær eru áskoranir til okkar allra. Til þess að takast á við þessu hnattrænu og samtvinnuðu áhyggjuefni þarf fjölbreyttur hópur hagsmunaaðila að taka höndum saman – og einkageirinn verður að gegna lykilhlutverki.

Fjárfesting í sjálfbærri þróun er skynsamleg fjárfesting

Viðskiptaleg rök fyrir markmiðunum um sjálfbæra þróun eru sterk. Í skýrslunni um þróunarsamvinnu 2016 kemur skýrt fram að fjárfesting í sjálfbærri þróun er skynsamleg fjárfesting. Fyrirtæki sem fella sjálfbærni inn i viðskiptalíkön sín eru arðbær og sýna árangur með jákvæða arðsemi fjár í formi minni áhættu, fjölbreyttari markaða og fjölbreytilegri eignasafna, aukinna tekna, minni kostnaðar og aukins vöruverðmætis. Í auknum mæli er nú litið á fjárfestingar í þróunarlöndum – jafnvel í fátækustu þróunarlöndunum – sem viðskiptatækifæri, þrátt fyrir áhættuna sem þeim fylgir. Á móti skapa fyrirtækin atvinnu, innviði, nýsköpun og samfélagsþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Í þessari skýrslu eru kannaðar fimm leiðir til þess að virkja hina miklu möguleika einkageirans til þátttöku í samstarfinu um að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun með því að koma inn með fjárfestingar í því magni og af þeim gæðum sem þarf til að styðja sjálfbæra þróun.

Fimm leiðir til markmiðanna um sjálfbæra þróun

  • 1. Bein erlend fjárfesting er langstærsta uppspretta fjármagnsflæðis til þróunarlanda og telst vera sú gerð einkafjárfestingar sem best stuðlar að þróun. Slík fjárfesting getur skapað störf, aukið framleiðslugetu, greitt fyrir aðgengi innlendra fyrirtækja að nýjum alþjóðlegum mörkuðum og leitt til útbreiðslu tækniþekkingar sem getur haft jákvæð áhrif til langs tíma. Miklar væntingar eru um að þetta fjármagnsflæði muni gegna miklu hlutverki í að staga í fjármagnsgötin sem standa sjálfbærri þróun fyrir þrifum. Samkvæmt Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróunarmál (UNCTAD) væri með samstilltum aðgerðum alþjóðasamfélagsins hægt að fjórfalda beina erlenda fjárfestingu fyrir 2030, einkum í löndum sem standa efnahagslega höllum fæti. Hins vegar eru nokkur áhyggjuefni: hægt hefur á flæði fjármagns milli landa og aukinnar viðkvæmni er farið að gæta í hagkerfum. Í 2. kafla er varað við því að ef hægir á beinni erlendri fjárfestingu eða hún dregst jafnvel saman gæti það haft alvarlegar neikvæðar afleiðingar fyrir markaði bæði í þróunarlöndum og alþjóðlegum fjárfestingarmörkuðum. Ef áætlanir um þróun eru skipulagðar á grundvelli fjárfestinga einkaaðila og opinberrar þróunarsamvinnu getur það orðið til þess að vega á móti sveiflukenndu og breytilegu eðli beinnar erlendrar fjárfestingar.
  • 2. Blönduð fjármögnun – þar sem opinberu fjármagni er veitt á langtímagrunni, t.d. til þess að draga úr áhættu einkafjárfesta – getur aukið verulega umsvif fjárfestinga í þróun. Blönduð fjármögnun býður upp á gríðarleg vannýtt tækifæri til þess að leiða saman opinbera aðila, mannúðarsamtök og fjárfesta með það að markmiði að auka með verulegum hætti fjárfestingar í þróunarlöndum. Möguleikarnir liggja í því að fjarlægja flöskuhálsa sem koma í veg fyrir að einkafjárfestar beini athygli að atvinnugreinum og löndum þar sem brýn þörf er á aukinni fjárfestingu. Til þess að herða á efnahagslegum framförum í átt til markmiðanna um sjálfbæra þróun þarf að auka blandaða fjárfestingu, en þó með kerfisbundnum hætti þannig að sneitt verði hjá tilteknum áhættuþáttum. Í 3. kafla er sjónum beint að nýtingu á blöndu opinberra framlaga til þróunarsamvinnu og framlaga mannúðarsamtaka til þess að leysa úr læðingi krafta sem gætu dugað til þess að umbreyta hagkerfum, samfélögum og lífum. Bent er á að þótt hugmyndin um að blanda saman opinberri fjármögnun og einkafjármögnun í þróunarsamvinnu sé ekki ný hafi slík blöndun gegnt jaðarhlutverki hingað til.
  • 3. Í 4. kafla skýrslunnar er lýst þeirri vinnu sem hafin er að því að vakta og mæla hvetjandi áhrif inngripa hins opinbera á einkafjárfestingu. Reiknað er með að slík inngrip verði mikilvægur þáttur í hinum nýmótaða "heildarstuðningi hins opinbera við sjálfbæra þróun" (TOSSD) þar sem settar verða fram mikilvægar upplýsingar um fjármögnunaráætlanir og bestu aðferðir, sem stuðla að því að laða að þróunarfjármagn til stuðnings við markmiðin um sjálfbæra þróun. Í nýlegri rannsókn OECD fékkst staðfest hagkvæmni þess að safna og meta gögn um bein hvetjandi áhrif ábyrgða, sambankalána og hlutdeilda í sameiginlegum fjárfestingarsjóðum; verið er að vinna að þróun svipaðrar aðferðafræði varðandi aðra fjármálagerninga. Enn er þó mikil vinna framundan, einkum að því er varðar að finna leiðir til þess að mæla óbein áhrif – hvataáhrif – opinberra inngripa á viðleitnina til þess að ná hinum hnattrænu markmiðum og takast á við loftslagsbreytingar. OECD er að samræma aðgerðir sínar og vinna er einnig í gangi á öðrum vettvangi til þess að tryggja samstillingu.
  • 4. Ef þróunarstarf á að vera sjálfbært í raun og ná til alls fólks verður það að nýtast öllum borgurum, einkum þeim fátækustu og viðkvæmustu, sem yst eru á jaðrinum. Fjárfesting í samfélagsáhrifum hefur þróast á undanförnum áratug sem nýstárleg nálgun að því að auka ávinninginn af viðskiptum fyrir fátækasta og afskiptasta fólkið í heiminum. Viðskiptafyrirtæki sem skapa mælanlegan samfélagslegan og fjárhagslegan ávinning geta fært skilvirkni, nýsköpun, ábyrgð og aukin umsvif inn í þróunarstarfið. Opinbera fjármuni má nýta til þess að styrkja og stuðla að fjárfestingum af þessu tagi með því að deila áhættu og einnig með því að styðja við heilbrigt viðskiptaumhverfi, einkum í fátækustu þróunarlöndunum og í löndum sem eru að koma úr stríðsátökum. Þessi nýju viðskiptalíkön geta bætt upp þau sem fyrir eru, einkum á sviðum sem ekki njóta hefðbundinna vinsælda hjá viðskiptafyrirtækjum en skipta sköpum fyrir fátækt fólk, svo sem menntun, heilbrigðis‑ og félagsþjónustu.
  • 5. Til að viðskipti komi góðu til leiðar án þess að valda skaða þarf að setja einkageiranum sömu alþjóðlegu viðmið og öðrum varðandi gagnsæi og ábyrgðarskyldu. Í 6. kafla er litið á grunnreglur og viðmið ábyrgra viðskiptahátta og bent á að með því að fylgja þessum reglum geta ábyrg fyrirtæki náð forskoti sem skilar þeim hagnaði en veldur jafnframt jákvæðum áhrifum fyrir fólk og jarðarkringluna. Viðskiptafyrirtæki og stjórnvöld eiga sameiginlegu hlutverki að gegna við að innleiða, styðja og greiða fyrir ábyrgum viðskiptaháttum. Leiðbeiningar OECD til fjölþjóðlegra fyrirtækja hjálpa þeim að ná því besta úr framlagi sínu, styðja þróun ábyrgra viðskiptahátta til þess að tryggja að viðskiptagæði fylgi umfangi fjárfestinga þannig að af hljótist samfélags‑, efnahags‑ og umhverfisávinningur.

Í skýrslunni eru sett fram dæmi um það hvernig OECD er að stuðla að skoðanaskiptum og skapa tækifæri til samstarfs meðal allra þeirra mörgu hagsmunaaðila sem koma að sjálfbærri þróun. Einnig eru sett fram raunhæf dæmi sem sýna hvernig fyrirtæki eru nú þegar að vinna að því að efla sjálfbæra þróun og hagvöxt sem gagnast öllum í þróunarlöndum. Á þessari öld, sem einkennist af hnattvæðingu, hröðum tækniframförum og samkeppni um dýrmætar auðlindir, er mikilvægt að minnast þess að viðskipti blómstra þegar heimurinn blómstrar.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

Þeir eru fáanlegir án endurgjalds í netbókaverslun OECD www.oecd.org/bookshop

Hafið samband við Réttinda- og þýðingareiningu OECD, framkvæmdanefnd fjölmiðlunar og almannamálefna ef frekari upplýsinga er þörf hjá: [email protected] eða með faxi: +33 (0)1 45 24 99 30.

OECD Rights and Translation unit (PAC)
2 rue André-Pascal, 75116
Paris, France

Heimsækið vefsíðu okkar www.oecd.org/rights

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2016), Development Co-operation Report 2016: The Sustainable Development Goals as Business Opportunities, OECD Publishing.
doi: 10.1787/dcr-2016-en

 Visit the OECD web site