OECD Multilingual Summaries

OECD Business and Finance Outlook 2017

Summary in Icelandic

Cover
Read the full book on:
10.1787/9789264274891-en

Horfur í viðskiptum og fjármálum innan OECD 2017

Útdráttur á íslensku

Það viðhorf nýtur vaxandi gengis að hnattvæðingin komi stórum samfélagshópum ekki að gagni, bæði i þróuðum hagkerfum og minna þróuðum, að hún ýti undir misskiptingu og skaði ófaglært vinnandi fólk. Þótt mikið verk sé óunnið í stefnumótun einstakra ríkja í því skyni að bæta árangur er einnig brýn þörf á betri samhæfingu þjóðmálastefnu við alþjóðlega stefnumótum og jafnari samkeppnisstöðu í alþjóðlegri viðskiptastarfsemi fyrirtækja. Það gerir þá kröfu til þeirra landa sem þátt taka í alþjóðlegum mörkuðum að þau fylgi sameiginlegum gegnsæjum meginreglum sem samrýmast markmiðum um samkeppni, viðskipti og alþjóðlega fjárfestingu, öllum til hagsbóta. En stjórnarhættir í viðskiptum, alþjóðlegum fjárfestingum og samkeppni hafa ekki tekið nægum framförum á heimsvísu til þess að betri árangur náist. í þessari útgáfu Horfanna í viðskiptum og fjármálum eru sett fram óyggjandi gögn sem byggja á athugunum og sýna hvernig ójöfn samkeppnisstaða getur fyrirgirt stærðarhagkvæmni, stuðlað að óhagkvæmri ráðstöfun fjármuna og grafið undan sanngjarnri samkeppni. Þar er einnig fjallað um alþjóðlega stjórnarhætti („reglur“ og „venjur“) í fjölmörgum málaflokkum.

Gengismál og stýring fjármagnsreikninga

Hvort heldur er í þróuðum hagkerfum eða nýhagkerfum stuðlar gengisstýring, ásamt stýringu fjármagnsreikninga og/eða verðstýringu verslunarvarnings í því skyni að tryggja markaðshlutdeild (með ríkisstuðningi), að því að raska eðlilegri verðmyndun. Slíkt framferði getur komið í veg fyrir aukningu í sölu fyrirtækja frá einu landi til annars, til hagsbóta fyrir önnur fyrirtæki, og þannig lokað leiðum til aukinnar framleiðni sem fylgir stærðarhagkvæmni. Samþykktir OECD um afnám hafta hafa þann tilgang að stuðla að gegnsæi í stefnumótun um stýringu fjármagnsreikninga og leggja grunn að opnari vinnubrögðum til langs tíma en taka jafnframt tillit til þess að ríki eru á mismunandi stigum efnahagsþróunar.

Fjármálaeftirlit og áhætta

Misræmi í reglusetningu um fjármál veldur því að áhætta flyst yfir á ný svið. Gríðarlegar framfarir hafa átt sér stað með umbótum á eftirliti með bankastarfsemi en eftir standa tvö afbrigðileg frávik sem ganga þvert á stefnumið um jafna samkeppnisstöðu. Annað frávikið leiðir af þeim mun sem er á hlutverki banka og hlutverki fjármálamarkaða í mismunandi umdæmum, sem leiðir til samkeppni og sjónarmiða um önnur markmið en fjármálastöðugleika þegar reglur eru samdar. Hitt frávikið varðar Basel áhættuvægiskerfið, sem veitir bönkum svigrúm til þess að beita mismunandi skuldsetningu í tengslum við sama fjármagn í mismunandi bönkum og umdæmum. Þegar á heildina er litið gæti viðleitni til þess að takast á við niðurstöður umbóta á eftirliti og breytinga á viðskiptalíkani banka leitt til aukinnar smithættu – þetta atriði er til athugunar hjá Ráðgjafarnefndinni um fjármálastöðugleika og hjá öðrum alþjóðlegum stofnunum.

Fyrirtæki í ríkiseigu og umframafkastageta

Röskunin, sem leiðir af niðurgreiðslum og öðrum ívilnunum sem fyrirtæki í ríkiseigu njóta, hefur tilhneigingu til þess að vera meiri en hjá einkafyrirtækjum. Fyrirtæki í ríkiseigu, flest þeirra skráð í Asíu, hafa aukið hlutdeild sína í mikilvægum atvinnugreinum. Mikilvægt í þeim efnum er að meðal þeirra eru risastór fjármálafyrirtæki sem gegna lykilhlutverki í fjármögnun annarra fyrirtækja í ríkiseigu í flestum atvinnugreinum, stundum á ívilnandi kjörum. Þessi og aðrar útgáfur ríkisstuðnings valda áhyggjum um óréttmæta viðskiptahætti og leiða í sumum atvinnugreinum til umframafkastagetu. Enn er þörf á reglum til þess að tryggja jafna samkeppnisstöðu einkafyrirtækja og fyrirtækja í ríkiseigu. OECD hefur gefið út ýmsar leiðbeiningar um bestu aðferðir varðandi stjórnarhætti og eignarhald ríkisfyrirtækja og er þeim ætlað að taka með beinum hætti á mörgum þessara mála.

Alþjóðlegir einokunarhringir

Samráð gegnum alþjóðlega einokunarhringi getur svipt neytendur þeim ávinningi sem leiðir af samkeppni milli fjölþjóðlegra fyrirtækja og skilað ávinningnum í staðinn til eigenda hlutabréfa með hærri verðlagningu og auknum hagnaði. Umfang yfirverðlagningar af þessum toga er mikið. Komið var upp um tvö hundruð og fjörutíu alþjóðlega einokunarhringi á tímabilinu frá 1990 til 2015 og námu fjárhæðirnar sem um ræðir 7,5 trilljónum Bandaríkjadala. Þörfin á því að takast á við alþjóðlega einokunarhringi og yfirverðlagningu fer saman við önnur áhyggjuefni sem varða jafna samkeppnisstöðu. Samningar OECD um undirmál við útboð, viðbrögð við forhertum einokunarhringum og aðferðir til þess að bæta samvinnu milli samkeppnisstofnana hafa öll þann tilgang að takast á við þessi málefni.

Mikill kostnaður við sölutryggingar og fjármagnskostnaður

Fjármögnun fjárfestingarverkefna með hlutafjárframlögum er betri kostur en lántaka út frá langtímasjónarmiðum en engu að síður hafa skuldabréfaútboð fyrirtækja verið gríðarlega umfangsmikil frá því að fjármálakreppan ríkti (einkum í nýmarkaðsríkjum) meðan dregið hefur úr hlutafjárútboðum. Á sama tíma og fyrirkomulag eins aðalsölutryggjanda hefur vikið fyrir fyrirkomulagi þar sem fleiri bankar bindast samtökum yfir landamæri um þátttöku í sölutryggingu skuldabréfaútgáfa fyrirtækja virðist hafa átt sér stað aukning á háum þóknunum og samræmdri verðlagningu. Í tilvikum þar sem um er að ræða útboð undir 100 milljónum Bandaríkjadala er meðalkostnaðurinn á bilinu 9% til 11% á hver viðskipti. Það þýðir að fyrir hver 10 útboð fer markaðsvirði heils nýs fyrirtækis í þóknanir. Það hækkar ávöxtunarkröfu hlutafjárins og vinnur gegn arðbærum langtímafjárfestingum. Eftirlit með samkeppnisstöðu á þessum mörkuðum gæti leitt til betri árangurs.

Alþjóðlegar viðskiptahindranir í fjármálaþjónustu

Beinar viðskiptahindranir í fjármálaþjónustu (eins og aðrar viðskiptahindranir) vinna gegn skilvirku alþjóðlegu efnahagslífi. Í þessari útgáfu Horfanna eru gefin þrjú dæmi: kostir alþjóðlegra endurtrygginga, landsbundnar reglur og reglugerðir um lífeyrissjóði, sem hvetja til fjárfestinga innanlands, og útganga Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit). Að því er varðar Brexit, veita skuldbindingar samkvæmt Samþykktum OECD um afnám hafta gott svigrúm til þess að leyfa hagsýnissjónarmiðum að ráða ferðinni í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Ábyrg breytni fyrirtækja í alþjóðlegum aðfangakeðjum

Ábyrg breytni fyrirtækja varðar samfélagsleg og siðferðileg málefni jafnframt arðsemi viðskiptafyrirtækja í samhengi aðfangastjórnunar og þeirra áhrifa sem hún er talin hafa á þau samfélög sem fyrir verða. Sjálfbærar aðfangakeðjur og betri fjárhagsleg afkoma fyrirtækja geta farið saman – og „allir græða“. Áætlanir um kostgæfni í aðfangastjórnun bjóða upp á mikla möguleika til þess að bæta traust og draga úr áhrifum samfélagslegs óróa og umhverfisröskunar á viðskipti og flæði alþjóðlegra fjárfestinga, sem standa í vegi fyrir því að fyrirtæki feti leiðir til bættrar framleiðni og sjálfbærs vaxtar. Samningar OECD varðandi fjölþjóðleg fyrirtæki og beitingu kostgæfni í aðfangakeðjum henta vel til þess að ná slíkum markmiðum.

Mútur og spilling

Mútur til erlendra embættismanna og spilling valda bjagaðri ráðstöfun fjármuna og grafa undan ávinningnum sem leitt gæti af hnattvæðingu með því að beina efnahagslegum ábata til einstaklinga (þar með talið einræðisherra og herforingja) í stað þess að hann nýtist til fjárfestinga í tækni, menntun og gæðum innviða í gestgjafalandinu. Bætt fylgni við samning Efnahags‑ og framfarastofnunarinnar gegn mútugreiðslum og framkvæmd hans mundi hjálpa til að fjölga erlendum fjárfestingarkostum í löndum þar sem spilling er minni og þannig hjálpa til að jafna samkeppnisaðstöðu og stuðla að sjálfbærum vexti. Einarðari framkvæmd samningsins mundi einnig hjálpa til þess að bæta ásýnd hnattvæðingarinnar í hinu alþjóðlega efnahagslífi.

© OECD

Þessi útdráttur er ekki opinber OECD þýðing.

Eftirprentun þessa útdráttar er leyfileg, að því tilskildu að getið sé höfundarréttar OECD og titils upprunalegu útgáfunnar.

Fjöltyngdir útdrættir eru þýdd ágrip af útgáfum OECD sem upphaflega voru gefnar út á ensku og frönsku.

OECD

Read the complete English version on OECD iLibrary!

© OECD (2017), OECD Business and Finance Outlook 2017, OECD Publishing.
doi: 10.1787/9789264274891-en

 Visit the OECD web site